Innrás Rússa í Úkraínu er ólíðandi brot gegn sjálfstæði þjóðar

Rússnesk stjórnvöld hafa hafið styrjöld í Evrópu gegn frjálsri og fullvalda þjóð, tilverurétti hennar og mannréttindum. Átökin ógna friði í heiminum enda er engin vissa fyrir því að þau takmarkist við Úkraínu. Innrásin er brot á alþjóðalögum sem samskipti þjóða byggjast á og samningum sem Rússar hafa undirgengist. Í Búdapest samningnum frá 1994 lofuðu Rússar, Bretar og Bandaríkjamenn að virða sjálfstæði og landamæri Úkraínu. 

Ljóst er að þær viðskiptaþvinganir sem Vesturlönd hafa beitt Rússa hingað til duga hvergi nærri til að stöðva yfirgang þeirra og ógnartilburði. Þörf er á miklu harðari aðgerðum þar sem viðskiptahagsmunir einstakra ríkja gagnvart Rússum verða að víkja. Þrýstingurinn verður að aukast til mikilla muna. 

Flokkur fólksins lýsir yfir fullri samstöðu með hinni hugrökku úkraínsku þjóð sem berst við ofurefli á þessari örlagastundu. Flokkurinn hvetur til þess að við tökum vel á móti þeim Úkraínumönnum sem hingað vilja leita á þessum erfiðu tímum í sögu úkraínsku þjóðarinnar og Evrópu allrar. Jafnframt lýsir flokkurinn yfir samstöðu með þeim fjölmörgu hugrökku Rússum sem hafa mótmælt árásum yfirvalda þar í landi á nágrannaþjóð og þakkar þeim Rússum hér á landi sem hafa gert slíkt hið sama. 

Við fordæmum hneykslanleg ummæli rússneska sendiherrans í fjölmiðlum þar sem hann réttlætir innrás í sjálfstætt ríki. Síðast en ekki síst fagnar Flokkur fólksins órofa samstöðu allra flokka á Alþingi í máli sem varðar sjálfan grundvöll lýðræðis, mannréttinda og sjálfstæðis þjóða.

Deila