Undanfarin ár hefur Ísland tekið við áttfalt fleiri umsóknum um alþjóðlega vernd en Danmörk, Noregur og Finnland. Eftir hina svo kölluðu „þverpólitísku“ löggjöf í málefnum hælisleitenda sem samþykkt var á Alþingi 16. júní 2016 varð í raun stökkbreyting á fjölda þeirra sem sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi.
Samþykktar voru sérreglur fyrir Ísland sem hvergi var að finna í nokkru öðru Schengen-ríki. Árið 2022 sóttu 4.520 einstaklingar um alþjóðlega vernd hér á landi og 4.155 árið 2023. Kostnaður skattgreiðenda vegna þessa hefur verið yfir 35 milljarðar kr. með tilheyrandi álagi á allt stoðkerfi samfélagsins sem þegar stendur á brauðfótum.
Árlegur kostnaður málaflokksins er t.d. jafnhár og rekstrarkostnaður allra heilsugæslustöðva á landinu. Einnig myndi hann nægja fyrir árlegum útgjöldum í rekstri allra lögregluembætta landsins eða til að fjármagna tæplega tvisvar allt viðhald á gatnakerfi landsins.
Hvernig voga ég mér að benda á rekstrarkostnaðinn við heilsugæslu, lögreglu og gatnakerfið og um leið bera það saman við kostnaðinn af hælisleitendakerfinu?
Það er vegna þess að ég er einn fárra kjörinna fulltrúa á Alþingi Íslendinga sem viðurkenna að ríkissjóður er ekki ótæmandi auðlind. Ég viðurkenni að sama krónan verður ekki notuð tvisvar.
Ég viðurkenni að það ríkir algjört ófremdarástand í málaflokknum og það er alfarið á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins sem farið hefur sleitulaust með málaflokkinn í 10 ár. Ég viðurkenni að Ísland er uppselt fyrir fleiri umsóknum um alþjóðlega vernd þar til við höfum unnið úr megninu af þeim málum sem eru fyrirliggjandi nú þegar og bíða úrlausnar.
Það er í raun óútskýranlegt hvernig nokkrum dettur í hug að það sé sjálfsagt að hella áfram í barmafullt glas svo út úr flæði.
Nú hafa stjórnarflokkarnir sent frá sér ofvaxna fréttatilkynningu um að þau hafi náð samkomulagi um nauðsynlegar breytingar á útlendingalögunum sem eigi að draga úr fjölda þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd.
Einungis 1,7% fréttatilkynningarinnar snerust um beinar aðgerðir. Allt annað var „viljayfirlýsing“ sem engin vissa er fyrir að nokkru sinni nái fram að ganga.
Í frumvarpi dómsmálaráðherra er lagt til að afnema séríslenskar reglur, þannig að framvegis þurfi að bíða í tvö ár til að geta sótt um fjölskyldusameiningu og ekki verður lengur hægt að fá vernd á Íslandi ef fólk er þegar með vernd í öðru Schengen-ríki. Flokkur fólksins styður þessar breytingar, en telur þær langt frá því að duga til að tryggja aukna skilvirkni og festu í málaflokknum.