Á málþingi Velferðarsjóðs barna um barnafátækt, í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar laugardaginn 26. mars síðastliðinn, kom fram sú spurning hvort við höfum yfir höfuð efni á því að hafa börn í fátækt. Þar kom fram spurning um hvort eðlilegt væri að rukka börn fyrir skólamáltíðir, leikskóla, tannréttingar, fótboltaæfingar eða tónlistarnám.
Auðvitað á þetta allt að vera gjaldfrjálst fyrir börnin. Þá eiga foreldra þeirra auðvitað að fá þau laun og/eða lífeyrislaun sem eru mannsæmandi og vel yfir fátæktarmörkum. Ísland er eitt ríkasta samfélag í heimi og það er okkur til háborinnar skammar að hafa þúsundir barna í fátækt.
Það er löngu kominn tími á að hætta með endalausar ráðstefnur um fátækt barna og hvað þá að leggja fram enn eitt kökurit, línurit, súlurit og hvað þá endalausar tölur um fátækt barna. Komum velferðar- og heilbrigðiskerfinu í lag í eitt skipti fyrir öll og stöðvum strax þá ömurlegu staðreynd að fjölskyldur á Íslandi búi með börn undir fátæktarmörkum, hvað þá við sárafátækt.
Barn á aldrei að bíða eftir læknisþjónustu og hvað þá mánuðum eða árum saman. Svo langir biðlistar eiga ekki að fyrirfinnast í siðmenntuðu samfélagi þar sem mannréttindi eiga að vera í fyrirrúmi. Það er ekki í lagi að börn á biðlista eftir lögbundinni þjónustu í velferðar- eða heilbrigðiskerfinu verði fyrir líkamlegu, andlegu eða félagslegu tjóni vegna biðarinnar.
Það eru fá börn sem eru í þessum aðstæðum segja ráðamenn. Þetta eru rúmlega fimm þúsund börn sem eru í fátækt. Eru það fá börn? Þá er nær annar eins fjöldi barna á fátæktarlínunni eða rétt fyrir ofan hana.
Er eðlilegt að skerða barnabætur við lægstu lífeyrislaun frá Tryggingastofnun ríkisins, sem eru fyrir vel undir fátæktarmörkum? Nei, auðvitað ekki, en samt gerir ríkisstjórnin það. Jaðarsettar fjölskyldur með börn úti í horni velferðar- og heilbrigðiskerfisins eru okkur hér á Íslandi til háborinnar skammar.
Að jaðarsetja fólk sem glímir við fötlun, veikindi eða bara elli er ríkisstjórninni til háborinnar skammar. Að segja fyrir kosningar að þeir verst settu í okkar samfélagi geti ekki beðið lengur eftir réttlæti og gera síðan ekkert í því, heldur leyfa málum að þróast í þveröfuga átt næstu árin er fáránlegt.
Á fyrrnefndri ráðstefnu kom fram um fátækt barna að hver króna sem sett er í það að útrýma fátækt skilar sér tífalt aftur og ég er sannfærður um að hún skilar sér í raun hundraðfalt til baka ef við tökum inn í dæmið andlegan, líkamlegan og fjárhagslegan ávinning samfélagsins af því að útrýma fátækt barna.
Flokkur fólksins segir: Eitt barn á biðlista í velferðar- og heilbrigðiskerfinu er einu barni of mikið. Eitt barn í fátækt er einu barni og of mikið.