Það var kaldhæðnislegt að lesa ummæli höfð eftir ábúðarfullum Ólafi Ísleifssyni fyrrum þingmanni og þingflokksformanni Flokks fólksins sl. mánudag í Morgunblaðinu. Þar sagði hann meðal annars að: „Stjórnmálaflokki og þeim sem hafa verið settir til starfa á hans vegum stafar mikil orðsporshætta af slíkri skipan mála eins og nú hefur verið staðfest að er uppi hjá Flokki fólkins.“
Á spjöld sögunnar
Þarna talar maður sem nýverið hefur fullkomlega af eigin frumkvæði og hvötum eyðilagt eigið orðspor sem stjórnmálamaður með því að taka þátt í samsæri sem hefur kastað rýrð á æru þings og þjóðar. Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason félagi hans eru nú farnir í sögubækurnar sem fyrstu þingmenn lýðveldissögunnar sem eru látnir sæta ábyrgð fyrir gjörðir sínar með því að þeir eru reknir úr sínum eigin flokki fyrir afbrot sín. Engir nema þeir sjálfir frömdu þau ótrúlegu afglöp að fara til samsærisfundar við stjórn flokks pólitískra andstæðinga Flokks fólksins á Klaustur Bar, steinsnar frá Alþingishúsinu þann 20. nóvember síðastliðinn. Öll heimsbyggðin hefur þegar fengið að frétta af því í fjölmiðlum hvað gerðist þar.
Þetta var í annað sinn á stuttum tíma sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins hefur forgöngu um að leiða smánun og skömm yfir sína eigin þjóð á alþjóða vettvangi. Fyrra skiptið var hið makalausa Wintris-mál sem kostaði hann forsætisráðherrastólinn. Er þjóðin ekki komin með nóg af svona stjórnmálamönnum?
Flokkur fólksins var tilefnið
Ég ætla ekki að rekja hér í smáatriðum hvað gerðist á þessum fundi. Það hafa fjölmiðlar gert. Ég vil þó benda á að þessi drykkjufundur, sem að stórum hluta fór fram á þingfundartíma, hafði skýrt markmið. Það var að fá Ólaf Ísleifsson þá þingflokksformann Flokks fólksins og Karl Gauta Hjaltason þá varaformann þingflokks og stjórnarmann í Flokki fólksins til að ganga í Miðflokkinn. Þess vegna sat gervöll stjórn Miðflokksins á barnum Klaustri með þeim. Tilefni fundarins augljóst, þessi „hættulegi“ flokkur fátæka fólksins sem auðmaðurinn Sigmundur Davíð og félagar hans vildu fyrir hvern mun koma fyrir kattarnef.
Þetta er ástæða þess að umræðan á Klausti þróaðist með þeim hætti sem við heyrum á upptökum þaðan. Það var farið markvisst í að svívirða samstarfsfólk Ólafs og Karls Gauta í þingflokki Flokks fólksins. Um leið var þeim sjálfum hælt í hástert. Þeir létu sér þetta allt vel líka. Svo var rætt hvernig búið skyldi til pláss fyrir Ólaf í embætti nýs þingflokksformanns Miðflokksins en Gunnar Bragi Sveinsson taldi sig eiga í vændum örugga sendiherrastöðu í bitlingaskiptum við Sjálfstæðisflokkinn. Í framhaldinu af umræðunni um Flokk fólksins var svo byrjað að úthúða öryrkjum og fötluðum. Konur, sem af einhverjum ástæðum voru taldar ógna þessum körlum sem þarna voru samankomnir, fengu síðan sinn skammt með ömurlegu orðfæri.
Ekkert annað í stöðunni
Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason áttu aðeins eitt erindi á Klaustur Bar þetta kvöld og vissu mætavel hvað til stóð. Þeir voru að svíkja flokkinn sem kom þeim á þing. Er uppvíst varð hvað þarna hafði farið fram átti stjórn Flokks fólksins engan annan kost en að fara fram á afsögn þessara tveggja þingmanna. Þegar þeir urðu ekki við því þá var þeim vikið úr flokknum og sviptir öllum trúnaðarstöðum á hans vegum. Þeir höfðu með gjörðum sínum báðir fyrirgert öllu trausti.
Enginn stjórnmálaflokkur hefði látið forystumenn þingflokks síns komast upp með önnur eins svik án þess að slíkir stjórnmálmenn hefðu verið látnir axla ábyrgð. Með þá Ólaf og Karl Gauta áfram innanborðs hefði þingflokkur Flokks fólksins ekki aðeins verið óstarfhæfur heldur einnig meðsekur í þeirri andstyggð sem fram fór á Klaustur Bar. Orðstír flokksins ónýtur og hann rúinn öllu trausti.
Var sýnt fyllsta traust
Það kom mjög á óvart að þessir tveir menn sem félagar í Flokki fólksins höfðu borið á höndum sér og sýnt mikið traust, skyldu bregðast því með þessum hætti. Báðir gengu þeir til liðs við flokkinn haustið 2017, eftir að boðað hafði verið til kosninga þá í októberlok. Þeir komu að krásunum sem aðrir höfðu matreitt ofan í þá í boði Flokks fólksins og fengu 1. sæti í sitt hvoru kjördæminu. Eftir að þeir voru kjörnir á þing var Ólafur gerður að þingflokksformanni. Karl Gauti varð varaformaður þingflokks. Á landsfundi Flokks fólksins í september sl. hlaut Karl Gauti síðan mjög góða kosningu í stjórn flokksins. Ég sem formaður flokksins studdi þá báða eindregið í þessar trúnaðarstöður. Ég studdi líka setu þeirra í nefndum, bæði innnan þings og utan.
Báðir hafa þeir Ólafur og Karl Gauti haft full tækifæri og málfrelsi til að koma skoðunum sínum á framfæri, bæði innan þingflokks, stjórnar flokksins og á almennum flokksfundum. Á þá hefur verið hlustað, jafnvel gengið til atkvæðagreiðslu í stjórn um tillögu Karls Gauta varðandi fyrirkomulag um það hvernig staðið skyldi að greiðslu reikninga. Hann varð undir en þannig er það bara í lýðræðislegu stjórnmálastarfi. Fólk fær ekki alltaf vilja sinn. Það réttlætir þó ekki að menn geri þá hosur sínar grænar fyrir pólitískum andstæðingum.
Um fjármál
Víkjum þá að gagnrýni um að ég hafi verið prókúruhafi og gjaldkeri Flokks fólksins. Það var ég hvorutveggja og fyrir því var einföld ástæða. Flokkur fólksins er rétt tveggja og hálfs árs gamalt stjórnmálaafl. Lengst framan af barðist þessi hreyfing í bökkum fjárhagslega enda að upplagi mestan part stofnuð fyrir mitt frumkvæði af fátæku fólki; öryrkjum og öldruðum til að berjast gegn örbirgð og misrétti í okkar ríka landi. Sem formaður hef ég í fullu samráði við stjórn þurft að gæta ítrustu ráðdeildar þar sem öllu skiptir að hafa fullkomna yfirsýn frá degi til dags.
Þetta hefur tekist farsællega. Flokkurinn býr nú við heilbrigðan fjárhag. Hann er skuldlaus og slíkt er afar fátítt meðal íslenskra stjórnmálaflokka í dag. Reikningar flokksins hafa aldrei hlotið athugasemdir endurskoðenda og þeim hefur verið skilað í samræmi við lög og reglur. Þeir hafa ávallt verið opnir öllum stjórnarmönnum, líka Karli Gauta Hjaltasyni. Halldór Gunnarsson sat í stjórn og þriggja manna fjárhagsráði flokksins, var með aðgang og eftirlitsheimild að heimabanka flokksins. Hann undirbjó ársreikninga ásamt gjaldkera í hendur löggilts endurskoðanda. Halldór Gunnarsson vissi um öll fjármál Flokks fólksins frá A til Ö. Það er aumt að horfa upp á Halldór, Karl Gauta og Ólaf í hefndarleiðangri nú þar sem þeir reyna að sá fræjum efasemda og tortryggni um fjármál Flokks fólksins um leið og þeir vita betur.
Ég er í dag prókúruhafi flokksins ásamt tveimur öðrum trúnaðarmönnum sem bæði njóta óskoraðs trausts. Jónína Björk Óskarsdóttir varaþingmaður í Suðvesturkjördæmi er gjaldkeri og einn prókúruhafa.
Þeir þremenningar Ólafur Ísleifsson, Karl Gauti Hjaltason og Halldór Gunnarsson þrýstu á að ég afsalaði mér prókúru og aðgangi að reikningum flokksins og færði þetta vald þeim í hendur. Stjórn flokksins tók það ekki í mál enda alla farið að gruna þessa menn um græsku færi svo að þeir fengju vald yfir fjármunum flokksins. Enda hlýtur öllum nú að vera ljóst að þeim var ekki treystandi. Okkur sem af einlægni störfum í Flokki fólksins hrýs hugur við tilhugsuninni um að þeir hefðu haft sitt fram.
Fólk sem nýtur trausts
Einnig hefur verið gagnrýnt að sonur minn skuli ráðinn verkefnastjóri á skrifstofu flokksins. Hér er því til að svara að í upphafi kom hann flokknum til hjálpar sem sjálfboðaliði. Þar var hann talinn standa sig vel og hann ávann sér traust. Fólk taldi hann hafa sýnt bæði kunnáttu og dugnað. Annað fólk en ég í trúnaðarstöðum innan flokksins vildi að hann yrði ráðinn til verkefna á borð við dagleg störf á skrifstofu, gerð nýrrar heimasíðu og fleira. Ég kom ekki nálægt því og vék af fundi þegar stjórn flokksins tók þessa ráðningu til ákvörðunar.
Fyrir ungt stjórnmálaafl eins og Flokk fólksins er afar mikilvægt að í trúnaðarstöðum sé fólk sem raunverulega er hægt að treysta gegnum þykkt og þunnt. Okkur er það enn ljósara í dag heldur en nokkru sinni fyrr og tölum þar af reynslu.
Þung raun liðinna vikna
Þróun mála síðustu vikur hefur verið mér mikið umhugsunarefni. Ég hef lært að ekki eru allir viðhlæjendur í stjórnmálum vinir. Sömuleiðis hef ég fundið á eigin skinni að það er gömul saga og ný, bæði í pólitík og atvinnulífi, að til eru karlar sem eiga afar erfitt með að sæta því að hlíta stjórn sterkrar konu. Þeir láta engin tækifæri ónotuð til að freista þess að grafa undan slíkum konum. Gera þær tortryggilegar með baknagi, dylgjum, ósannindum og hreinni illmælgi; – hatri og heift, er þeir skynja að konan er ekki reiðubúin að afhenda þeim þau yfirráð sem þeir krefjast. Það var ofan í þennan forarpytt sem alþjóð fékk að sjá í umræðunum sem fóru fram á ölkránni Klaustri. Þar sátu litlir karlar sem hötuðust út í konur, þar á meðal hina hræðilegu Ingu Sæland.
Klaustursmálið hefur verið mér erfitt en skömmin er þeirra, hvorki mín né Flokks fólksins. Framganga þeirra Ólafs Ísleifssonar, Karls Gauta Hjaltasonar og Halldórs Gunnarssonar í okkar garð hefur valdið mér miklum vonbrigðum. Nú er komið á daginn að þessir gömlu vagnhestar Sjálfstæðisflokksins hafa síður en svo reynst happafengur fyrir okkur í Flokki fólksins.
Öll þessi atburðarás og sá lærdómur sem af henni er dreginn hefur verið þungbært ferli. En við erum bjartsýn og brosandi og látum ekki deigan síga. Við getum verið stolt af verkum okkar og horfum kinnroðalaust framan í þjóðina og allt fólkið sem sýnir okkur velvilja og stuðning. Við eigum fulltrúa í dag bæði á þingi og í borgarstjórn. Framtíðin er björt! Framtíðin er okkar!