Ríkisstjórn Katrínar (VG), Bjarna (D) og Sigurðar Inga (B) hefur nú í þrjú ár unnið ötullega að því að auka fátækt fatlaðs og langveiks fólks í stað þess að bæta kjör þess. Það er sorgleg staðreynd að stór hópur öryrkja býr við sárafátækt.
Það er sorgleg staðreynd að stór hópur öryrkja býr við sárafátækt. Þetta fólk býr við fjárhagslega undirokun sem kristallast með skýrum hætti í því að um áramótin verður munurinn á örorkulífeyri og lágmarkslaunum orðinn 86 þúsund krónur á mánuði.
Þetta bil hefur breikkað stöðugt allar götur frá árinu 2007, og kallast kjaragliðlun. Það á að heita að sitjandi stjórn sigli undir forystu svokallaðs vinstri flokks (VG) sem kennir sig í kosningaáróðri sínum við jöfnuð, mannréttindi og baráttu fyrir hag fátækra. Samt hefur ekkert verið gert til að bregðast við þessari kjaragliðnun launa og lífeyris fátækra á kjörtímabilinu sem brátt er á enda. Forystufólk stjórnarflokkanna lofar öllu fögru í þessum málum fyrir kosningar. Síðan er allt svikið þegar ráðherrarnir eru sloppnir inn í hlý ráðuneytin.
Enga breytingu er að sjá nú þegar Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram sitt síðasta fjárlagafrumvarp á kjörtímabilinu. Frekar þvert á móti. Það er stefnt á aukna fátækt lægstu lífeyrisþega. Harðari sveltistefnu gegn fólki sem getur illa borið hönd fyrir höfuð sér og á svo alltof fáa málsvara í opinberri umræðu hér á landi.
Fjármálaráðherra sagði nú vikunni í svörum við fyrirspurn minni í þinginu um kjör fátækra að hann teldi að hægt væri að leysa úr vanda þeirra sem eru á því sem hann kallaði „berstrípaðar bætur“. Sá hópur væri svo fámennur. Þá spyr ég hvers vegna hann og ríkisstjórnin séu ekki búin að gera það nú þegar?
Hvers vegna hækka lífeyrislaun bara um 3,6% um næstu áramót, en nú þegar hafa matvörur hækkað yfir 10% og þá hafa einnig hækkuð húsleiga og kostnaður vegna gengissigs krónunnar haft áhrif á fjárhagsstöðu lífeyrislaunaþega, ásamt aukinni verðbólgu?
Nei, allt er hér á sama veginn. Reka skal sveltistefnu gegn veiku fólki, eldri borgurum og börnum. Þetta á ekki að líðast á Íslandi þegar komið er fram á 21. öld. Því miður eru alvarlegir gallar á velferðarkerfi okkar. Öryggisnetið er alltof víða bæði rifið og götótt. Við í Flokki fólksins erum í stjórnmálum vegna þess að viljum bæta þetta net. Við þekkjum götin af eigin reynslu. Við vitum að staðan í dag er ekki sæmandi fyrir okkur öll sem þjóð. Skömmin vegna þessa hvílir alfarið á herðum núverandi ríkisstjórnar og fjórflokkanna; Sjálfstæðisflokks, Framsóknar, Vinstri grænna og Samfylkingar. Þeir hafa skipt bróðurlega með sér völdum í þessu landi allt frá aldamótum og jafnvel lengur.