Mesta kjaraskerðing sem öryrkjar og aldraðir hafa orðið fyrir frá Hruni er kjaragliðnunin, þ.e. hlutfallsleg rýrnun lífeyris almannatrygginga miðað við almenna launaþróun í landinu ár hvert.
Lög um almannatryggingar (69. gr.) segja eftirfarandi: Bætur almannatrygginga skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.
Þrátt fyrir skýr lagafyrirmæli sem eiga að tryggja að greiðslur almannatrygginga fylgi launaþróun eru fyrirmælin virt að vettugi ár eftir ár. Ekki nóg með það, á sama tíma hefur ríkið árum saman viðhaldið bráðabirgðaákvæðum sem kveða á um að frítekjumörk skerðinga almannatrygginga skuli standa í stað. Öryrkjar og aldraðir sem freista þess að afla sér aukatekna með vinnu, lenda umsvifalaust í skerðingarhakkavél almannatrygginga. Þeim er beinlínis refsað fyrir að reyna að bjarga sér sjálfir!
Þegar lífeyrisþegar berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum fyrir dómstólum slær ríkisvaldið þá hiklaust niður. Það beitir öllum tiltækum ráðum til að fría sig allri ábyrgð á því að greiða lífeyri lögum samkvæmt. Ríkið áfrýjar öllu þannig að lögmætar greiðslur geta dregist árum saman. Þannig tekur það oftast mörg ár að fá greitt frá ríkinu. Loks þegar greiðslan berst þá níðist hún á viðkomandi einstaklingum með svívirðilegum skerðingum.
Sem dæmi um vaxandi kjaragliðnun má nefna ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hækka lífeyri almannatrygginga um 4,6% um síðustu áramót. Á sama tíma hafði launavísitalan hækkað um 7,5%. Lífeyrisþegar voru því sviptir lögbundinni kjarabót upp á 2,9%.
Svona verklag hefur viðgengist hjá ríkisstjórnum síðustu ára og áratuga. Það heyrir til undantekninga að sitjandi ríkisstjórn virði skýr lagafyrirmæli um að lífeyri almannatrygginga skuli uppfæra milli ára með tilliti til launaþróunar. Í raun er allur gangur á því hvaða mælikvarði er lagður til grundvallar við uppfærslu lífeyris. Afleiðingin er sú að kjör almannatryggingaþega eru nú 40% lægri en ef ríkið hefði fylgt eigin löggjöf. Þessi kjaragliðnun mun halda áfram að óbreyttu.
Allir stjórnmálaflokkar hafa lofað því að leiðrétta samansafnaða kjaragliðnun. Engu að síður hafa frumvörp Flokks fólksins um slíka leiðréttingu ekki verið samþykkt. Þingmenn sitjandi ríkisstjórnar hafa staðið í vegi fyrir afgreiðslu þeirra úr fastanefndum Alþingis og greitt atkvæði gegn þeim inni í þingsal. Verkin tala.
Áfram mega almannatryggingaþegar glíma við kerfi sem heldur þeim i sárri fátækt. Ekki nóg með það heldur skattleggur ríkisstjórnin þá sáru fátækt og refsar þeim sem reyna að bjarga sér sjálfir með því að afla sér aukatekna.
Skömmin er stjórnvalda!