EES-samningurinn 1994 er mikilvægasti og áhrifamesti alþjóðasamningur sem Ísland á aðild að. Ná áhrifin til efnahagslífs og löggjafar. Einungis Gamli sáttmáli frá 1262 jafnast á við mikilvægi og áhrif EES-samningsins á Íslandi.
Með Gamla sáttmála varð Ísland skattland norsku krúnunnar en skilyrði Íslendinga var að konungur léti þá ná friði og íslenskum lögum. Með sáttmálanum varð Ísland hluti af hagsvæði norsku krúnunnar. Gamli sáttmáli var skilmálaskrá Íslendinga við konungshyllingar í fjórar aldir.
Löggjafarvald var í höndum konungs og Alþingis, einkum konungs. Noregskonungur beitti sér fyrir réttareiningu innan norska ríkisins, sem leiddi til lögtöku Jónsbókar 1282, lögbókar Íslendinga um aldir og er enn í dag mikilvæg í íslenskum rétti. Með tímanum fjaraði undan löggjafarvaldi Alþingis og urðu dómstörf aðalverkefnið. Íslendingar gengust undir einveldi og afsöluðu sér sjálfstjórn í hendur konungi við erfðahyllinguna á Kópavogsfundinum 1662. Íslenskir stórbændur gerðu Gamla sáttmála til að leysa stjórnmálavanda, efla landsfrið, sem þeir gátu ekki tryggt á annan hátt.
EES-samningurinn er samstarfssamningur og er ætlað að efla viðskipta- og efnahagstengsl samningsaðila með sömu reglum til að mynda einsleitt evrópskt efnahagssvæði (EES).
Markmiði samstarfsins er náð með fjórfrelsi, sem eru frjálsir flutningar vöru, fólks, fjármagns og þjónustustarfsemi, og kerfis sem tryggir samkeppni og samvinnu í rannsóknum og þróun, umhverfismálum, menntun og félagsmálum.
Með samningnum fær Ísland aðgang að innri markaði ESB án aðildar að ESB. Á móti er Ísland skuldbundið að taka í landsrétt ESB-gerðir í viðaukum samningsins og sem sameiginlega EES-nefndin ákveður að taka upp í hann og eru hluti fjórfrelsisins, en með stjórnskipulegum fyrirvara um samþykki Alþingis. Ísland getur hafnað að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara og vísað máli aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem ber skylda til að gera sitt ýtrasta til að ná samkomulagi sem aðilar geta sætt sig við.
Lögbókin Járnsíða hentaði ekki aðstæðum Íslendinga og var mótstaða við lögtöku hennar á Alþingi 1271, sem leiddi til lögtöku Jónsbókar 1282.
Orkustefna ESB og aðild að orkusambandi ESB hentar ekki aðstæðum Íslendinga og tekur ekki tillit til landfræðilegrar legu Íslands sem eyju í Norður-Atlantshafi fjarri meginlandi Evrópu, orkuauðlindanýtingar landsins og mikilvægis hennar fyrir sjálfstæði og efnahagslega hagsæld.
Krafa Íslands á að vera að orkustefna ESB gildi ekki um Ísland. Málsmeðferð hjá sameiginlegu nefndinni myndi skýra stöðu Íslands innan EES-samstarfsins og þýðingu hins stjórnskipulega fyrirvara til langrar framtíðar. Það myndi styrkja EES-samstarfið. Í dag er það í krísu og að óbreyttu mun grafa enn frekar undan samstarfinu vegna fullveldisafsals í orkumálum.
Raforka sem vara fellur ekki hvað Ísland varðar undir fjórfrelsi EES-samningsins því raforka flæðir ekki frjálst frá Íslandi og þjóðin hefur ekki tekið ákvörðun um að tengjast innri raforkumarkaði ESB með lagningu sæstrengs. Fráleitt er að Ísland sé að lögtaka ESB-lög um raforkuviðskipti yfir landamæri og gangist undir eftirlitsstofnun með slíkum viðskiptum þegar Ísland stundar ekki slík viðskipti. Því hefur verið haldið fram til heimabrúks að Íslandi geti hafnað því að lagður verði sæstrengur til ESB. Það er líkt og að samþykkja frjálsa vöruflutninga en hafna byggingu vöruflutningahafna sem gera frjálsa flutninga vöru mögulega. Eini þröskuldur sæstrengs er hár kostnaður, ekki vilji þjóðarinnar eða Alþingis. Sæstrengur er skilyrði raforkuviðskipa yfir landamæri.
Í 25 ára sögu EES-samningsins hefur hinn stjórnskipulegi fyrirvari aldrei verið nýttur og hefur ekki komið til þess að máli hafi verið vísað aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það dregur ekki úr gildi hins stjórnskipulega fyrirvara í EES-samstarfinu.
Engin forsenda er því fyrir aðild Íslands að Orkusambandi ESB. Með aðild að Orkusambandi ESB er Ísland að ganga inn í ESB á sviði orkumála. Í EES-samningnum var samið um orkusamvinnu, ekki þátttöku í orkusambandi. ESB-ríkin sköpuðu grundvöll fyrir orkusambandi ESB með Lissabon-sáttmálanum 2007, fimmtán árum eftir undirritun EES-samningsins 1992.
Ísland á því að hafna aðild að orkusambandi ESB. Þannig eru hagsmunir Íslands best tryggðir innan EES-samstarfsins. Líti Ísland svo á að beiting hins stjórnskipulega fyrirvara feli í sér uppsögn á EES-samningnum eða að hann sé ekki raunverulegur valkostur innan EES-samstarfsins felst í því viðurkenning á að hið raunverulega löggjafarvald á þeim sviðum sem falla undir EES-samninginn sé í raun hjá sameiginlegu EES-nefndinni. Þetta viðhorf grefur undan löggjafarvaldi Alþingis og með tímanum mun fjara undan því. Það hefur gerst áður í sögunni.
Fullveldi þjóðarinnar í orkumálum hefur reynst okkur Íslendingum heilladrjúgt og á því höfum við byggt velmegun okkar. Mikilvægt er að þjóðin hafni í alþingiskosningunum því fullveldisafsali sem á sér stað með innleiðingu orkustefnu ESB.
Segið NEI við orkusambandi ESB með því að kjósa Flokk fólksins á kjördag.
Eyjólfur Ármannson, oddviti norðvesturkjördæmis