Klipið af velferðarsviðinu

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það ástand sem ríkir í samfélaginu og heiminum öllum vegna heimsfaraldursins. Óvissutímar hafa sjaldan verið meiri, ekki síst vegna þess að ekki er vitað hvenær bóluefni kemur við COVID-19. Reykjavíkurborg, eins og önnur sveitarfélög, er að fá á sig þungan skell. Á tímum sem þessum er forgangurinn skýr, eða ætti að vera það. Það er líf og heilsa og að halda uppi fullnægjandi grunnþjónustu, sem vermir efstu sæti forgangslistans.

Til að geta kallast samfélag með réttu þarf grunnþjónusta að vera í lagi og er það hlutverk borgarinnar að sjá til þess að velferð íbúanna sé ávallt höfð í fyrirrúmi. Engu að síður gerir borgarstjóri kröfu um að klipið verði af velferðar-, skóla- og frístundasviði. Í engu er slakað á hagræðingarkröfu á sviðinu, um að hagræða um 0,5% þrátt fyrir þær erfiðu aðstæður sem uppi eru vegna COVID-19. Borgarstjóri segir sjálfur í greinargerð með tillögu að rammaúthlutun „að ekki skuli, við þessar aðstæður, fara í niðurskurð til þess að koma rekstri borgarinnar í jafnvægi“.

Af hverju þá ekki að fella niður þessa kröfu þótt ekki væri nema þetta árið? Ef eitthvað er þá ætti að bæta í til að tryggja að grunnþjónustan gangi hnökralaust.

Í velferðarráði, þar sem ég sit sem aðalfulltrúi, hef ég mótmælt þessu harðlega og kvatt velferðarráð til að sætta sig ekki við hagræðingarkröfuna né nokkurn annan niðurskurð hvaða nöfnum sem hann kann að nefnast. Þess utan er stefnt að gjaldskrárhækkun á ýmsa nauðsynlega þjónustu. Það samræmist ekki tilmælum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem mælast til í ályktun sinni dagsettri 27. mars 2020, að haldið verði aftur af öllum gjaldskrárhækkunum.

COVID-19 er engum að kenna. Kjarni þess meirihluta í borgarstjórn sem ríkir nú hefur ríkt lengi. Löngu fyrir faraldurinn og þau efnahagslegu áföll sem hann hefur leitt af sér, voru borgarbúar farnir að taka eftir hnökrum í þjónustu borgarinnar. Biðlistar eftir þjónustu hafa um áraraðir verið allt of langir. Nú horfir fram á skertar tekjur borgarinnar ásamt aukinni þörf borgarbúa fyrir aðstoð. Það er öllum augljóst að átaks er þörf til að koma í veg fyrir að biðlistar eftir þjónustu lengist enn frekar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spurði borgarstjóra í óundirbúnum fyrirspurnum á fundi borgarstjórnar 1. september hvort hann hefði áhuga á að ráðast í átak til að stytta biðlista. Svar borgarstjóra við fyrirspurninni var bæði óljóst og loðið.

Deila