Það er furðulegt hvernig ríkisvaldið virðist aldrei skorta fjármuni þegar kemur að því að úthluta þeim í þágu auðmanna og fyrirtækja þeirra sem moka til sín milljörðum á milljarða ofan í hreinan hagnað árlega. Það er alltaf jákvætt ef vel gengur en þá skal einnig taka tillit til þess þegar kemur að því að úthluta almannafé. Hvaða sturlun er það t.d. að almenningur greiði ríflega hundrað milljónir til að styrkja einkarekinn fjölmiðil í eigu milljarðamærings?
Milljarður var settur í að styðja við bílaleigur sem skiluðu methagnaði á árinu. Styrkur til að aðstoða við kaup á rafbílum. Annar milljarður klæddur í græna kjólinn til að styðja við orkuskipti útgerðarinnar sem hefur skilað tugum milljarða í arð. Fyrirtæki sem maka krókinn á „sameiginlegum auðlindum okkar“ og hafa rúmlega bolmagn til að borga fyrir sig sjálf. Það er eins og ekkert eftirlit sé með því hvert peningarnir fara eða með öðrum orðum, hvar helst sé þörf á útdeilingu peninganna okkar til hagsbóta fyrir samfélagið í heild.
Tugir milljarða fara í það sem ég kalla hreint og klárt bruðl enda setur Flokkur fólksins fólkið í fyrsta sæti en myndi aldrei eyða fé í tilhæfulausar snobbráðstefnur til að sýnast eitthvað stórt á alþjóðavettvangi. Við einfaldlega erum pínulítið örríki og því fyrr sem það er viðurkennt því betra fyrir alla. Það er því óverjandi hvernig stjórnvöld eru útbelgd af mikilmennskubrjálæði á kostnað okkar minnstu bræðra og systra.
Sem dæmi má nefna óstjórnlega bruðlráðstefnu Evrópuráðsþingsins sem haldin var í Hörpu á dögunum og kostaði skattgreiðendur milljarða króna.
16 milljarðar á ári fara nú í úrvinnslu umsókna hælisleitenda um alþjóðlega vernd. Málaflokkur sem kostaði 500 milljónir fyrir ekki svo löngu. Ástæðan er ákvarðanafælni og aumingjaskapur ríkisstjórnarinnar við að koma böndum á málaflokkinn.
Það stóð heldur ekki í ríkisstjórninni að veita fyrrverandi fjármálaráðherra 6 milljarða króna heimild undir ráðuneyti í einu dýrasta húsnæði landsins, nýja Landsbankahúsinu við Austurbakka sem ég hef kosið að kalla Snobb-Hill.
Alltaf virðast vera til nægir peningar fyrir auðvaldið og snobbið en þegar kemur að því að rétta sárafátæku fólki hjálparhönd þá er allt í einu gríðarleg festa í ríkisfjármálunum.
Flokkur fólksins er með breytingartillögu við fjáraukann eins og áður þar sem við biðjum nú um 142 milljónir kr. til að greiða 2.135 eldri borgurum 66.381 kr. í jólabónus skatta- og skerðingalaust eins og við höfum fengið fyrir öryrkja. Ég vona innilega að ég þurfi ekki að upplifa NEI-mannvonsku ríkisstjórnarinnar eina ferðina enn.