Síðastliðinn föstudag var myndaður nýr meirihluti í Reykjavík. Helstu áherslumál meirihlutans eru þau sömu og áherslur nýrrar ríkisstjórnar; að rjúfa kyrrstöðu síðustu ára í uppbyggingu á húsnæði á viðráðanlegum kjörum.
Það sem er merkilegt við breytt stjórnarmynstur og breytt viðhorf þeirra sem nú stjórna borginni og sitja við ríkisstjórnarborðið er að viljinn til verka er sterkari en áður hefur tíðkast. Ráðherra húsnæðismála hefur gengið á lagið og skipað sérstakan átakshóp um uppbygginguna og nýr borgarmeirihluti hefur lýst því yfir að brotið verði nýtt land og heildarendurskoðun fari fram á svæðisskipulagi og vaxtarmörkum, með framtíðaruppbyggingu næstu áratuga að leiðarljósi. Hér er um mikla og löngu tímabæra viðhorfsbreytingu að ræða.
Eitt stendur þó upp úr. Bæði ríkið og Reykjavíkurborg ætla að vinna í nánu samstarfi við verkalýðshreyfinguna að langtímauppbyggingu og skemmri tíma lausnum. Nýjar lausnir og spennandi hugmyndir verða kynntar næstu vikur og mánuði í þeim efnum. En af hverju náið samstarf við verkalýðshreyfinguna?
Ólíkt því sem stjórnarandstaðan heldur fram hafa stjórnvöld gegnt mikilvægu hlutverki við gerð kjarasamninga. Það hefur verið regla frekar en undantekning að stjórnvöld komi að kjarasamningum og mikilvægum félagslegum umbótum, sérstaklega þegar kemur að húsnæðismálum. Sem dæmi má nefna að Byggingafélag alþýðu var stofnað með lögum 1929 og varð grunnurinn að verkamannabústöðum. Með Júnísamkomulaginu árið 1964 um byggingu 1.250 íbúða í Breiðholti, sem á endanum urðu 7.600. Með lögum um almennar íbúðir sem voru hluti af kjarasamningum árið 2015 og varð grunnurinn að uppbyggingu Bjargs og Blævar, sem hafa byggt ríflega 1.300 hagkvæmar íbúðir á síðustu sex árum. Stærstu sigrarnir sem hafa náðst í húsnæðismálum hafa þannig verið í nánu samstarfi við verkalýðshreyfinguna.
Húsnæðisfélög ASÍ og BSRB hafa, við þröngan kost og hátt vaxtastig, náð að byggja rúmlega 1.300 hagkvæmar íbúðir í hæsta gæðaflokki á síðustu árum. Það sem er merkilegt, og í raun einstakt, við þessa uppbyggingu er að öll hefur hún verið framkvæmd á kostnaðaráætlun og staðist framkvæmdatíma, sem er fáheyrt í íslenskri byggingarsögu. Verkalýðshreyfingin hlýtur því að vera fyrsti og eini kosturinn til samstarfs í þeim gríðarstóru verkefnum sem fram undan eru í húsnæðismálum.
Til að þetta geti gengið eftir þarf ríkan pólitískan vilja. Það hefur raungerst. Við í Flokki fólksins höfum því náð þeim einstaka árangri að komast í þá stöðu að hafa áhrif, raunveruleg áhrif, til að rjúfa kyrrstöðu í húsnæðismálum síðustu ára. Þær áherslur skína í gegnum sáttmála bæði ríkisstjórnarinnar og nýs borgarmeirihluta.
Við látum verkin tala.