„Land tækifæranna“

Árið 2016 kom út skýrsla UNICEF á Íslandi sem sýndi að 9,1% íslenskra barna bjó við mismikla fátækt. Ég átti afar erfitt með að horfast í augu við þessa staðreynd. Hafði sjálf glímt við sárafátækt með börnin mín fjögur. Þekkti af eigin raun sársaukann og sorgina sem fylgir því að vera föst í fátæktargildru sem lætur sér á sama standa um fórnarlömb sín.  Vanmættinum sem þessum ömurleika fylgir verður ekki með orðum lýst. Í kjölfarið stofnaði ég Flokk fólksins. 

Í síðastliðinni viku kom svo út skýrsla Barnaheilla um fátækt íslenskra barna. Kolsvört skýrsla sem sýnir svart á hvítu þá sláandi staðreynd að fátækt meðal barna hefur vaxið um tæp 44% á síðustu 6 árum og mælist nú 13,1%. Ríflega 10.000 íslensk börn búa við fátækt. Mörg þeirra við sárafátækt. 

Furðufréttir úr fílabeinsturni

Er það svona sem land tækifæra Sjálfstæðisflokksins lítur út? Ég býst ekki við að nokkur hafi gleymt kosningaslagorði þess flokks fyrir sl. kosningar: „Ísland, land tækifæranna!“

Það er með öllu óafsakanlegt að hrópa úr fílabeinsturninum „gleðitíðindi“ um frábæra stöðu samfélagsins í heild. hér drjúpi smjör af hverju strái þrátt fyrir okurvexti og blússandi verðbólgu. Að hér sé kaupmáttur hvað mestur og skuldir heimilanna sjaldan eða aldrei verið lægri. Meðaltalið frábært og jöfnuðurinn í hávegum hafður. Stéttarskiptin engin! Ef þetta eru ekki falsfréttir, þá eru falsfréttir ekki til. 

Ef sannleikurinn ómaði frá þessum sama fílabeinsturni í einhverjum takti við raunveruleikann þá myndi hann vera um auðsöfnun á fárra hendur. Um sérhagsmunagæslu fyrir fáa útvalda gæðinga sem safna auði með augun rauð á meðan aðra brauðið vantar. Röddin úr fílabeinsturninum myndi tala um 13,1% íslenskra barna sem að ósekju eru hneppt í vaxandi fátækt í samfélaginu. 

Það er ekki nóg með að þessi sorglega staðreynd vaxandi fátæktar á meðal barnanna okkar ætti að vera aðalfrétt hvers einasta fjölmiðils landsins, heldur ætti baráttan gegn þessari svívirðu að vera aðal viðfangsefni ríkisstjórnar. Staðreyndirnar tala sínu máli og ljóst að stefnuleysi stjórnvalda er algjört í málflokknum. 

Lífsgæði eru ekki einkaréttur útvalinna

Staðreyndin er sú að tíu þúsund börn búa við fátækt í þessu vellauðuga landi. Stjórnvöldum ber skylda til að bregðast við þessari neyð með því að grípa til róttækra björgunaraðgerða fyrir þessi börn og fjölskyldur þeirra. Það stóð ekki á stjórnvöldum að beita ríkissjóði til bjargar fyrirtækjum í Covid sem sum hver hafa þegar greitt sér út milljarða á milljarða ofan í arð. Fjármálaráðherra valdi sem dæmi, að nýta tæplega 6 milljarða króna arðgreiðslur Landsbankans til kaupa í bankanum sjálfum fremur en að ríkissjóður fengi þetta fé. Þetta eru hvorki meira né minna 600.000 krónur á hvert einasta fátækt barn á Íslandi.  Það munar um minna. Fátækt er þjóðarskömm og henni þarf að útrýma með öllum ráðum og það ekki seinna en strax! 

Deila