Á þriðjudagskvöldið þann 29. nóvember sl. greiddu alþingismenn atkvæði um breytingartillögur mínar við frumvarp til fjáraukalaga. Samþykkt var tillaga um eingreiðslu til öryrkja en öðru gegndi um tillögu mína um að greiða sambærilega eingreiðslu til þess hluta eldri fólks sem situr eftir á berstrípuðum greiðslum almannatrygginga og hefur ekkert annað. þetta er eldra fólk sem áður voru öryrkjar og umbreyttustu á einni nóttu í 67 ára fullfríska einstaklinga samkvæmt skilgreiningu laganna. Á svipstundu lækkuðu lífeyrisgreiðslur til þeirra sem áður höfðu fengið greitt viðbótarframlag frá TR. vegna aldurstengdrar örorku. Ég trúi því ekki að fólks sjái ekki óréttlætið og mismununina sem þarna blasir við. Í þessum hópi fátækustu eldri borgara landsins eru einnig fullorðnar konur, ömmur og langömmur sem eyddu öllum sínum starfsæviárum í það, að vera heimavinnandi húsmæður. Þessar konur eiga þar af leiðandi engin lífeyrissjóðsréttindi.
Ég lagði einnig til breytingatillögu við fjáraukann upp á 150 milljónir til hjálparstofnana sem styðja við þá sem eiga bágast í samfélaginu.. Það er athyglinnar virði að sjá hvernig raunverulega er litið á þá sem stjórnvöld halda í það sárri fátækt að þau neyðast til að standa í löngum röðum fyrir framan hjálparstofnanir til að biðja um mat. Þörfin er slík að ekki er hægt að anna allri þeirri eftirspurn sem óskað er. Oft þarf að loka á þá sem eru aftastir í röðinni þar sem maturinn er uppurin í það skiptið. Þannig verða margir frá að hverfa án þess að fá mat fyrir sig og börnin sín. Með tilliti til þess hvernig hægt er að ausa peningum í milljarða tuga vís eins og það að mubblera upp Seðlabankann og dytta að honum fyrir ríflega 3 milljarða króna. Eins og að óska eftir 6 milljörðum til að fjárfesta í Snobb Hill við Austurbakka (nýju Landsbankahöllinni). Eins og að ausa milljörðum í stólaskipti ráðuneyta. Eins og að tapa stórfé úr ríkissjóði með lækkun bankaskatts. Eins og að tapa milljörðum með því að sækja ekki aukna fjármuni til stórútgerðar sem hefur makað krókinn á sameiginlegri auðlind okkar. Hvorki meira né minna en 533 milljarðar króna frá 2009 í hreinan hagnað sjávarútvegsins og þá búið að greiða fyrir aðganginn að auðlindinni 85,9 milljarða. Ég veit ekki með ykkur en mér finnst þetta vægast sagt síðasta sort.
Tillögur mínar voru felldar. Stjórnarflokkarnir samstíga sem einn maður og sneru öll blinda auganu að sínum minnstu bræðrum og systrum.
Sjálfstæðisflokkur XD sagði NEI
Framsóknarflokkur XB sagði NEI
Vinstri hreyfingin grænt framboð XV sagði NEI
Viðreisn kaus ekki með tillögu minni um stuðning við hjálparsamtök.
Ég mun leggja fram sambærilegar breytingatillögur fyrir þriðju umræðu fjáraukalaga. Enn er von um gleðilegri jól til þeirra sem þurfa mest á hjálp okkar að halda.
Inga Sæland formaður Flokks fólksins