Lífeyririnn er okkar!

Tutt­ugu og fimm þúsund króna skerðing­ar­mörk­in vegna líf­eyr­is­sjóðssparnaðar eldra fólks hafa ekki verið hækkuð í tæp 15 ár. Hvort sem um er að ræða óðaverðbólgu eða brjálæðis­vexti, þá hunsa stjórn­völd ávallt beiðni eldra fólks um end­ur­skoðun á skerðing­un­um. Rík­is­stjórn­in kipp­ir sér lítið upp við það að al­mennt frí­tekju­mark hjá öldruðum sé mjög lágt í sögu­legu sam­hengi. Fólk er lögþvingað til að greiða í líf­eyr­is­sjóði hvort sem því lík­ar bet­ur eða verr. Því er tal­in trú um að þess­ir pen­ing­ar séu spari­fé þess, sem muni nýt­ast því til vel­sæld­ar á síðasta ævi­skeiðinu. En rík­is­stjórn­in er söm við sig nú sem endra­nær og ræðst á sparnaðinn með skerðing­ar-kruml­un­um og hrifs­ar þannig bróðurpart­inn til sín af því sem fólki var tal­in trú um að væri sparnaður sem myndi nýt­ast til auk­inna lífs­gæða á efri árum.

Nú er frum­varp Flokks fólks­ins um hækk­un skerðing­ar­mark­anna til um­fjöll­un­ar í vel­ferðar­nefnd. Frum­varpið boðar að frí­tekju­mark líf­eyristekna verði hækkað úr 25.000 kr. í 100.000 kr. á mánuði. Ef frum­varpið verður samþykkt stíg­um við mik­il­vægt sann­girn­is­skref sem gef­ur líf­eyr­isþegum 33.750 kr. tekju­auka á mánuði eða 405.000 kr. á árs­grund­velli. Það kem­ur hins veg­ar ekki á óvart að rík­is­stjórn­in láti málið sem vind um eyru þjóta, enda ná­kvæm­lega sama um ör­yggi og vel­sæld eldra fólks.

Flokk­ur fólks­ins hef­ur allt tíð for­dæmt þá aðför og eigna­upp­töku sem rík­is­stjórn­in beit­ir gegn eldra fólki. Loks þegar kem­ur að því að upp­skera gæðin sem okk­ur hef­ur verið tal­in trú um að fæl­ust í því að greiða í líf­eyr­is­sjóð er okk­ur refsað grimmi­lega með skerðing­um á skerðing­ar ofan. Líf­eyr­is­sjóðssparnaður­inn er laun­in okk­ar, eign okk­ar, rétt­indi okk­ar sem aldrei á að skerða. Eldra fólk hef­ur unnið allt sitt líf í þeirri von að eign­ast áhyggju­laust ævikvöld. Það er nöt­ur­legt að sjá stjórn­völd ráðast á það með blóðugum skerðing­um.

Það að hækka frí­tekju­mark elli­líf­eyr­is vegna líf­eyristekna frá 25.000 kr. upp í 100.000 kr. er skref í þá átt að viður­kenna eign­ar­rétt okk­ar á eig­in líf­eyr­is­sparnaði. Efri árin eiga að vera gæðaár en ekki tími kvíða og óör­ygg­is.

Flokk­ur fólks­ins viður­kenn­ir skil­yrðis­laust eign­ar­rétt okk­ar allra á líf­eyr­is­sparnaði. Flokk­ur fólks­ins hef­ur einn flokka á Alþingi bar­ist með kjafti og klóm gegn þess­ari forkast­an­legu eigna­upp­töku. Við gef­umst aldrei upp í bar­átt­unni fyr­ir rétt­læt­inu. Því sterk­ara umboð sem við fáum, þeim mun fyrr munu efri árin verða gæðaár fyr­ir alla en ekki ein­ung­is suma.

Höf­und­ur er alþing­ismaður og formaður Flokks fólks­ins.

Deila