Þingsályktun sem við í Flokki fólksins höfum nýverið mælt fyrir á þingi er að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp sem hafi að markmiði að tryggja fullkominn eignar- og ráðstöfunarrétt fólks á lífeyrisréttindum sínum, þ.m.t erfðaréttindi.
Í fyrsta lagi sé það tryggt að fólk geti valið á milli þess að greiða skyldubundinn lífeyrissparnað í sjóð sem veitir hlutfallslega réttindaávinnslu eða að greiða inn á sérgreindan reikning þar sem hægt er að velja hvernig lífeyrir er ávaxtaður.
Í öðru lagi viljum við að lífeyrisréttindi gangi að erfðum til lögerfingja að fullu þegar lífeyrisþeginn fellur frá. Erfingjar geti valið hvort lífeyrir verði greiddur út til þeirra beint eða hvort réttindin flytjist til þeirra innan kerfisins.
Þegar uppbygging lífeyriskerfisins hófst um 1969 var meginmarkmiðið sparnaður fyrir launþegann sem hann skyldi njóta góðs af á síðari hluta ævinnar. Eignarréttur sparnaðarins var óumdeildur. Undan þessu hefur verið grafið ítrekað allar götur síðan. Í dag er ráðskast með lífeyriseignir launþegans án þess að hann fái nokkru um það ráðið. Þannig hefur fólk ekkert val um það hvernig lífeyrissparnaður þess er ávaxtaður. Stjórnir lífeyrissjóða ráða ferðinni. Kaldhæðnislegt en satt að stjórnirnar eru að meirihluta skipaðar fulltrúum atvinnurekenda. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að þeir hafa gætt eiginhagsmuna í hvívetna þegar þeir í krafti ofureflis beina fjármunum í hinar ýmsu áhættufjárfestingar í eigin þágu. Dæmin sýna svo ekki verður á móti mælt að stórar fúlgur af sparifé landsmanna hafa verið brenndar upp á þennan hátt með tilheyrandi réttindaskerðingum eigendanna sjálfra.
Launþeginn er lögþvingaður til að greiða í lífeyrissjóð. 15,5% af launum sínum er hann skikkaður til að greiða í sjóð sem hann hefur nánast ekkert um að segja hvernig farið er með, sem er ekki eignarréttarvarinn og ekki erfanlegur nema að litlu leyti.
Flokkur fólksins vill skilyrðislausan eignarrétt á lífeyrisrétti, sbr. 1. mgr. 72. gr. stjórrnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, þar segir m.a. „eignarrétturinn er friðhelgur“; þannig munu verða tryggð réttindi launafólks yfir lífeyrissjóðseign sinni. Þannig munu eftirlifandi lögerfingjar lífeyrisþegans njóta fulls og óskoraðs erfðaréttar á réttindunum eins og gildir um aðrar eignir arfgjafans.
Við í Flokki fólksins viljum leyfa fjölskyldu látins sjóðfélaga að njóta góðs af lífeyrissparnaði hans. Við vitum flest að margir sem misst hafa maka sinn eiga mjög erfitt í kjölfarið. Ekki einungis af þrúgandi sorg heldur fjárhagsáhyggjum líka. Því er það óverjandi að ævisparnaður látins ástvinar skuli ekki skila sér þangað sem hann hefði sjálfur valið, heldur bætast í tæplega 6.000 milljarða hít sjóðanna en nýtast fjölskyldu hans ekki neitt.