Greinargerð.
Þegar lífeyriskerfinu var komið á fót í kjölfar kjarasamninga árið 1969 var almennur sá skilningur launafólks að skyldubundin gjöld í lífeyrissjóði mundu tryggja launafólki eignarrétt þeirra á lífeyrisréttindum. Síðan þá hefur eignarréttur fólks á lífeyri ítrekað verið takmarkaður og skilyrtur, ýmist með lögum og reglugerðum eða samþykktum lífeyrissjóða.
Fólk hefur almennt lítið val um það hvernig lífeyrissparnaður þess er ávaxtaður. Um það ráða stjórnir lífeyrissjóða mestu. Lífeyrissjóðir hafa gert mistök í fjárfestingum og stundum hafa þau mistök orðið dýrkeypt fyrir sjóðfélaga. Í slíkum tilvikum eru möguleikar sjóðfélaga til að krefjast breytinga eða hafa áhrif takmarkaðir. Sjóðfélagi sem er ósáttur við rekstur lífeyrissjóðs hefur jafnan ekki önnur úrræði en að greiða atkvæði um hvaða fulltrúi verkalýðsfélags verði skipaður í stjórn lífeyrissjóðs eða að skipta um lífeyrissjóð. Þá sitja fulltrúar atvinnurekenda tíðum einnig í stjórnum lífeyrissjóða en gagnvart þeim hefur sjóðfélagi almennt engin úrræði. Einhverjir lífeyrissjóðir hafa sett samþykktir sem heimila kjör stjórnarmanna á aðalfundi þar sem sjóðfélagar geta greitt atkvæði. Þeir eru þó undantekning frá reglunni. Þá er oft misbrestur á að sjóðfélagar séu upplýstir um þau réttindi sem þeir hafa gagnvart stjórn lífeyrissjóðs, á grundvelli sjóðsaðildar. Þótt lífeyrisréttindi eigi að njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar er varla hægt að skilgreina lífeyrisréttindi sem eign vegna þess hve lítið forræði sjóðfélagar hafa á lífeyrisréttindum.
Því er nauðsynlegt að breyta lögum þannig að þau tryggi fólki viðunandi ráðstöfunarrétt á þeim. Ef lög veita fólki ekki rétt til að hafa áhrif á hvernig réttindin eru varðveitt er lögbundin skylda um greiðslu iðgjalda í raun og veru skattheimta með óljós vilyrði um endurgreiðslu síðar. Flokkur fólksins leggur til að fólk fái að velja á milli þess að greiða í sjóð sem veitir hlutfallsleg réttindi eða að greiða inn á sérgreindan reikning sem hefur að geyma inneign þess. Fólk ætti að geta valið milli þess hvort lífeyrissparnaður þess er nýttur í áhættusamar eða hófsamar fjárfestingar. Mörgum blöskrar þær ákvarðanir sem lífeyrissjóðir taka um ráðstöfun sparnaðar þess en hafa lítil sem engin úrræði á móti. Sjóðfélagi á að hafa val um hvort lífeyrissparnaður hans er nýttur í að fjármagna byggingu kísilvers eða í kaup á verðtryggðum skuldabréfum. Því er lagt til að Alþingi feli ráðherra að leggja fram frumvarp sem tryggi fólki val á milli þess hvort lífeyrissparnaður þess veiti hlutfallsleg réttindi eða verði geymdur á sérgreindum reikningi og að sjóðfélagi geti þá valið milli sparnaðarleiða. Þannig getur sjóðfélagi, svo dæmi séu tekin, valið hvort lífeyrissparnaður hans verði ávaxtaður með útlánum til húsnæðiskaupa, varðveittur í skuldabréfum eða nýttur í áhættusamar fjárfestingar. Meðal þeirra takmarkana og skilyrða sem gilda um lífeyri fólks er sú regla að lífeyrisréttindi falla niður við andlát sjóðfélaga. Því erfast lífeyrisréttindi í skyldubundnum lífeyrissjóðum almennt ekki til eftirlifandi ættingja sjóðfélaga. Eignarréttarvernd 72. gr. stjórnarskrárinnar tryggir m.a. rétt til að ráðstafa eignum til eftirlifenda við andlát. Þessi réttur er skertur þegar lög kveða á um að réttindi sjóðfélaga falli niður við andlát. Lífeyrissjóðum er heimilt að kveða í samþykktum sínum á um rýmri rétt eftirlifenda en sá réttur er sjaldan miklu meiri en hið lögbundna lágmark. Heimild er til staðar í lögum til að kveða á um skiptingu lífeyrisréttinda milli hjóna en allt of fáir nýta þá heimild. Í stað þess að lífeyrisréttindi erfist er eftirlifandi maka aðeins tryggður makalífeyrir í 2 ár og börnum er aðeins tryggður barnalífeyrir til 18 ára aldurs. Lífeyrissjóður verzlunarmanna greiðir sem dæmi makalífeyri sem nemur 60% af réttindum sjóðfélaga og aðeins í 3 ár frá andláti sjóðfélaga eða þar til börn sjóðfélaga og maka hans ná 23 ára aldri. Barnalífeyrir hjá sjóðnum er svo greiddur þar til barn nær 20 ára aldri og er aðeins um 19.000 kr. á mánuði.
Hvað verður þá um lífeyrissparnað hins látna? Hann dreifist á heildina. Aðrir sjóðfélagar græða nokkrar krónur á meðan fjölskylda hins látna verður fyrir verulegu tekjufalli. Við ættum að hlusta á raddir þeirra sem hafa upplifað þessa hlið kerfisins; misst ástvini og orðið fyrir tekjufalli. Þeirra sem hafa þurft að flytja af fjölskylduheimilinu í minna húsnæði og leita aðstoðar hjálparsamtaka til að ná endum saman. Allt það erfiði þrátt fyrir að hinn látni hafi átt fjárhagsleg réttindi sem hefðu ella staðið undir framfærslu eftirlifenda.
Hví ekki að leyfa fjölskyldu látins sjóðfélaga að njóta góðs af lífeyrissparnaði hans? Er það ekki sanngjarnara en að deila sparnaði hans niður á sjóðfélaga lífeyrissjóðs í heild?