Loðnubrestur er mikið áhyggjuefni

Sem kona fyrrverandi sjómanns, fædd og alin upp í sjávarplássi, veit ég mætavel hvað það getur þýtt fyrir venjulegt fólk og sjávarbyggðir þegar afli bregst. Það er þungt að standa frammi fyrir því þegar fótunum er skyndilega kippt undan tekjum heilu byggðarlaganna.  Fjölskyldur og fyrirtæki verða að herða sultarólina. Margir bogna og sumir brotna.  Sveitarfélögin verða að skera niður, ríkisjóður verður af tekjum. 

Í vetur hef ég með vaxandi óró fylgst með fréttum af loðnuleit. Það hefur vakið mér ugg hve lítið hefur fundist og nú höfum við fengið þær fregnir að engin loðna verði veidd á þessari vertíð. Þetta er mikið áfall og þá helst fyrir sjávarbyggðirnar sem stunda mest veiðar og vinnslu á loðnu. Þar má helsta telja staði á borð við Þórshöfn, Vopnafjörð, Eskifjörð, Norðfjörð, Fáskrúðsfjörð, Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjar. Undanfarin ár hafa miklar fjárfestingar átt sér stað á þessum stöðum. Keypt hafa verið ný og öflug skip og mikið lagt í vinnslustöðvar í landi. Þjónustufyrirtæki við útveginn hafa sömuleiðis staðið í uppbyggingu. Nú er útlit fyrir að öll þessi atvinnutæki verið verkefnalítil næstu mánuði og fram á sumar. Fyrirtækin verða fyrir tapi, fólkið missir tekjur.

Afar mikilvægt er að stjórnvöld hefji strax vinnu við að fá yfirsýn yfir þann vanda sem steðjar að vegna þessa loðnubrests. Hver verða efnahagslegar afleiðingar fyrir fólk og sveitarfélög? Til hvaða ráða munu sjávarútvegsfyrirtækin grípa til að mæta fyrirsjáanlegum samdrætti í tekjum? Hér þarf strax að eiga sér stað samtal á milli ríkisvalds, sveitarfélaga og aðila í sjávarútvegi.

Á sama tíma verðum við að spyrja hví við stöndum nú frammi fyrir því að næst verðmætasti nytjastofn okkar er nánast hruninn? Hvað hefur farið úrskeiðis? Höfum við gert mistök í nýtingarstefnunni? Hvaða áhrif hafa umhverfisþættir á borð við hlýnun sjávar, miklar göngur makríls og fjölgun hnúfubaka norður í Dumbshafi haft á vöxt og viðgang loðnustofnsins? Hvaða afleiðingar mun það hafa ef loðnan verður í lægð á næstu árum? Hverjar verða afleiðingarnar fyrir lífríkið á grunnslóðinni í kringum landið, svo sem fuglalíf og bolfiskstofna á borð við þorskinn? Við vitum að loðnan er mikilvægt æti fyrir þann gula sem aftur er okkar langverðmætasti nytjastofn. Mun þorskurinn horast? Aukast náttúruleg afföll í stofninum meðal annars vegna þess að stóru þorskarnir leggjast í át á þeim litlu? Við þurfum að velta fyrir okkur fjölmörgum áleitnum spurningum og leita svara.

Ég hef í samvinnu við samþingmann í Flokki fólksins og alla þingmenn Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar lagt inn beiðni um skýrslu frá sjávarútvegsráðherra til Alþingis þar sem óskað er eftir ítarlegum upplýsingum um nýtingu og vistfræðilega þýðingu loðnustofnsins. Vonandi fær hún sem mestan stuðning þingsins. Hér er alvara á ferð.

Inga Sæland formaður Flokks fólksins

Deila