Ég sit hér heima umvafin kærleika og ást. Ísskápurinn fullur af kræsingum sem ég útbjó í tilefni jólanna. En hugur minn er allur hjá þeim sem eiga um sárt að binda og hvorki njóta allsnægta né húsaskjóls. Viðkvæmasti þjóðfélagshópurinn okkar sem með vitund og vilja stjórnvalda er haldið í fátækt og er bugaður af vanmætti og vanlíðan. Þetta er fólkið okkar sem er á biðlista eftir þjónustu sálfræðinga og geðlækna sem hafa það hlutverk að hjálpa þeim andlega við að öðlast jákvæðni á tilveru sem þau eru að sligast undan. Stjórnvöldum finnst eðlilegra að plástra svöðusárin í stað þess að lyfta þeim úr fátæktinni og gefa þeim kost á að taka þátt í samfélaginu. Það er á valdi örfárra einstaklinga innan ríkisstjórnarinnar að sveifla sleggjunni og brjóta niður hinar rammgerðu viðurstyggilegu fátæktargildrur sem þúsundir barna og fjölskyldna hafa verið múraðar í.
Ég hugsa til ríkisstjórnar sem kjósendur treystu til að stýra landinu okkar til farsældar fyrir alla en ekki bara suma. Ráðamanna sem hafa fótum troðið allt það traust sem þeim var auðsýnt. Ráðamanna sem í engu spara sameiginlega fjármuni okkar í stuðningi sínum við sjálftöku og græðgi en sýna enga samúð gagnvart sárafátækum og sjúkum.
Ég hef ítrekað lagt fram frumvörp og þingsályktanir sem miða að því að sækja fjármuni þangað sem nóg er af þeim fyrir. Sem dæmi vildi Flokkur fólksins hækka bankaskattinn í 0,838% sem hefði gefið um 30 milljarða króna í ríkissjóð. En nei, græðgismaskínur bankanna þarf að vernda. Það sem hryggir mig mest er að enginn þingmaður annarra flokka á Alþingi kærði sig um að hækka skattinn, þvert á móti vörðu það sumir með kjafti og klóm hræðsluáróðurs og töldu það foráttuvitlaust að hækka bankaskattinn svona mikið enda myndu þeir einungis senda reikninginn á viðskiptavini sína í formi hækkandi vaxta og þjónustugjalda.
Ef kjörnir fulltrúar hafa enn ekki áttað sig á að þeir eru löggjafinn þá ættu þeir að fá sér annað að gera. Löggjafinn setur okkur öllum reglurnar og stýrir því algjörlega hvernig við högum okkur. Líka bankarnir. Þeim er í lófa lagið að setja t.d. 6% þak á vexti þeirra og koma í veg fyrir það hrikalega snjóflóð græðginnar sem er að skella á þúsundum heimila. Löggjafinn getur tryggt eðlilega viðskiptahætti bankanna gagnvart viðskiptavinunum. Það er ekkert náttúrulögmál að þessar græðgisvélar græði hátt í hundrað milljarða á árinu án þess að leggja sanngjarnan hluta þess í ríkissjóð okkar allra.
Áfram veginn og gleðileg jól.