Ögmundur Jónasson fyrrverandi ráðherra og alþingismaður skrifar grein í Morgunblaðið sunnudaginn 12. september sem heitir „Nefnd hefur verið nefnd“. Þar segir meðal annars orðrétt: „ Er þá komið að máli málanna. Hvernig skyldu framboðin til Alþingis ætla að svara spurningu samtaka áhugafólks um spilafíkn? Styðja þau lokun spilakassa eða gera þau það ekki? Já eða nei.“
Við í Flokki fólksins segjum ekki bara já við spurningu hans heldur lögðum fram og mæltum með frumvarpi um bann við spilakössum (151. löggjafarþing – 95. fundur, 11. maí 2021 kl. 17). Þá mælti ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um happdrætti Háskóla Íslands og lögum um happdrætti (bann við spilakössum).
Í greinargerð með frumvarpi er lagt til að rekstur spilakassa verði með öllu bannaður og þar kemur einnig fram m.a. að Samtök áhugafólks um spilafíkn (SÁS) hafa undanfarin tvö ár staðið fyrir átakinu „Lokum spilakössum“, eða Lokum.is.
Stjórn SÁÁ ákvað árið 2020 að draga sig út úr rekstri Íslandsspila þrátt fyrir vænt tekjutap upp á tugi milljóna króna. Einar Hermannsson, formaður SÁÁ, sagði um ákvörðunina að þeim fyndist það ekki þess virði og ekki samræmast gildum SÁÁ að taka þátt í rekstri á spilakössum og vera þátttakandi í Íslandsspilum. Sagði hann afleiðingarnar fyrir SÁÁ beint vera tugmilljóna króna skerðingu á sjálfsaflafé en traust og virðing væri meira virði.
Þá koma þar einnig fram sláandi tölur, eins og Ögmundur bendir á, þar sem SÁS lét framkvæma skoðanakönnun um viðhorf almennings til spilakassa. Leiddi hún í ljós að um 86% Íslendinga vilja banna slíkan rekstur. Þá var 71% aðspurðra ósátt við að starfsemi í almannaþágu væri fjármögnuð með rekstri spilakassa.
Í greinargerð með frumvarpinu segir einnig að spilakassar séu hannaðir til að ýta undir spilafíkn. Ólíkt happdrætti skila þeir niðurstöðu samstundis og hægt er að taka þátt strax aftur. Það ýtir undir vanamyndun og því eru þátttakendur mun líklegri til að þróa með sér fíkn en þátttakendur í happdrætti.
Það er orðið löngu tímabært að hætta rekstri spilakassa á Íslandi. Það getur ekki réttlætt svo skaðlega starfsemi að ágóðinn renni til góðgerðarmála. Það gerir lítið gagn að innleiða svokölluð spilakort. Sú aðferð myndi hvorki leysa fjármögnunarvanda góðgerðarfélaga né vinna gegn vanda spilafíkla.
Það eina sem dugar er algert bann. Þá er það engin afsökun að vísa til þess að Íslendingar hafi aðgang að fjárhættuspilum í gegnum erlendar vefsíður.
Það er algjörlega með ólíkindum að Háskóli Íslands sé fjármagnaður með spilafíkn. Ég spyr: Hvernig í ósköpunum er það hægt að menntastofnun, þar sem siðfræði er kennd, fjármagni á sama tíma ákveðinn hluta af húsakynnum sínum með spilakössum! Gróða af spilakössum sem kemur úr vasa spilafíkla, sem er HÍ til háborinnar skammar.
Þetta er siðferðislega kolrangt. Það segir sig sjálft að spilafíkn hefur valdið gífurlegu tjóni hjá viðkomandi spilafíkli og ekki síður hjá fjölskyldu hans og vinum. Það er ekki bara fjárhagstjónið heldur andlegt og líkamlegt tjón og það skelfilega ástand sem skapast hjá viðkomandi spilafíkli.
Það er ekki hægt að réttlæta það á nokkurn hátt að ríkið setji lög sem eru til þess fallin að ákveðin félagasamtök sem eru að gera góða hluti, SÁÁ, Landsbjörg, Rauði krossinn og Háskóli Íslands, þurfi að reiða sig á spilafíkla. Það segir sig sjálft að það er okkur algerlega til háborinnar skammar að örfáir veikir einstaklingar séu að leggja aleiguna undir, aleigu sína og jafnvel fjölskyldunnar og jafnvel framfærslu fjölskyldunnar, jafnvel allt húsnæði hennar eins og við vitum dæmi um.
Það verður að segjast alveg eins og er að við verðum að taka ofan fyrir SÁÁ fyrir að draga sig út úr þessu. Það er vonandi fyrsta skrefið í þá átt að hinir geri það einnig, sjái villu síns vegar.
Við getum ekki, við eigum ekki og við megum ekki leyfa því að viðgangast að æðsta menntastofnun okkar, Háskóli Íslands, sé háð spilafíklum. Það getur ekki á neinn hátt verið réttlætanlegt að ungmenni okkar fari inn í þá stofnun til að leita sér menntunar, fari jafnvel í siðfræðideildina til að kortleggja siðferði mannkyns. Hvar á þá að byrja á því siðferði? Auðvitað byrjum við á því að tékka á því hvernig fjármögnun háskólans er háttað.
Auðvitað á ríkisstjórnin og við að sjá til þess að ekki þurfi að vera neinn vafi um að ekki eigi að fjármagna neinar svona stofnanir, eins og Landsbjörg, SÁÁ eða Rauða krossinn, með framlögum spilafíkla úr spilakössum. Því er gert ráð fyrir í 2. og 3. gr. laganna að bæta þessum stofnunum upp áætlað tekjutap.
Það er engin afsökun að segja að þetta fari í önnur spil á netinu vegna þess að spilakassarnir eru allt öðru vísi byggðir upp. Þeir eru byggðir upp til þess að valda fíkn, þeir eru byggðir upp til þess að sjá til þess að halda fólki í spilafíkn.
Því miður dagaði frumvarpið uppi í nefnd og varð því ekki að lögum, en við í Flokki fólksins munum leggja það aftur fram og hættum ekki fyrr en þetta réttlætismál verður samþykkt.
Flokkur fólksins segir: Fólkið fyrst, svo allt hitt.
Guðmundur Ingi Kristinsson, alþingismaður og oddviti Suðvesturkjördæmis