Manngerð fátæktargildra

„Manngerð fátæktargildran sem heldur okkar minnstu bræðrum og systrum í heljargreipum, rammgerist einungis í meðförum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.“

Þetta segir Inga Sæland formaður Flokks fólksins í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Greinin er skrifuð í tilefni þess að nú stendur yfir á Alþingi önnur umræða fjárlaga fyrir árið 2019. Segir Inga að það sýni svart á hvítu að enginn vilji sé til að rétta hlut þeirra sem búa við kröpp kjör.

„Það sem einkennir framgöngu ríkisstjórnarinnar er sú skefjalausa hagsmunagæsla sem hún rekur. Forgangsröðun fjármuna er bæði ósanngjörn og röng. Lítilsvirðingin gagnvart þeim sem minni máttar eru, er algjör. Ég er ekki að kalla eftir auknum fjárútlátum ríkissjóðs, einungis að óska eftir eðlilegri forgangsröðun á sameiginlegum fjármunum okkar í þágu fólksins,“ segir Inga.

„Lækka á bankaskattinn um 7 milljarða króna. En þeir eru í engum vanda. Lækka á veiðigjöldin um 4,3 milljarða króna. Undarlegt á þessum tímapunkti þegar krónan hefur lækkað um rétt tæp 15% og aukið útflutningsverðmæti útgerðarinnar svo um munar í leiðinni,“ segir Inga og vill afkomutengja hverja útgerð fyrir sig, það fyrirkomulag sé sanngjarnara fyrir alla. Þá bendir Inga á að lækkun á neðsta skattþrepi upp á eitt prósent dugi tæplega fyrir einni pizzu.

Lausn Ingu á þessu er eftirfarandi:

Þetta er ekki flókið, einungis að afnema undanþágu lífeyrissjóða til að halda eftir hjá sér staðgreiðslunni af því sem við greiðum til þeirra. Þeir s.s borga ekki staðgreiðsluna sem þegar hefur verið tekin af okkur, fyrr en við förum að taka út lífeyrisréttindin, þ.e.a.s. þau okkar sem lifa það lengi. Mismunurinn á því hvort lífeyrissjóðirnir greiða við inngreiðslu í þá eða við útborgun úr þeim, eru heilir 50 milljarðar króna á ári,“ segir Inga og bætir við að lokum:

Afnemum undanþágu lífeyrissjóðanna og forgangsröðum fjármunum okkar öðruvísi. Eins og sést hér að ofan er ég þegar komin með 76 milljarða króna sem ég vildi sjá fara til þeirra sem mest þurfa á að halda.

Ég segi það aldrei nógu oft: „Burt með biðlista, burt með skerðingar og burt með þjóðarskömmina fátækt.“

Frétt þessi birtist fyrst á  DV.is.  Sjá hlekkinn hér að neðan.

http://eyjan.dv.is/eyjan/2018/11/19/inga-saeland-er-reid-litilsvirdingin-er-algjor-burt-med-thjodarskommina/

Deila