„Það er ekkert mál hjá þessari ríkisstjórn að setja 50 milljónir í viðbót til einkarekinna fjölmiðla í eigu auðmanna og pólitískra afla, þá í heild 400 milljónir, en bara 6% af því til hjálparstofnana, þeirra stofnana sem aðstoða þá sem eru í fátækt og sárafátækt með mat og nauðsynjar,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Guðmundur beindi spurningu sinni til Katrínar Jakobsdóttur forsætirsráðherra og furðaði sig á þeirri upphæð sem öryrkjar og eldri borgarar fá úr félagshjálparpakka ríkisstjórnarinnar.
„Hvernig í ósköpunum stendur á því að ekki sé hægt að setja 400 milljónir þangað alveg eins og 400 milljónir til einkarekinna fjölmiðla í eigu auðmanna? Hvernig stendur á því að það séu bara til 25 milljónir fyrir þessa hópa? Hvernig eiga þær að skiptast og hvað verður mikið til skiptanna þegar búið er að deila þessu niður á allar þessar hjálparstofnanir? Það verða því miður smáaurar,“ sagði Guðmundur.
Katrín sagði í svari sínu að stór skref hefðu verið stigin á þessu kjörtímabili til að bæta hag aldraðra og öryrkja. Þá sagði Katrín að næsta haust yrði lagt fram frumvarp um endurskoðun á almannatryggingakerfinu.
„Það er vitað mál að mikið hefur verið unnið í þeim málum of lengi og erfitt hefur reynst að skapa sátt um framtíðarsýn um nákvæmlega hvernig þessu framfærslukerfi eigi að vera háttað,“ sagði Katrín.
„En það er orðið löngu tímabært að ráðast í breytingar til einföldunar á kerfinu og til hagsbóta fyrir örorkulífeyrisþega. Það er von á því frumvarpi í haust og ég vona svo sannarlega að Alþingi muni ljúka því máli því að það er hluti af þessari stóru mynd og það skiptir máli að við náum þeirri heildarendurskoðun á kerfinu.“