Ofurhagnaður bankanna og bankaskattur

Eitt af for­gangs­mál­um Flokks fólks­ins fyr­ir alþings­kosn­ing­arn­ar sl. haust var að inn­leiða banka­skatt­inn á ný.

Flokk­ur fólks­ins lagði einn flokka til breyt­ing­ar­til­lögu á fjár­laga­frum­varp­inu fyr­ir jól um að lækk­un banka­skatts­ins verði dreg­in til baka og aukast þá tekj­ur rík­is­sjóðs um sex millj­arða króna. Lækk­un banka­skatts rýrði tekj­ur rík­is­sjóðs um sex millj­arða króna á árs­grund­velli. Þessi lækk­un átti að leiða til betri vaxta­kjara, en raun­in er önn­ur. Bank­arn­ir voru furðu lengi að bregðast við stýri­vaxta­lækk­un­um Seðlabank­ans en brugðust við eins og kepp­end­ur í hraðasp­urn­ing­um Gettu bet­ur þegar stýri­vext­irn­ir hækkuðu. Lækk­un banka­skatts­ins gerði ekk­ert nema hækka hluta­bréfa­verð bank­anna og rýra tekj­ur rík­is­sjóðs. For­send­ur fyr­ir lækk­un hans voru ekki fyr­ir hendi.

Það er því fagnaðarefni að ráðherra Fram­sókn­ar­flokks­ins, Lilja Al­freðsdótt­ir viðskiptaráðherra, skuli ljá máls á því að banka­skatt­ur verði end­ur­vak­inn. Vaxtamun­ur á Íslandi er allt of mik­ill og bönk­un­um ber skylda til þess að lækka vexti á heim­il­in í land­inu og fyr­ir­tæki. Of­hagnaður bank­anna staðfest­ir það.

Sam­an­lagður hagnaður þriggja stóru bank­anna á síðasta ári verður yfir 80 milljaðar króna. Hann er þegar kom­inn í 74,1 millj­arð króna en Íslands­banki á eft­ir að birta töl­ur yfir hagnað sinn síðustu þrjá mánuði 2021, sem mun hlaupa á millj­örðum. Á ár­inu 2020 högnuðust stór­bank­arn­ir þrír sam­an­lagt um 29,8 millj­arða króna. Það er sama fjár­hæð og Ari­on banki og Lands­banki högnuðust um hvor á síðasta ári. Þessi hagnaður er ekki tek­inn úr loft­inu og er greidd­ur af fyr­ir­tækj­um og heim­il­um í land­inu.

Þessi of­ur­hagnaður sýn­ir að bank­arn­ir eru baggi á sam­fé­lag­inu, og mik­il­vægi þess að banka­skatt­ur­inn verði tek­inn upp að nýju og fjár­mun­irn­ir notaðir til að létta byrðar heim­il­anna, ungs fólks og tekju­lágra, að ekki sé talað um ör­yrkja og aldraða.

Ástæðan fyr­ir þess­um of­ur­hagnaði bank­anna er al­gjör skort­ur á sam­keppni á banka­markaði. Ríkið, eig­andi Lands­banka og Íslands­banka, virðist ekki hafa neina eig­enda­stefnu gagn­vart sam­keppni á banka­markaði. Að halda því fram að hærri banka­skatt­ur leiði ein­ung­is til hærri vaxta er að halda því fram að sam­keppni á ís­lensk­um banka­markaði sé eng­in og að ís­lenska ríkið, eig­andi tveggja af þrem­ur stærstu bönk­um lands­ins, hafi eng­in áhrif á ís­lensk­um banka­markaði. Stefnu­leysi eig­and­ans er al­gert.

Í júní sl. seldi ríkið 35% hluta­fjár í Íslands­banka. Verðið hef­ur nú hækkað um 60% og má því öll­um vera ljóst hvers kon­ar bruna­út­sala átti sér stað. Sala á rík­is­banka er í raun sala á áskrift á sjálf­töku á hagnaði í gegn­um banka­starf­semi um ókomna tíð í nú­ver­andi sam­keppn­is­leysi. Þrett­án árum eft­ir hrun hef­ur ekki tek­ist að byggja upp banka­kerfi sem bygg­ist á sam­keppni. Þetta er eitt stærsta vanda­málið í ís­lensku sam­fé­lagi; að banka­kerfið sé ekki kerfi sem þjón­ar al­menn­ingi held­ur ein­göngu eig­end­um sín­um.

Í fjár­lög­um þessa árs er heim­ild til að selja allt hluta­fé rík­is­sjóðs í Íslands­banka. Í fjár­lög­um er einnig heim­ild til sölu á 30% hluta­fjár rík­is­ins í Lands­bank­an­um.

Flokk­ur fólks­ins vildi að Alþingi tæki af­stöðu til þess­ara áforma með beinni hætti en bara sem heim­ild í fjár­lög­um og að greidd yrðu at­kvæði um það hvort veita ætti fjár­málaráðherra heim­ild til til að selja þess­ar mik­il­vægu og verðmætu eign­ir þjóðar­inn­ar. Flokk­ur fólks­ins lagði því til að heim­ild­ir til sölu á hluta­fé rík­is­sjóðs í Íslands­banka og Lands­banka féllu brott.

At­kvæðagreiðsla í þing­inu um þess­ar mik­il­vægu heim­ild­ir var mik­il von­brigði. Niðurstaðan var að ein­ung­is þing­menn Flokks fólks­ins greiddu at­kvæði gegn því að heim­ila sölu á Íslands­banka en þing­menn Pírata bætt­ust í hóp­inn þegar kom að Lands­bank­an­um.

Alþingi verður að koma að sölu bank­anna með bein­um og af­ger­andi hætti til að tryggja hags­muni þjóðar­inn­ar og sam­fé­lags­ins þegar kem­ur að því að ákveða eign­ar­hald á þess­um mik­il­vægu stofn­un­um sam­fé­lags­ins. Sala þarf að hafa skýr mark­mið er lúta að end­ur­skipu­lagn­ingu á lokuðum og litl­um banka­markaði á Íslandi þar sem sam­keppni er lít­il sem eng­in. Þar skipta einnig mark­mið og gæði nýrra eig­enda til lengri tíma meira máli en ein­skipt­is­greiðsla við sölu.

Rík­is­stjórn­in er stefnu­laus sem eig­andi bank­anna. Af­leiðing­in er eng­in sam­keppni og sjálf­taka í hagnaði. Stjórn­völd hafa ekki sett sér nein mark­mið þegar kem­ur að sölu og einka­væðingu bank­anna, annað en að selja þá til einkaaðila. Hvorki liggja fyr­ir mark­mið um að koma á sam­keppni eða um gæði eig­enda bank­anna, sem er grund­vall­ar­atriði. Dett­ur ein­hverj­um í hug að skyndi­lega hefj­ist sam­keppni á ís­lensk­um banka­markaði með sölu bank­anna? Auðvitað ekki.

Lær­dóm­ur­inn af síðustu einka­væðingu bank­anna og hrun­inu 2008 virðist eng­inn. Útlit er fyr­ir að næsta einka­væðing bank­anna hafi í för með sér enn eina græðgi­svæðingu ís­lensks sam­fé­lags með til­heyr­andi aðli og sjálf­töku­fyr­ir­tækj­um. Íslend­ing­ar þekkja þá sögu.

Deila