Eitt af forgangsmálum Flokks fólksins fyrir alþingskosningarnar sl. haust var að innleiða bankaskattinn á ný.
Flokkur fólksins lagði einn flokka til breytingartillögu á fjárlagafrumvarpinu fyrir jól um að lækkun bankaskattsins verði dregin til baka og aukast þá tekjur ríkissjóðs um sex milljarða króna. Lækkun bankaskatts rýrði tekjur ríkissjóðs um sex milljarða króna á ársgrundvelli. Þessi lækkun átti að leiða til betri vaxtakjara, en raunin er önnur. Bankarnir voru furðu lengi að bregðast við stýrivaxtalækkunum Seðlabankans en brugðust við eins og keppendur í hraðaspurningum Gettu betur þegar stýrivextirnir hækkuðu. Lækkun bankaskattsins gerði ekkert nema hækka hlutabréfaverð bankanna og rýra tekjur ríkissjóðs. Forsendur fyrir lækkun hans voru ekki fyrir hendi.
Það er því fagnaðarefni að ráðherra Framsóknarflokksins, Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra, skuli ljá máls á því að bankaskattur verði endurvakinn. Vaxtamunur á Íslandi er allt of mikill og bönkunum ber skylda til þess að lækka vexti á heimilin í landinu og fyrirtæki. Ofhagnaður bankanna staðfestir það.
Samanlagður hagnaður þriggja stóru bankanna á síðasta ári verður yfir 80 milljaðar króna. Hann er þegar kominn í 74,1 milljarð króna en Íslandsbanki á eftir að birta tölur yfir hagnað sinn síðustu þrjá mánuði 2021, sem mun hlaupa á milljörðum. Á árinu 2020 högnuðust stórbankarnir þrír samanlagt um 29,8 milljarða króna. Það er sama fjárhæð og Arion banki og Landsbanki högnuðust um hvor á síðasta ári. Þessi hagnaður er ekki tekinn úr loftinu og er greiddur af fyrirtækjum og heimilum í landinu.
Þessi ofurhagnaður sýnir að bankarnir eru baggi á samfélaginu, og mikilvægi þess að bankaskatturinn verði tekinn upp að nýju og fjármunirnir notaðir til að létta byrðar heimilanna, ungs fólks og tekjulágra, að ekki sé talað um öryrkja og aldraða.
Ástæðan fyrir þessum ofurhagnaði bankanna er algjör skortur á samkeppni á bankamarkaði. Ríkið, eigandi Landsbanka og Íslandsbanka, virðist ekki hafa neina eigendastefnu gagnvart samkeppni á bankamarkaði. Að halda því fram að hærri bankaskattur leiði einungis til hærri vaxta er að halda því fram að samkeppni á íslenskum bankamarkaði sé engin og að íslenska ríkið, eigandi tveggja af þremur stærstu bönkum landsins, hafi engin áhrif á íslenskum bankamarkaði. Stefnuleysi eigandans er algert.
Í júní sl. seldi ríkið 35% hlutafjár í Íslandsbanka. Verðið hefur nú hækkað um 60% og má því öllum vera ljóst hvers konar brunaútsala átti sér stað. Sala á ríkisbanka er í raun sala á áskrift á sjálftöku á hagnaði í gegnum bankastarfsemi um ókomna tíð í núverandi samkeppnisleysi. Þrettán árum eftir hrun hefur ekki tekist að byggja upp bankakerfi sem byggist á samkeppni. Þetta er eitt stærsta vandamálið í íslensku samfélagi; að bankakerfið sé ekki kerfi sem þjónar almenningi heldur eingöngu eigendum sínum.
Í fjárlögum þessa árs er heimild til að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Íslandsbanka. Í fjárlögum er einnig heimild til sölu á 30% hlutafjár ríkisins í Landsbankanum.
Flokkur fólksins vildi að Alþingi tæki afstöðu til þessara áforma með beinni hætti en bara sem heimild í fjárlögum og að greidd yrðu atkvæði um það hvort veita ætti fjármálaráðherra heimild til til að selja þessar mikilvægu og verðmætu eignir þjóðarinnar. Flokkur fólksins lagði því til að heimildir til sölu á hlutafé ríkissjóðs í Íslandsbanka og Landsbanka féllu brott.
Atkvæðagreiðsla í þinginu um þessar mikilvægu heimildir var mikil vonbrigði. Niðurstaðan var að einungis þingmenn Flokks fólksins greiddu atkvæði gegn því að heimila sölu á Íslandsbanka en þingmenn Pírata bættust í hópinn þegar kom að Landsbankanum.
Alþingi verður að koma að sölu bankanna með beinum og afgerandi hætti til að tryggja hagsmuni þjóðarinnar og samfélagsins þegar kemur að því að ákveða eignarhald á þessum mikilvægu stofnunum samfélagsins. Sala þarf að hafa skýr markmið er lúta að endurskipulagningu á lokuðum og litlum bankamarkaði á Íslandi þar sem samkeppni er lítil sem engin. Þar skipta einnig markmið og gæði nýrra eigenda til lengri tíma meira máli en einskiptisgreiðsla við sölu.
Ríkisstjórnin er stefnulaus sem eigandi bankanna. Afleiðingin er engin samkeppni og sjálftaka í hagnaði. Stjórnvöld hafa ekki sett sér nein markmið þegar kemur að sölu og einkavæðingu bankanna, annað en að selja þá til einkaaðila. Hvorki liggja fyrir markmið um að koma á samkeppni eða um gæði eigenda bankanna, sem er grundvallaratriði. Dettur einhverjum í hug að skyndilega hefjist samkeppni á íslenskum bankamarkaði með sölu bankanna? Auðvitað ekki.
Lærdómurinn af síðustu einkavæðingu bankanna og hruninu 2008 virðist enginn. Útlit er fyrir að næsta einkavæðing bankanna hafi í för með sér enn eina græðgisvæðingu íslensks samfélags með tilheyrandi aðli og sjálftökufyrirtækjum. Íslendingar þekkja þá sögu.