Opið bréf til formanns LEB

Ágæti formaður Landssambands eldri borgara, Þórunn Sveinbjörnsdóttir.

Það er sárt þegar manneskja í þinni stöðu endurtekur það í fjölmiðlum að „enginn stjórnmálaflokkur á Alþingi tali um fátækt aldraðra“. Þú veist vel að það er ekki satt.

Sem formaður LEB hefur þú fengið umsagnarbeiðni um öll þingmál sem Flokkur fólksins hefur lagt fyrir Alþingi. Þar á meðal eru þingmál um bú­setu­ör­yggi í dval­ar- og hjúkrunarrým­um, 100.000 kr. frí­tekju­mark vegna lífeyristekna, að hækk­un bóta fylgi ávallt launaþróun eins og hún kem­ur fram í launa­vísi­tölu, að hjálpar­tæki verði und­anþegin virðis­auka­skatti, af­nám vasapeningafyrirkomulagsins, aukið lýðræði og gagn­sæi í líf­eyr­is­sjóðum, stofnun hagsmunafulltrúa aldraðra og af­nám skerðinga vegna launa­tekna aldraðra. Öllum þessi sanngirnis- og réttlætismálum hafa fulltrúar Flokks fólksins mælt fyrir á Alþingi.

Í júlí 2019 vann Flokkur fólksins mál fyrir hönd ellilífeyrisþega, þar sem Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði brotið lög á eldri borgurum, með því að skerða greiðslur til þeirra með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf. Niðurstaðan í þessu máli varð til þess að ríkið greiddi 32.000 eldri borgurum um sjö milljarða króna með vöxtum. Viðbrögð LEB við þessum réttlætissigri var gagnrýni. Formaður kjaranefndar LEB skrifaði grein í Morgunblaðið þar sem hann lýsti yfir óánægju sinni með það, að eldri borgarar skyldu hafa fengið réttlæti gagnvart þessu lögbroti.

Málefni eldri borgara hafa verið forgangsmál Flokks fólksins frá því við vorum kjörin á þing. Ég hef lengi velt því fyrir mér af hverju þú, Þórunn, ásamt stjórn LEB, hefur verið svona treg til að aðstoða okkur í þessari baráttu. Nú hefur þú tilkynnt opinberlega að nýr stjórnmálaflokkur eldri borgara sé í burðarliðnum, sem fær mig til að skilja þessa framkomu ykkar betur. Það lofar ekki góðu að hefja stjórnmálaferil sinn á ósannindum um að Flokkur fólksins hafi ekki barist gegn fátækt aldraðra. Svoleiðis „pólitík“ er óheiðarleg. Það liggur í hlutarins eðli að við náum frekar árangri sameinuð en sundruð.

Deila