Orðræðan í stjórnmálum

Skotárásir á skrifstofu Samfylkingar og bíl borgarstjóra Reykjavíkur vekja mér hrylling. Ég fordæmi með öllu slíkan heigulshátt, sem einungis er ætlaður til að skapa ógn og ótta. Ég hef lengi furðað mig á þeirri óvægnu orðræðu sem fengið hefur að vaða uppi á samfélagsmiðlum. Ekki einungis um stjórnmálamenn heldur bara hvern sem er, sem viðkomandi níðskrifara er í nöp við. Andlitslausir eru þeir oft vesalingarnir sem þora ekki að tjá sig í eigin nafni, heldur geisast fram á ritvöllinn í öllum sínum aumingjaskap. Ef þessi þróun fær að halda áfram óáreitt, munu að mínu mati fáir bjóða sig fram til starfa fyrir þjóðina.

Óþverraræsin í athugasemdakerfunum

Það dylst engum, að orðræðan hefur breyst mjög til hins verra á undanförnum árum. Samfélagsmiðlar og athugasemdakerfi fjölmiðla eiga hér stóran hlut að máli. Sumir fjölmiðlar virðast oft leika sér að því að birta níðgreinar um stjórnmálafólk þar sem síðan er opnað fyrir öll ræsi í athugsemdum og skíturinn frá alls kyns fárveiku fólki og nettröllum fær að fljóta frítt um. Engin ritstjórn er á neinu og jafnvel andstyggilegasta níð og hatursorðræða fær að svífa frjálst eins og ekkert sé sjálfsagðara. Þarna fær óhróður og oft lýgi að standa án þess að þeir sem fyrir því verða fái borið hönd yfir höfuð sér. Málaferli vegna meiðyrða skila sjaldnast neinu, eru bæði dýr og tímafrek. Sá sem vogar sér að reyna að verja sig með því að svara, gerir bara illt verra og fær yfir sig óhróðurinn sem aldrei fyrr. Þarna bera viðkomandi fjölmiðlar alla ábyrgð. Ég hef oft rætt um það við samstarfsfólk mitt, að einn góðan veðurdag eigi þessi athugasemdakerfi, og annar vettvangur þar sem iðulega er skrifað um okkur sem störfum í stjórnmálum sem skítmenni og íllfygli, eftir að hafa hörmulegar afleiðingar.

Hatursorðræða í pistlaskrifum

Sýnu verra er þó þegar menn sem taka sjálfir þátt á vettvangi stjórnmálanna og sækjast jafnvel eftir því að verða kjörnir fulltrúar leggja sitt að mörkum til að viðhalda hatursorðræðunni gagnvart pólitískum andstæðingum sínum. Já, eða þeim sem eru þeim ekki samsinna í hugmyndafræðunum. Þessir hinir sömu birta ekki hatursummæli sín í kommentakerfum fjölmiðlanna, heldur í greinum og netpistlum undir merkjum sinna flokka. Þar leitast þeir við að stimpla andstæðinga sína sem meindýr, illmenni og níðinga. Í pólitískri orðræðu í aldanna rás hefur einmitt þetta verið mikilvæg aðferðafræði þeirra sem vilja helst að andstæðingunum sé komið í lóg. Það er að taka frá þeim mennskuna, fá stuðningsmenn sína til að hætta að líta á þá sem mannlegar verur, heldur eitthvað annað, kannski sem meindýr, því þá megi ganga miklu nær þeim en ella, og líta gersamlega frá því að þetta fólk eigi ástvini: maka, börn og aðra ættingja og vini sem þurfa að lesa hatursáróðurinn og illmælgina.

Viðreisn gerir andstæðinga að meindýrum

Hér er það fyrra af tveimur glænýjum dæmum sem ég vil nefna. Í Morgunblaðinu 6. janúar síðastliðinn birtist grein eftir Benedikt Jóhannesson fyrrum þingmann, fyrrum fjármálaráðherra og fyrrum formann Viðreisnar. Þar talaði hann um fólk hér á landi sem af einhverjum ástæðum styddi Donald Trump sem er „fyrrverandi“ en þó ekki þrefaldur slíkur eins og Benedikt sem var hafnað af kjósendum í síðustu þingkosningum en er nú þingmannsefni Viðreisnar og stefnir í framboð á þessu ári. Benedikt talaði um þetta fólk sem „rugludalla“ og uppnefndi það „moldvörpufólkið“. Síðan skrifaði Benedikt í lokaorðum greinar sinnar sem lesa má á vef Viðreisnar:

„Skoðanakönnun á Íslandi sýndi þó að tæplega helmingur stuðningsmanna Miðflokksins viðurkenndi að vilja kjósa Trump og nær einn af hverjum fimm í Flokki fólksins og Sjálfstæðisflokki. Það glittir í moldvörpufólkið.“

Þetta sló mig illa þó ég hafi aldrei stutt Donald Trump á neinn hátt, hvað þá haft nokkurt einasta álit á honum sem forseta, heldur þvert á móti.
Upphaf kvikmyndinnar Hótel Rwanda sem gerð var 2004 og fjallar um fjöldamorðin hræðilegu í Afríkuríkinu Rwanda 1994, rifjuðust svo sannarlega upp fyrir mér. Þar er aðalpersóna myndarinnar akandi í bíl með útvarpið í gangi. Einhver af Hútúættbálki þar í landi er að tala um af hverju hann hati fólk af Tútsíættbálki. Jú, það sé vegna þess að þeir hafi nú gert hitt og þetta, og að þeir séu kakkalakkar – skordýr. Þess vegna sé allt í lagi að útrýma þeim. Upp hófst vargöld í landinu þar sem hátt í ein milljón Tútsía voru myrt af Hútúum. Aðrir hafa beitt svipaðri orðræðu til að afmennska þá sem þeir hata. Nasistar líktu gyðingum við rottur. Í Rwanda voru það kakkalakkar, og á Íslandi árið 2021 gælir einn af meginstólpum Viðreisnar við þá hugmynd á síðum virts dagblaðs og í netpistli á heimasíðu Viðreisnar, að fólk sem er ekki sammála honum í stjórnmálum séu þriðja meindýrategundin: moldvörpur.

Reynt að rýja Bjarna mennskunni

Hitt dæmið sem ég vil nefna er netpistill sem Gunnar Smári Egilsson formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, skrifaði og birtist á vefritinu midjan.is 2. janúar sl.. Þar er spjótunum beint að Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins. Þarna segir orðrétt í lokaorðum:

„Þjóðin fyrirlítur þennan mann, skynjar vel að hann er þjóðníðingur sem vill brjóta niður allt sem einhvers virði er í samfélaginu, færa eignir og auðlindir almennings til sinna einkavina. Bjarni er það sem heitir á almennri leigubílstjórísku: algjör skíthæll. En með kerfisbundinni vinnu meginstraumsmiðla, linnulausum áróðri Kastljóss, Silfurs, Vikunnar með Gísla Marteini o.s.frv. hefur því verið haldið fram að Bjarni sé aðdáunarverður. Þetta hefur ekki haft nein áhrif á almenning, hann veit alveg hver Bjarni er og fyrir hvað hann stendur. En það hefur verið búinn til hliðarveruleiki meginstraumsmiðla þar sem umræðan fer fram, delluveröld þar sem Bjarni er landsfaðir sem allir bugta sig fyrir. Þegar staðreyndin er sú að mikill meirihluti almennings telur að maðurinn sé siðlaus og hættulegur, kannski versti stjórnmálamaður Íslandssögunnar.“


Gunnar Smári skrifar að Bjarni Benediktsson sé hættulegur og siðlaus þjóðníðingur, fyrirlitinn af öllum. Þarna er talsmaður og stofnandi Sósíalistaflokksins að reyna að taka mennskuna frá Bjarna Benediktssyni, gera úr honum ófreskju. Gunnar Smári fullyrðir að sú mynd sem hann dregur upp sé viðtekin skoðun almennings. Nú vita allir sem vita vilja að ég er í ljósára fjarlægð frá pólitískum skoðunum Bjarna og Sjálfstæðisflokksins. En að leggjast svo lágt að virða ekki skoðanir annarra þótt þær séu algjörlega úr takti við mínar, og að mér mislíki nánast hvern einasta dag þegar kemur að því að berjast fyrir þeim málstað sem ég tel mikilvægastan af öllum, að leggjast svo lágt að koma með hatursorðræðu, lygar og jafnvel gera andstæðinga mína að meindýrum á opinberum vettvangi, þá nei takk. Aldrei mun ég né Flokkur fólksins undir minni forystu svívirða annað fólk með þeim hætti sem hér er gert og ég fordæmi hér með öllu. Því segi ég við þessa góðu menn sem ég vísa til hér að ofan. Okkur mun farnast betur sameinuð en sundruð. Kærleikurinn kostar ekkert og komdu fram við aðra eins og þú vilt að sé komið fram við þig.

Inga Sæland formaður Flokks fólksins

Deila