Það er verið að beita heimili landsins ofbeldi. Það væri eins hægt að beina að þeim byssu og segja „peningana eða lífið“.
Ríkisstjórnin stendur aðgerðalaus hjá á meðan Seðlabankinn afhendir bönkunum vopnin svo þeir geti rænt heimilin. Þegar fjármunirnir hverfa versnar afkoman og þegar afkoman versnar hverfa möguleikarnir og draumarnir brotna. Þá snýst allt um að halda sjó og reyna að verja heimilið fyrir ásókn bankanna.
Við fjórtándu vaxtahækkun sína var seðlabankastjóri svo ósvífinn að hvetja fólk til að ræða við bankana um endurfjármögnun. Hann sagði að margir gætu átt möguleika, þar sem húsnæði hefur hækkað á pappír, til að skuldsetja sig meira, eins dásamleg tilhugsun og það nú er með svona vaxtafíkil eins og hann við stjórnvölinn. Í aðalatriðum er hann að hvetja fólk til að skipta yfir í verðtryggð lán sem er eins og að segja við fórnarlambið að það megi velja á milli þess að deyja strax eða taka hægvirkandi eitur.
Verðtrygging er hægvirkandi eitur sem virðist veita „skjól“ á meðan hún festir fólk í vef sem það mun líklega aldrei losna úr. Það að taka verðtryggð lán í 7,6% verðbólgu er ávísun á gríðarleg vandræði áður en langt um líður. Eftir eitt ár mun 50 milljóna verðtryggt lán sem tekið er í dag hafa hækkað um þrjár milljónir, eftir tvö ár sex og eftir fimm ár verður lánið komið í 65 milljónir og á meðan hækka þessar „hagstæðu“ afborganir stöðugt.
Á meðan stór hluti þjóðarinnar er rekinn í þessa gildru er ríkisstjórnin aðgerðalaus. Hún þykist ekkert geta gert til að stöðva stjórnlausan Seðlabanka því hann á að vera „sjálfstæður í störfum sínum“. Þótt það sé yfirleitt góð og gild stefna til að pólitíkusar geti ekki bara hækkað og lækkað gengi eftir þörfum útgerðarinnar, eins og einu sinni var, þá erum við ekki að horfa upp á það nú.
Núna erum við að horfa upp á Seðlabanka sem í stríði sínu við launþegahreyfinguna ræðst gegn heimilum landsins, þannig að þau muni jafnvel aldrei bíða þess bætur.
Ríkisstjórn sem ekki ver heimilin fyrir árásum sem þessum er vanhæf ríkisstjórn.
Hlutverk ríkisstjórnarinnar er fyrst og fremst að standa með heimilunum. En það er því miður ólíklegt að hún muni nokkurn tímann gera það.
Þegar hægvirkandi eitur verðtryggingarinnar fer að virka munu tugir þúsunda lenda í miklum erfiðleikum sem þeir þurfa ekki að lenda í, erfiðleikum sem hægt er að koma í veg í ef brugðist er við NÚNA STRAX!
Það á aldrei að líða ofbeldi!