Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ásakaði þingmenn Flokks fólksins um að beita aðferðum sem hann kýs að kalla „popúlisma“. Orð hans féllu í kjölfar fyrirspurnar Jakobs Frímanns Magnússonar, um hvers vegna ráðherrann hefur ekki enn lagt fram frumvarp um hagsmunafulltrúa eldra fólks, þrátt fyrir skýr fyrirmæli Alþingis.
Í stuttu máli samþykkti Alþingi þingsályktun Flokks fólksins um stofnun embættis hagsmunafulltrúa eldra fólks þann 13. júní 2021. Samkvæmt þessari ályktun átti félagsmálaráðherra að skipa starfshóp sem myndi semja frumvarp til laga um stofnun hagsmunafulltrúa eldra fólks. Skýrt og ótvírætt verkefni sem fól í sér mikilvægt skref í átt að bættum hagsmunum og aðbúnaði eldra fólks.
Ráðherrann skipaði ekki umræddan starfshóp fyrr en ári síðar, nokkrum vikum eftir að vinnu hópsins átti að vera lokið. Ári eftir það, vorið 2023, tilkynnti ráðherrann að starfshópurinn myndi ekki skila tilætluðu frumvarpi. Hann ætlaði s.s. sjálfur að ráða því, burtséð frá því að það væri í algjörri andstöðu við skýran vilja löggjafans. Ég hef ekki séð augljósara dæmi um algjöra vanvirðingu við löggjafarvaldið og þá ákvarðanatökuferla sem við byggjum lýðræðið á.
Er það popúlismi að krefjast þess að ráðherrar ríkisstjórnarinnar vinni vinnuna sína af heilindum og virði þingræðið? Er það popúlismi að biðja um aðgerðir sem vernda og auka lífsgæði eldra fólks? Nei, það er skylda okkar sem kjörnir fulltrúar að sjá til þess að framkvæmdarvaldið framkvæmi vilja löggjafans. Orð ráðherrans um popúlisma eru vísvitandi tilraun til að afvegaleiða umræðuna og draga úr alvarleika þess að hann hefur sem ráðherra brugðist skyldum sínum og verkunum sem löggjafinn hefur falið honum að inna af hendi. Hér gefur að líta margumtalaða þingsályktunartillögu Flokks fólksins. Dæmi nú hver fyrir sig:
Þingsályktun um hagsmunafulltrúaeldra fólks:
Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra að stofna starfshóp hagsmunaaðila auk starfsfólks ráðuneytisins sem semji frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Starfshópurinn meti m.a. hvar slíku embætti væri best fyrir komið og hvert umfang þess skuli vera. Starfshópurinn skili ráðherra drögum að frumvarpi fyrir 1. apríl 2022.
Samþykkt á Alþingi 13. júní 2021.
„Nú er það oft þannig að þegar starfshópar taka til starfa og fara að leggjast yfir málin þá komast þeir í sumum tilfellum að þeirri niðurstöðu að það geti verið skynsamlegt að gera aðra hluti heldur en þeim upphaflega var ætlað að gera.“ Guðmundur Ingi Guðbrandsson 154. löggjafarþing — 64. fundur, 5. feb. 2024. Hagsmunafulltrúi eldra fólks.
Ég veit ekki með ykkur, en ég sé ekkert annað hér á ferð en hreina og klára valdníðslu.