Réttlæti fyrir aldraða strax!

Allt frá stofnun Flokks fólksins höfum við barist fyrir afnámi skerðinga. Fyrsta frumvarp flokksins á Alþingi varðaði afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna aldraðra. Formaður Flokks fólksins Inga Sæland hefur í tvígang mælt fyrir frumvarpinu. Málið hefur enn ekki hlotið náð fyrir augum Velferðarnefndar og sætir það furðu í ljósi þess að ítarlegar greinagerðir með frumvarpinu sýna svo ekki verður um villst að afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna, fela ekki í sér aukin útgjöld ríkissjóðs, þvert á móti mun skila auknum tekjum í ríkissjóðs og það svo um munar. Það virðist því vera meginregla ríkisstjórnar og margra alþingismanna að halda uppi þessu skerðingakerfi, þrátt fyrir sýnilegan ágóða við afnám þess.

Ríkið tekur 42 milljarða af eldri borgurum í formi skerðinga á hverju ári. Samkvæmt upplýsingum frá félags- og barnamálaráðherra nema heildarskerðingar til ellilífeyrisþega vegna lífeyrissjóðstekna 37,556 milljörðum árlega. Þetta þýðir að stór hluti lífeyristekna eldri borgara fer beint í ríkissjóð. Almennt frítekjumark á tekjum aldraða er nú í sögulegu samhengi mjög lágt. Markmið Flokks fólksins er að auka sanngirni í almannatryggingakerfinu og hvetja til sparnaðar lífeyrisþega með því að afnema skerðingar.

Flokkur fólksins er raunsær þar sem vitað er að markmiðinu verður ekki náð í einu stökki heldur þarf að afnema óréttlátar skerðingarnar með smáum en öruggum skrefum.  Fyrir liggur nú frumvarp Flokks fólksins í meðförum þingsins. Það felur í sér hækkun á frítekjumarki lífeyristekna úr núgildandi 25.000 kr. í 100.000 kr. á mánuði. Eitt sanngirnisskref sem gefur lífeyrisþegum auknar 75.000 kr. á mánuði eða 900.000 kr. á ársgrundvelli. Þetta er jú það sem fólki var talin trú um að væri sparifé þess. Fólk er lögþvingað til að greiða í lífeyrissjóði hvort sem því líkar það betur eða verr. Síðan kemur ríkið með krumluna og hrifsar bróðurpartinn til sín í formi skerðinga. Flokkur fólksins segir hingað og ekki lengra, slík eignarupptaka og valdníðsla á aldrei að eiga sér stað. 

Sigurjón Arnórsson framkvæmdastjóri Flokks fólksins

Deila