Virk samkeppni í sjávarútvegi

Greinargerð.

Til að tryggja virka samkeppni og sporna við því að veiðiheimildir safnist á fáar hendur eru í lögum um stjórn fiskveiða ákvæði sem kveða á um að samanlögð aflahlutdeild tengdra aðila megi ekki fara umfram ákveðið hlutfall heildarafla. 

Það er mikilvægt að tryggja virka samkeppni í fiskveiðum. Virk samkeppni í sjávarútvegi stuðlar að aukinni vernd neytenda og launþega og einnig betri nýtingu auðlinda. Fiskveiðistofnar Íslandsmiða eru ein helsta auðlind þjóðarinnar og því er mikilvægt að tryggja að aðgangur að þeirri auðlind safnist ekki á fáar hendur. Núverandi löggjöf er um margt gölluð þegar kemur að skilgreiningu á tengdum aðilum og eftirlitsheimildir Fiskistofu eru verulega takmarkaðar miðað við önnur eftirlitsstjórnvöld. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Fiskistofu kom m.a. fram að Fiskistofa kanni ekki hvort tengsl séu á milli aðila með markvissum og reglubundnum hætti heldur reiði sig alfarið á upplýsingar frá handhöfum aflaheimilda. Þar kom einnig fram að Fiskistofa teldi að það væri í raun óframkvæmanlegt að afmarka hvort tengsl væru til staðar vegna „raunverulegra yfirráða“ þar sem ákvæðið væri of matskennt. Í þessu frumvarpi eru lagðar til nokkrar breytingar sem hafa það að markmiði að skýra betur hvort tengsl séu á milli aðila og efla eftirlitsheimildir Fiskistofu svo að stofnunin geti rannsakað með viðhlítandi hætti hvort tengsl séu á milli aðila. 

Verði frumvarpið samþykkt mun Fiskistofa geta sinnt eftirliti með því hvort samþjöppun aflaheimilda sé of mikil og gripið til aðgerða ef svo er. Þannig verður betur tryggt að auðlindir þjóðarinnar safnist ekki á of fáar hendur með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum.

Deila