Samþykktir
Samþykktir Flokks fólksins
1. Heiti og markmið
1.1 Heiti stjórnmálasamtakanna er Flokkur fólksins. Samtökin starfa á landinu öllu en heimili og varnarþing er í Reykjavík.
1.2 Markmið Flokks fólksins er að berjast með hugsun, orði og vilja fyrir Íslendinga, sem hafa orðið fyrir óréttlæti, mismunum, lögleysu og fátækt. Flokkurinn byggir á kærleiksboðskap og berst gegn fátækt og spillingu á íslandi.
1.3 Tilgangi sínum nær Flokkur fólksins með því að bjóða fram til Alþingis og/eða sveitastjórna í öllum kjördæmum og hafa þannig áhrif á gerð samfélagsins.
2. Félagar
2.1 Félagar geta allir orðið sem styðja grunnstefnu flokksins, sbr. grein 1.2, eru ekki félagar í öðrum stjórnmálaflokkum á Íslandi og hafa greitt félagsgjald. Fullgildir félagar þurfa að hafa náð 16 ára aldri.
2.2 Stjórn ákveður félagsgjöld.
2.3 Inntökubeiðnir og úrsagnir skulu tilkynntar skriflega eða með rafrænum hætti af viðkomandi til skrifstofu Flokks fólksins.
2.4 Aðeins fullgildir félagar eiga atkvæðisrétt um málefni flokksins.
2.5 Allir sem taka sæti á framboðslista fyrir Flokk fólksins eða veljast til trúnaðarstarfa verða að eiga fullgilda aðild að flokknum og hafa náð lögræðisaldri. Taki félagi sæti á framboðslista annars framboðs eða gangi opinberlega til liðs við annan stjórnmálaflokk/-samtök telst það jafnframt vera úrsögn úr Flokki fólksins.
2.6 Sé félagsmaður staðinn að því, að vinna gegn meginmarkmiðum og hagsmunum Flokks fólksins, skal hann sviptur félagsaðild og skal það gert á stjórnarfundi með auknum meirihluta atkvæða og félagsmanni tilkynnt það formlega.
3. Skipulag
3.1 Félagar eiga beina og milliliðalausa félagsaðild að Flokki fólksins.
3.2 Flokkur fólksins starfrækir málefnanefndir, sem hafa það hlutverk að leiða stefnumótun og afmörkun einstakra mála og málaflokka á landsvísu, og kjördæmaráð, sem halda utan um félagsstarf flokksins, hvert í sínu kjördæmi.
3.3 Stjórn ákveður fjölda og starfssvið málefnanefnda Flokks fólksins. Vinna málefnanefnda er lögð til grundvallar ákvarðana er varða stefnu Flokks fólksins á einstökum sviðum. Þegar málefnanefnd er stofnuð er henni sett erindisbréf sem afmarkar starfsviðs hennar.
3.4 Þátttaka í starfi málefnanefnda er opin öllum félögum með samþykki formanns nefndanna. Stjórn velur formann málefnanefnda til þess að stýra og bera ábyrgð á störfum hverrar nefndar. Formaður hverrar nefndar ákveður tímasetningu og dagskrá funda fyrir sína nefnd. Stjórn Flokks fólksins setur málefnanefndum starfsreglur.
3.5 Formenn málefnanefnda mynda málefnaráð sem sér um samræmingu milli málefnanefnda og hefur umsjón með málefnavinnu flokksins. Málefnaráð kýs sér formann, varaformann og ritara. Áður en tillaga málefnanefndar um breytingu á stefnu flokksins er tekin fyrir á landsfundi skal málefnaráð og stjórn Flokks fólksins hvor um sig fjalla um tillöguna og veita henni umsögn.
3.6 Kjördæmaráð skulu vera fimm: Reykjavíkurráð, Suðvesturráð, Norðvesturráð, Norðausturráð og Suðurráð. Þau taka hvert til eins kjördæmis nema Reykjavíkurráðið, sem nær til beggja Reykjavíkurkjördæma.
3.7 Kjördæmaráð halda uppi félagsstarfi og fjalla um málefni síns landshluta.
3.8 Stjórn Flokks fólksins setur kjördæmaráðunum og undirfélögum þeirra starfsreglur. Stjórn kjördæmaráðs getur boðað til fundar þegar nauðsyn krefur.
3.9 Félagar í Flokki fólksins eru skráðir í það kjördæmaráð sem lögheimili þeirra segir til um. Félagar sem eiga heimilisfesti utan lögheimilis tilkynna skrifstofu Flokks fólksins hvaða kjördæmaráði þeir kjósa að tilheyra.
3.10 Heimilt er að stofna og starfrækja félög innan kjördæmaráða og skal þá hvert félag taka til minnst eins sveitarfélags. Aðeins eitt félag sömu tegundar getur starfað innan hvers sveitarfélags.
3.11 Heimilt er með samþykki stjórnar að stofna sérfélög sem starfa á landsvísu. Aðeins eitt sérfélag hverrar tegundar getur starfað á landsvísu.
3.12 Ungliðahreyfing Flokks fólksins skal sinna málefnastarfi ungs fólks og vera rödd Flokks fólksins í málefnum þeirra.
3.13 Öldungaráð Flokks fólksins skal sinna málefnastarfi eldri borgara og vera rödd Flokks fólksins í málefnum þeirra.
3.14 Sérfélög skulu setja sér starfsreglur og ráða fjárhag sínum og málefnum sjálf, í samræmi við starfshætti og stefnu Flokks fólksins og með samþykki stjórnar.
3.15 Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur skrifstofu Flokks fólksins og annast félagatal í samræmi við reglur sem stjórn setur. Hann sér til þess að samþykktum Flokks fólksins sé fylgt. Skrifstofan veitir félagsmönnum og frambjóðendum almennan stuðning og ráðgjöf.
4. Landsfundur
4.1 Landsfundur Flokks fólksins er að jafnaði haldinn þriðja hvert ár og skal boða til hans með minnst þriggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Stjórn Flokks fólksins getur boðað til aukalandsfundar þegar nauðsyn krefur. Á aukalandsfundi er heimilt að hafa öll sömu mál á dagskrá og á hefðbundnum landsfundi, en ekki skylt. Landsfundur hefur æðsta vald í málefnum flokksins og markar heildarstefnu hans í landsmálum.
4.2 Á landsfundi skulu eftirfarandi mál ætíð tekin fyrir:
4.2.1 Kosning fundarstjóra og fundarritara.
4.2.2 Kosning þriggja manna kjörnefndar sem annast framkvæmd kosninga á fundinum.
4.2.3 Skýrsla stjórnar lögð fram.
4.2.4 Reikningar síðasta almanaksárs lagðir fram.
4.2.5 Skýrsla framkvæmdastjóra um rekstur yfirstandandi árs.
4.2.6 Skýrslur málefnanefnda og drög að ályktunum.
4.2.7 Kosning formanns.
4.2.8 Kosning varaformanns.
4.2.9 Kosning sjö meðstjórnenda og þriggja varamanna.
4.2.10 Breytingar á samþykktum Flokks fólksins.
4.2.11 Önnur mál.
4.3 Einfaldur meirihluti ræður öllum málum nema breytingum á samþykktum og falli atkvæði jafnt nær mál ekki fram. Um breytingar á samþykktum fer samkvæmt 11. kafla.
4.4 Stjórn er heimilt að innheimta þóknun fyrir funda- og kjörgögn á landsfundi.
5. Stjórn
5.1 Stjórn flokksins er skipuð af formanni, varaformanni og sjö meðstjórnendum sem skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi, þ.á.m. starfi gjaldkera og ritara. Stjórnin skal ákveða fundartíma. Stjórn er kölluð saman af formanni eða sex stjórnarmönnum með tölvupósti eða á annan sannanlegan hátt. Varamenn skulu boðaðir á stjórnarfundi a.m.k. á þriggja mánaða fresti. Stjórnin setur starfsreglur um innra starf flokksins. Fundir stjórnar eru löglegir þegar meirihluti stjórnar er mættur.
5.2 Stjórn fer með yfirstjórn flokksins í samræmi við samþykktir þessar og aðrar reglur flokksins. Hún ber ábyrgð á öllu innra starfi flokksins, hefur eftirlits- og úrskurðarvald um ákvarðanir á vegum hans, hefur umráð yfir eignum og gætir þess að settum reglum sé fylgt.
5.3 Stjórn hefur úrskurðarvald milli landsfunda um allt málefnastarf flokksins og ber að tryggja að öll starfsemi flokksins sé í samræmi við samþykktir hans, stefnuskrá og ályktanir landsfunda.
5.4 Stjórn ræður framkvæmdastjóra og veitir honum prókúru, ef um það er að ræða. Framkvæmdastjóri ræður starfsfólk á skrifstofu Flokks fólksins.
6. Framkvæmdastjórn
6.1 Framkvæmdarstjórn flokksins er skipuð stjórn flokksins, ásamt varamönnum, formönnum kjördæmaráða, formanni ungliðahreyfingar og öldungaráðsins eins og við getur átt. Framkvæmdarstjórn flokksins kemur árlega saman til að fjalla um stefnumörkun, starfsreglur og reikninga eftir að stjórn flokksins hefur samþykkt þá. Einnig ef formaður flokksins eða 2/3 stjórnar eða 2/3 fulltrúa framkvæmdarstjórnar boða til fundar.
7. Framboð
7.1 Uppstilling er meginregla við skipan á framboðslista. Ákvörðun um hvaða aðferð er beitt er í höndum stjórnar.
7.2 Kjördæmaráð skal skipa uppstillingarnefnd sem starfar samkvæmt reglum sem stjórn Flokks fólksins setur. Uppstillingarnefnd skal bera tillögu sína að framboðslista undir kjördæmaráð og stjórn til samþykktar.
8. Þingflokkur
8.1 Þingmenn Flokks fólksins mynda þingflokkinn. Þingflokkurinn kýs sér stjórn, skipuleggur störf sín og mótar afstöðu til mála á Alþingi á grundvelli stefnu flokksins og samþykkta landsfunda.
8.2 Formaður og varaformaður flokksins eiga seturétt með tillögurétti á þingflokksfundum eftir því sem við á og aðrir sem þingflokkurinn samþykkir.
9. Sveitastjórnarráð
9.1 Sveitarstjórnarráð er samstarfsvettvangur kjörinna fulltrúa Flokks fólksins í sveitastjórnum og er til ráðgjafar um sveitarstjórnarmál. Sveitarstjórnarráð fjallar um sameiginlega stefnumótun í málefnum sveitarfélaga í samræmi við stefnu Flokks fólksins.
9.2 Sveitarstjórnarráð er skipað öllum aðal- og varafulltrúum í sveitarstjórnum sem eru flokksbundnir í Flokki fólksins. Fulltrúum í stjórn er heimilt að sitja fundi sveitarstjórnarráðs og njóta þar málfrelsis og tillöguréttar.
9.3 Stjórn Flokks fólksins boðar til fyrsta fundar sveitarstjórnarráðs að loknum sveitarstjórnarkosningum. Sveitarstjórnarráð kýs sér stjórn, mótar sér starfsreglur og skipuleggur störf sín.
10. Fjárreiður
10.1 Reikningsár Flokk fólksins er almanaksárið. Ár hvert skal framkvæmdastjóri leggja fram á fundi framkvæmdarstjórnar ársreikninga fyrir liðið starfsár og fjárhagsáætlun fyrir komandi starfsár til afgreiðslu. Framkvæmdastjórn staðfestir reikninga með áritun sinni.
10.2 Tekjur Flokks fólksins eru félagsgjöld og framlög frá einstaklingum og lögaðilum en þó aðeins ef þeim fylgja ekki sérstakar kvaðir um ráðstöfun eða nýtingu. Einnig getur verið um heimilaðar fjáraflanir að ræða á vegum flokksins sjálfs. Til viðbótar koma opinber framlög til stjórnmálasamtaka.
10.3 Öllum hagnaði af starfsemi skal varið til að sinna markmiði og tilgangi flokksins, sbr. greinar 1.2 og 1.3.
10.4 Meðferð fjármuna og reikningsskil skulu vera í samræmi við lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda sem og aðrar reglur um fjárreiður stjórnmálasamtaka og landslög.
11. Túlkun samþykkta og breytingar á þeim
11.1 Stjórn Flokks fólksins skal skipa þriggja manna nefnd til þess að fjalla um ágreining sem upp kann að koma um túlkun samþykkta þessara og gera tillögu til stjórnar um niðurstöðu.
11.2 Samþykktum þessum má aðeins breyta á landsfundi og telst breyting samþykkt ef hún hlýtur 2/3 greiddra atkvæða.
11.3 Tillögur til breytinga skulu sendar stjórn minnst hálfum mánuði fyrir boðaðan landsfund.
12. Önnur ákvæði
12.1 Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með 2/3 greiddra atkvæða og renna eignir þess til félags, sem sinnir hjálpar- og eða líknarstarfi, sem fundurinn samþykkir.
12.2 Almenn fundarsköp gilda á fundum Flokks fólksins.
Samþykktir þessar voru uppfærðar á aukalandsfundi flokksins þann 28. september 2019