„Það er alveg ljóst að þarna verða harkaleg átök, þannig virkar þetta. En þarna verðum við að geta gert það án þess að hlutirnir verði svona persónulegir,“ segir Kolbrún og vitnar þá í fyrsta fund nýrrar borgarstjórnar. Uppnám varð á fundinum þegar í ljós kom að meirihluti vissi um tilnefningar minnihlutans í nefndir og ráð en minnihlutinn hafði beðið um trúnað yfir þeim upplýsingum. Kolbrún var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1. „Mjög fljótlega fór að koma persónulegar árásir frá þessum væng, svokölluðum meirihluta sem kom mér á óvart,“ segir Kolbrún um fundinn.
Með samskiptareglunum hefur Kolbrún gert viðbragðsáætlun um hvernig meðferð slíkar kvartanir undan samskiptum eiga að fá. „Við höfum verið kjörin af fólkinu í borginni vegna þess að okkur er treyst til að fara með þeirra málefni. Við hljótum að geta tekist á um mál með faglegum hætti án þess að taka hlutina persónulega eða sýnt hvort öðru dónaskap, ergelsi og pirring. Í reglunum útlista ég einfaldlega þær tegundir hegðunar sem mér finnst að eigi ekki að leyfa,“
Kolbrún segir að vanvirðing sé dæmi um framkomu sem hún vonast til að uppræta með reglunum og þannig koma í veg fyrir mein á vinnustaðnum. „Það er þessi hrokafulla framkoma, sýna fyrirlitningu, gera lítið úr skoðunum, viðhorfi og verkum borgarfulltrúa. Þetta á við skrifstofu borgarstjórnar, við erum öll að vinna þarna þétt saman. Sýna vanvirðingu eða háð til dæmis með því að ranghvolfa augum, flissa eða geifla sig þegar borgarfulltrúi flytur mál sitt eða talar. Það þarf að vera friður og ró á þessum vinnustað hvað varðar persónulega hluti. Síðan tökumst við á málefnalega,“ segir Kolbrún.
Frétt þessi birtist á ruv.is 25.06.2018