Sjávarútvegsráðherra opnar flóttaleið fyrir útgerðir landsins

Sjávarútvegsráðherra hefur galopnað flóttaleið, fyrir margar og þá einkum stærstu útgerðir landsins, frá veiðigjöldunum. Leiðin er greið. Flestar þær útgerðir, ef ekki allar, kaupa fisk af eigin skipum og eru nánast einráðar um hvaða verð er borgað. Sem þýðir að útgerðin ræður hvar hagnaðurinn verður. Með því að lækka verð til skipanna, og þar með til sjómanna sem munu að óreyttu lækka mikið í launum, flyst hagnaðurinn í fiskvinnsluna sem nú verður undanþegin veiðigjöldum. Einfalt og öruggt.

„Þetta er dapurt frumvarp“

Ekki fæst betur séð en aðeins einn þingmaður hafi kveikt á þessu, eða hið minnst haft á orð á þessu. Það er Inga Sæland. Hún segir í Fréttablaðinu:

„Það stingur í augu að veiðigjald eigi eingöngu að leggja á veiðar. Hagnaður fiskvinnslunnar á ekki að koma til útreikninga eins og nú er. Fiskvinnslan er hluti af auðlindanýtingunni. Öll stærstu félögin, sem greiða sér arð og maka krókinn, eiga vinnslurnar og hagnast gríðarlega. Að aðskilja þetta tvennt gefur mönnum færi á að færa hagnað frá veiðum og yfir á vinnslu í landi og kostnaður við vinnslu verði færður á skipin til frádráttar á veiðigjöldum. Þetta er dapurt frumvarp.“

Hver borgar svo nýju skipin?

Útgerðin fær ríkisstyrk vegna nýrra skipa með afslætti frá veiðigjöldum. Áður er nýsmíðaálag í kjarasamningi sjómanna og útgerðar. Nú mun ríkið, það er almenningur í landinu, leggjast á árar með útgerðin og taka þátt í niðurgreiðslu nýrra veiðiskipa. Útgerðin fær eftirleiðis hluta launa sjómanna og svo nýjan ríkisstyrk til að greiða eigin fjárfestingar.

Dínamít eða loft

Fyrstu viðbrögð stjórnarandstöðunnar koma meira á óvart en frumvarpið. Vilji ráðherrans og frumvarp er efni í sprengju í pólitíska umræðu. Hingað til hafa flestir stjórnarandstæðingar hlaðið vopn sín með lofti. Ekki verður öðru trúað en stjórnarandstaðan vakni og sjái hvert stefnir.

Hvað gera sjómenn?

Nú bendir flest, ef ekki allt, til þess að fiskverð í föstum viðskiptum lækki. Það þarf að gerast til að útgerðin geti nýtt sér flóttaleiðina sem ráðherra bjó til. Útgerðin mun landa auknum hagnaði með fiskinum og lækka þar með veiðigjöldin umtalsvert. Þá er að bíða viðbragða sjómanna. Munu þeir ganga í takt við ráðherrann og aðra stjórnmálamenn? Varla.

 

Frétt birtist á www.midjan.is

Deila