Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka. Þetta er upphafssetning í sálmi eftir séra Valdimar Briem sem hann orti árið 1886. Ég fyllist lotningu og um leið ákveðnum söknuði í hvert sinn sem ég hlýði á þennan fallega sálm sem flest okkar þekkja og er sunginn um hver áramót við lag eftir Andreas Peter Berggreen.
Að gera upp árið 2023 um störfin á Alþingi gerir mig bæði leiða og dapra. Þegar grannt er skoðað hefur árið sem er að líða einkennst af vanmætti og sundrungu sitjandi ríkisstjórnar. Við sjáum algjört úrræða- og samstöðuleysi ráðamanna sem bera ábyrgð á þjóðarskútunni okkar en ekkert þeirra heldur um stýrið. Skútuna rekur stjórnlaust undan vindi og stefnir í algjöra brotlendingu við klettabeltið framundan. Skipstjórinn langfyrstur frá borði.
Staðan í samfélaginu er engu að síður augljós öllum. Við sjáum skýra mynd af samfélagi sem glímir við margþætta og djúpstæða kreppu á flestöllum sviðum samfélagsins. Hér ríkir stjórnarkreppa, kreppa í efnahagsmálum, í hælisleitendamálum, heilbrigðismálum, húsnæðismálum, menntamálum, öldurnarmálum, öryrkjamálum, fíknisjúkdómamálum, geðheilbrigðismálum, orkumálum, samgöngumálum og áfram mætti telja.
Árið 2023 hefur verið baráttuár þar sem Flokkur fólksins hefur staðið í fremstu víglínu gegn óréttlæti og ófyrirgefanlegri fátæktinni sem hefur fest rætur í samfélaginu með öllum þeim afleiddu hörmungum sem henni fylgja.
Á árinu sem er að líða höfum við séð sem aldrei fyrr hvernig ríkisstjórnin vefur þræði sérhagsmuna í gegnum alla sína stefnumótun í gegnum öll sín innihaldslitlu og máttlausu störf. Hún horfir aðgerðalaus á enn frekari græðgisvæðingu fjármálafyrirtækja sem maka krókinn með okurvöxtum í óðaverðbólgu á kostnað almennings og heimilanna í landinu. Fyrirsjáanlegar afleiðingar vegna vanhæfrar verklausrar ríkistjórnar eru þær að þúsundir munu missa heimili sín að óbreyttu. Það þarf engar sérgáfur til að sjá það, að enginn sem er á meðallaunum getur tekið á sig stökkbreyttar afborganir húsnæðislána sinna. Þvert á móti eru þau þvinguð í eitraðan „náðarfaðm“ verðtryggingar eða að öðrum kosti missa heimili sín í græðgiskjaft lánardrottna. Ég sannfærist enn betur um það, að þessir gjörningar allir eru fullkomlega með vitund og vilja ríkisstjórnarinnar sem hefur algjörlega sleppt höndum af stýri þjóðarskútunnar, hallað sér aftur í sætinu, þ.e.a.s þeir sem hafa ekki flúið frá borði með forsætisráðherranum og brotlenda á klettaveggnum framundan. Á sama tíma er vaxandi skortur og sárafátækt hjá þeim sem búa við bágustu kjörin.
Beðið eftir réttlætinu
Við höfum mátt horfa upp á hvernig frumvörpum Flokks fólksins og þingsályktunartillögum hefur verið sópað út af borðinu af hjartlausum ríkisstjórnarflokkum. Flestallt mál sem lúta að því að rétta þeim hjálparhönd sem hafa það allra bágast í samfélaginu vegna sárrar fátæktar. Ég get með engu móti skilið stjórnvöld sem hika ekki við að beita valdi sínu ítrekað gegn þeim sem þarfnast þeirra mest. Ítrekað getur að líta sótsvartar skýrslur sem sýna svart á hvítu hvernig staða þessa viðkvæmasta hóps fer síversnandi. Þrátt fyrir það má þessi viðkvæmasti þjóðfélagshópur enn bíða eftir réttlætinu og það í boði Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (VG) sem leiðir þessa ríkisstjórn. Forsætisráðherrann sem þegar hefur yfirgefið þjóðarskútuna og ákveðið að freista þess að synda í land fremur en að stýra skútunni frá brotlendingu, hefur á árum áður átt mörg orð yfir slík stjórnvöld, sambærileg þeim sem hún ber ábyrgð á nú.
Sagan mun dæma tímana sem við lifum nú. Þar sem stjórnvöld básúna um hagsæld, meðaltöl og auðgi á við það sem best þekkist í heiminum í dag. Á sama tíma er ekki til fjármagn til að sinna brýnustu nauðþurftum barnanna okkar. Fátækt íslenskra barna hefur vaxið um hátt í 50% á sl. 6 árum. Þegar Flokkur fólksins var stofnaður snemma árs 2016 var það til að berjast gegn fátækt barna fyrst og fremst. Þá sýndi skýrsla Unicef á Íslandi að 9,1% banranna okkar liði hér mismikinn skort. Nýjar rannsóknir sýna svo ekki er um að villast að nú eru það ríflega 14% barna sem líða hér mismikinn skort, hátt í 11.000 börn. Þar af eru tæp 4.000 þeirra í sárri fátækt. Hvað þýðir það eiginlega að börnin búi við sára fátækt? Er þetta einungis lesið með því að skauta framhjá því og agnúast út í greinarhöfundinn sem fær aldrei nóg af því að benda á óréttlætið og hryllinginn sem fátækar fjölskyldur mega búa við? Ég vona í það minnsta að svo sé ekki. Ég tel að fátæktin sé rót alls ills, hún brýtur niður einstaklinginn og hefur keðjuverkandi afleiðingar út í allt æðakerfi samfélagsins. Stjórnvöld sem hafa það ekki að meginmarkmiði sínu að útrýma fátækt eru vanhæf með öllu. Hvernig mætti það annars vera að fátæktinni sé ekki útrýmt. Við vitum öll af vaxandi fátækt og sótsvörtum skýrslum um stöðu barna, fatlaðra, öryrkja og eldra fólks. Aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar er skelfilegur vitnisburður um það hvernig stjórnvöld hafa algjörlega brugðist skyldum sínum gagnvart þessu fólki.
Þjóðarmein sem er mannanna verk
Það liggur fyrir að fáir kjörnir fulltrúar hafa nokkurn tímann á lífsleiðinni þurft að lifa við fátækt. Verk þeirra sýna fram á að þeir eru ófærir um að setja sig í spor þeirra sem lifa í sárri neyð. Ég efast ekki um að ef þeir þekktu þetta á eigin skinni þá væri fyrir langa löngu búið að leiðrétta þetta þjóðarmein, þessa þjóðarskömm sem er í einu og öllu mannanna verk.
Svo einkennilegt sem það er þá virðast alltaf vera til nægir peningar fyrir græðgina, auðvaldið og snobbið. En það eru ekki til fjármunir til að veita blásnauðu eldra fólki jólabónus fyrir jólin. Ég gaf stjórnarflokkunum margoft tækifæri til að skipta um skoðun í atkvæðagreiðslum um jólabónus til eldra fólks nú fyrir jólin og færa sig yfir í mannúðina með því að skipta um skoðun og færa nei yfir í já. Allt kom fyrir ekki, þeim varð ekki haggað frekar en fyrri daginn og NEI var áfram NEI.
Hugsið ykkur þá staðreynd, þann hrylling, að árlega deyja á Íslandi um hundrað einstaklingar úr fíknisjúkdómnum. Á meðan hefur ríkisstjórnin valið að snúa baki við þessum lífshættulega sjúkdómi. Allar tillögur Flokks fólksins um auknar fjárveitingar til þeirra stofnana sem sinna þessu fárveika fólki og veita þeim lífsnauðsynlega meðferð hafa verið felldar. Þetta speglar hugarfar ríkisstjórnar sem lætur sér á sama standa þótt fólkið okkar deyi í hrönnum vegna lífshættulegs sjúkdóms og skorts á læknishjálp. Tugir deyja árlega á biðlistum eftir hjálp. Hvort er þetta mannvonska eða fordómar eða kannski sitt lítið af hvoru sem ræður hér för?
Hvernig getur nokkur ríkisstjórn réttlætt það að eyða milljörðum í glæsihallir, erlendan stríðsrekstur og tilhæfulausar snobbráðstefnur á meðan þúsundir þurfa að treysta á hjálparstofnanir til að lifa af? Eitt er víst að ég myndi aldrei sitja í slíkri stjórn.
Með nýju ári koma koma ný tækifæri. Við skulum ávallt muna að saman erum við ósigrandi og ávallt trúa að réttlætið muni sigra að lokum.
Gleðilegt nýtt baráttuár og takk fyrir allan stuðninginn og hvatninguna á árinu sem er að líða.
Fólkið fyrst, svo allt hitt.