Afnemum skattlagningu á hjálpartækjum fatlaðra

Greinargerð.

Frumvarp þetta var áður lagt fram á 150. löggjafarþingi (326. mál) en náði ekki fram að ganga. Með frumvarpinu er lagt til að hjálpartæki skv. 2. mgr. 26. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, verði undanþegin virðisaukaskatti.

Hugtakið hjálpartæki er samkvæmt ákvæðinu skilgreint sem hjálpartæki sem ætluð eru til að draga úr fötlun, aðstoða fatlað fólk við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Jafnframt verður hjálpartækið að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs. Sjúkratryggingar Íslands greiða eða taka þátt í kaupum á hjálpartækjum eftir ákveðnum reglum, sbr. reglugerð nr. 1155/2013 um styrki vegna hjálpartækja, með síðari breytingum, en notendur þurfa gjarnan að greiða sjálfir fyrir hluta kostnaðar.

Markmið frumvarpsins er að jafna aðstöðumun notenda sem þurfa á slíkum hjálpartækjum að halda og létta efnahagslega byrði þeirra. Áhrif frumvarpsins á tekjur ríkissjóðs yrðu ekki veruleg en ríkissjóður greiðir nú þegar stóran hluta þess virðisaukaskatts sem innheimtur er af þessum vörum. Áætluð útgjöld vegna hjálpartækja í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021 (1. mál, 151. löggjafarþingi) eru um 6 milljarðar kr. Endurgreiðslur eru um 95% af þeirri upphæð og er endurgreiðsluhlutfallið um 90%. Afnám virðisaukaskatts (að jafnaði 24%) lækkar tekjur ríkissjóðs um rúmlega 1 milljarð kr.

 

Deila

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin