Skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

Skattleysi launatekna undir 350.000 krónum er eitt af fimm forgangsmálum Flokks fólksins í svonefndum velferðarpakka Flokks fólksins og er á pari við 470.000 króna laun ef miðað er við skattpíninguna eins og hún er í dag
þar sem fátækt er skattlögð af ótrúlegri grimmd og fátækt fólk þarf enn að bíða eftir réttlæti.

Það er skemmst frá því að segja að ég mælti fyrir tillögunni þann 24. september 2019 og situr hún föst í nefnd án þess að fá að komast í frekari þinglega meðferð.

Flokkur fólksins styður heilshugar baráttu Eflingar fyrir bættum kjörum láglaunafólks hvort heldur hjá Reykjavíkurborg eða annars staðar.
Það er með öllu svívirðilegt að halda láglaunafólki vísvitandi í fátækt.

Taki til sín sem eiga og skammist ykkar um leið.

um skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

Tillaga til þingsályktunar

Flm.: Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson.

    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp fyrir árslok 2020 sem kveði á um:
     1.      að tekinn verði upp fallandi persónuafsláttur þannig að skattleysismörk verði við 350.000 kr. og að persónuafsláttur falli niður við 927.087 kr. mánaðartekjur,
     2.      að persónuafsláttur falli eftir sveigðu ferli þannig að vendipunktur miðað við persónuafslátt á tekjuárinu 2019 miðist við 575.000 kr. mánaðartekjur og
     3.      að breytingar verði gerðar á skiptingu útsvars og tekjuskatts af skattstofni til að jafna tekjumissi vegna hækkunar skattleysismarka á milli ríkis og sveitarfélaga.


    Á undanförnum árum hefur íslenskur efnahagur dafnað. Á sama tíma hefur fjárhagsstaða íslenska ríkisins batnað og verðlag haldist stöðugt. Launaþróun hefur einnig verið jákvæð. Þrátt fyrir mikinn árangur síðustu ára hefur ábatinn ekki skilað sér til allra. Í skýrslu um dreifingu skattbyrði sem unnin var fyrir stéttarfélagið Eflingu og birt í febrúar sl. kemur fram að milli áranna 1993 og 2015 lækkaði skattbyrði hæstu tekjuhópa en skattbyrði lægstu tekjuhópa jókst. 1 Á sama tíma hefur fasteignaverð hækkað verulega en vísitala markaðsverðs íbúðarhúsnæðis hefur á síðasta áratug hækkað úr 222,5 stigum í 430,6 stig miðað við ársmeðaltal samkvæmt tölum Hagstofunnar.
Sú þróun kemur verst við lágtekjufólk sem þarf að verja stærstum hluta tekna sinna í húsnæði. Afleiðingarnar birtast m.a. í því að hlutfall leigjenda hefur aukist og ungmenni flytja nú seinna að heiman. Á sama tíma hafa laun hinna tekjuhæstu hækkað verulega. Sífellt berast fréttir af ofurkaupi stjórnenda ýmissa fyrirtækja og yfirmenn ríkisstofnana hafa hlotið umtalsverðar launahækkanir. Miðgildi tekna er nú um 441.000 krónur á mánuði en meðaltekjur eru talsvert hærri, um 553.000 krónur samkvæmt tölum Hagstofunnar. Aðgerða er þörf svo sporna megi við þróun undanfarinna ára og tryggja lágtekjuhópum viðunandi lífskjör.

    Mikil umræða hefur átt sér stað síðustu ár um hvernig breyta eigi skattkerfinu þannig að það íþyngi ekki þeim sem minnstar tekjur hafa. Meðal annars hafa verið lagðar fram tillögur um aukna þrepaskiptingu, eignarskatta, lækkun skatthlutfalls og hærri skattleysismörk. Auk framangreinds hefur einnig verið fjallað um að hækka skattleysismörk og miða við fallandi persónuafslátt. Fallandi persónuafsláttur felur það í sér að eftir að skattleysismörkum er náð lækkar persónuafsláttur í samræmi við tekjuaukningu þar til hann fellur niður við ákveðin efri mörk. Með því að breyta íslensku skattkerfi og taka upp fallandi persónuafslátt er hægt að hækka skattleysismörk talsvert og bæta upp tekjumissi með hærri skattbyrði hátekjufólks.
    
Hér er lagt til að skattleysismörk verði hækkuð í 350.000 kr. á mánuði. Jafnframt er lagt til að eftir því sem tekjur hækki umfram það lækki persónuafsláttur þar til hann falli loks alfarið niður við 927.087 kr. mánaðartekjur eða við mörk efra skattþreps í gildandi kerfi. Þá er lagt til að persónuafsláttur falli eftir sveigðu ferli og að vendipunktur verði við 575.000 krónur í mánaðartekjur. Í því felst að persónuafsláttur fellur hraðar í byrjun en síðan hægist á falli hans. Þá nær persónuafsláttur núverandi fjárhæð, 56.447 kr. á mánuði, þegar mánaðartekjur nema 575.000 kr. Breytingin skilar því auknum ráðstöfunartekjum til þeirra sem hafa tekjur undir 575.000 kr. á mánuði en persónuafsláttur þeirra sem hafa hærri mánaðartekjur verður lægri en hann er nú.

    Í september 2018 kom út skýrsla um jöfnuð í skattkerfinu sem unnin var fyrir þingflokk Flokks fólksins. Í skýrslunni er að finna útreikning á kostnaði ríkissjóðs af því að hækka skattleysismörk upp í 300.000 kr. á mánuði og taka upp fallandi persónuafslátt. Miðað var við að persónuafsláttur félli niður við 970.000 kr. mánaðartekjur og að vendipunktur miðað við núverandi fjárhæð persónuafsláttar yrði við 562.000 kr. Niðurstaða skýrslunnar var sú að með breytingunni mundu tekjur ríkis og sveitarfélaga lækka um 32 milljarða kr. Hækkun skattleysismarka úr 300.000 í 350.000 kr. líkt og lagt er til í þessari þingsályktunartillögu kemur til með auka þetta tekjutap nokkuð en lækkun efri marka vegur þar á móti.

    Við samningu lagafrumvarps samkvæmt tillögugreininni þarf að gæta sérstaklega að því að kostnaður við þessa aðgerð dreifist jafnt á milli ríkissjóðs og sveitarfélaga. Í frumvarpinu gæti þannig þurft að kveða á um breytingar á útreikningi útsvars. Ellegar er hætta á því að tekjutap falli að mestu leyti á herðar sveitarfélaga sem hafa minna svigrúm en ríkissjóður til að bregðast við slíku. Því er lagt til að breytingar verði gerðar sem tryggi að tekjutap skiptist milli ríkissjóðs og sveitarfélaga eftir hlutfalli meðalútsvars af tekjuskatti.

Deila