Skerðingarlaus atvinnuþátttaka öryrkja

Greinargerð.

Ákvæði gildandi laga um almannatryggingar eru torskilin og gjarnan reynist erfitt fyrir hinn almenna borgara að átta sig á framkvæmd laganna. Þeir öryrkjar sem fá greiðslu örorkulífeyris skv. 18. gr. laganna vita þó að þeir eiga von á ýmiss konar skerðingum afli þeir sér atvinnutekna. 

Þá er örorkumat gjarnan veitt tímabundið og margir óttast skerðingu bóta ef heilsu þeirra hrakar eftir að þeir hefja vinnu. Öryrkjar eiga ekki að þurfa að hafa áhyggjur af framtíðarhorfum sínum ef þeir gera tilraun til að hefja atvinnu á ný. Þvert á móti ættu þeir að eiga von á betri lífskjörum. Því er lagt til að öryrkjum verði veitt sérstök heimild sem þeir geti nýtt sér þegar þeir vilja reyna að hefja störf á ný eða auka starfsgetu sína. Fari svo að sú tilraun heppnist ekki þarf öryrki ekki að óttast frekari skerðingar lífeyrisgreiðslna eða endurmat örorku á grundvelli þeirrar tilraunar. Svipað úrræði skilaði góðum árangri í Svíþjóð. Þar sneru um 30% þátttakenda aftur út á vinnumarkaðinn eftir tilraun til starfa. Samfélagið hefur ríka hagsmuni af því að allir þegnar þess hafi hvata til vinnu og aukinn starfskraftur er samfélaginu til góðs. Ríkissjóður fær skatttekjur af atvinnutekjum öryrkja og því koma skatttekjur að einhverju leyti á móti auknum greiðslum almannatrygginga. 

Andleg heilsa batnar gjarnan ef fólk getur tekið virkan þátt í samfélaginu og því er þessi tilhögun til þess fallin að bæta andlega líðan öryrkja og fjölskyldna þeirra.

 

Deila

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin