Skólaforðun, vaxandi vandamál?

Sniðganga skóla eða skóla­forðun er skil­greind sem meðvituð eða ómeðvituð hegðun sem barn eða ung­ling­ur sýn­ir þegar mæta á í skól­ann. Hegðunin birt­ist í erfiðleik­um með að sækja skóla hvort sem um er að ræða heil­an skóla­dag eða hluta úr degi í lengri eða skemmri tíma (Ke­ar­ney, Al­bano 2007).

Vís­bend­ing­ar eru um að skóla­forðun sé vax­andi vanda­mál og erfitt get­ur verið að ná tök­um á al­var­leg­ustu til­vik­un­um. Rann­sókn­irn­ar sýna að skóla­forðun hefst mun fyrr en á ung­linga­stigi og á sér oft ræt­ur í leik­skóla. Mikl­ar fjar­vist­ir frá skóla geta verið kvíðavald­andi fyr­ir börn og ung­linga og valdið því að sniðgang­an áger­ist enn frek­ar þegar þau missa ít­rekað úr námi.

Skóla­forðun kem­ur til vegna þess að barn­inu líður illa í skól­an­um. Með því að forðast skól­ann er barnið oft­ast að senda skila­boð þess efn­is að eitt­hvað „í skól­an­um“ valdi svo mik­illi van­líðan og streitu að það geti ekki hugsað sér að sækja skól­ann.

Ástæður skóla­forðunar geta verið marg­vís­leg­ar. Nefna má erfiðleika í námi, vanda varðandi vits­muna­leg­an þroska eða aðrar rask­an­ir, greind­ar eða ógreind­ar. Um get­ur verið að ræða fé­lags­lega þætti, að barni sé strítt, það lagt í einelti, að því standi ógn af ein­hverju á leið í eða úr skóla eða að það eigi í sam­skipta­erfiðleik­um við ein­hvern í skól­an­um. Stund­um er um að ræða sam­spil margra þátta. Sum börn glíma við kvíða og fé­lagskvíða sem veld­ur því að þau vilja ekki fara út eða blanda geði við aðra krakka.

Þörf á vit­und­ar­vakn­ingu

Auka þarf vit­und for­eldra um þetta vanda­mál með fræðslu. Um­fram allt þarf að kom­ast að raun um með barni, for­eldr­um og kenn­ara hvað það er sem barnið er að forðast í skól­an­um. Finna þarf hina und­ir­liggj­andi ástæðu og leysa úr henni með öll­um til­tæk­um ráðum. Því lang­vinn­ari sem vand­inn er því erfiðari er hann viður­eign­ar. Kvíðinn vex og úr­vinnsla verður flókn­ari og erfiðari þegar fram líða stund­ir. Börn, sem eru hætt að mæta í skól­ann, ná sér ekki öll aft­ur á strik.

Dæmi um ástæður skóla­forðunar geta einnig verið af þeim toga að barnið taki meðvitaða ákvörðun um að mæta ekki vegna þess að eitt­hvað annað áhuga­verðara stend­ur því til boða að gera. Barnið vel­ur e.t.v. að vera heima við tölvu, eigi það þess kost, frem­ur en að fara í skól­ann. Öll mál af þessu tagi þarf að vinna á ein­stak­lings­grunni. Fyr­ir­finn­ist und­ir­liggj­andi ástæða þarf að taka á henni.

Sam­ræmd viðmið til að greina skóla­forðun

Árið 2015 tóku grunn­skól­ar Breiðholts í notk­un sam­ræmt skóla­sókn­ar­kerfi (sam­ræmd­ar viðmiðun­ar­regl­ur) í 1.-10. bekk til að fylgj­ast með fjölda mála af þess­um toga og vinna mark­visst gegn skóla­forðun. Nokkru síðar var hvatt til þess að önn­ur hverfi borg­ar­inn­ar gerðu slíkt hið sama. Um var að ræða viðmiðun­ar­kerfi sem sýndi „hættu­merki“, s.s. „rauð flögg“, þegar skóla­sókn færi niður fyr­ir ákveðin skil­greind viðmiðun­ar­mörk. Í kerf­inu er ekki gerður grein­ar­mun­ur á ástæðu fjar­veru, vegna leyfa, veik­inda eða óleyfi­legra fjar­vista.

Viðmiðun­ar­flokk­un­um er skipt í þrjú stig eft­ir al­var­leika. Lang­vinn al­var­leg skóla­forðun á við þegar hún hef­ur staðið yfir leng­ur en eitt ár og flokk­ast þá sem stig 3. Þegar á 3. stig er komið er þörf á sér­tækri íhlut­un og nauðsyn­legt get­ur verið að vísa mál­inu til barna­vernd­ar. Þetta á við um nem­end­ur sem hafa ekki svarað þeim inn­grip­um sem hafa verið reynd og vand­inn því orðinn lang­vinn­ur og al­var­leg­ur.

Hvernig hafa viðmiðin nýst?

Sam­ræmd­ar skóla­sókn­ar­regl­ur eða miðlægt viðmiðun­ar­kerfi hef­ur nú verið við lýði í fjög­ur ár og er hugsað til að greina á milli ástæðu fjar­vista. Ekki hafa all­ir skól­ar þó stuðst við kerfið. Vel kann að vera að stjórn­end­um ein­hverra skóla finn­ist erfitt að ekki skuli vera gerður grein­ar­mun­ur á ástæðu fjar­veru, s.s. vegna veik­inda ann­ars veg­ar og óleyfi­legra fjar­vista hins veg­ar.

Ég tel tíma­bært að skoða með mark­viss­um hætti hvort og þá hvernig hinar sam­ræmdu viðmiðun­ar­regl­ur um skóla­sókn hafi nýst til að greina á milli ástæðu fjar­vista. Hinn 15. mars næst­kom­andi mun ég leggja fram til­lögu í borg­ar­stjórn um að gerð verði út­tekt á hvernig regl­urn­ar hafa nýst þeim grunn­skól­um sem stuðst hafa við þær.

Lífið eft­ir Covid

Nú er skóla­sókn von­andi að kom­ast í eðli­legt horf eft­ir tveggja ára skeið sem lit­ast hef­ur af Covid með til­heyr­andi fylgi­fisk­um. Leiða má lík­ur að því að skóla­forðun hafi auk­ist með far­aldr­in­um og fleiri börn hafi bæst í þann hóp sem forðast skól­ann. Þeim börn­um sem leið ekki vel í skól­an­um fyr­ir Covid, líður kannski ekki miklu skár nú. Um þess­ar mund­ir bíða rúm­lega 1.800 börn eft­ir fagaðstoð, m.a. sál­fræðinga, og biðlist­inn leng­ist með hverri viku. Sett­ar hafa verið 140 m.kr. til að fjölga fag­fólki hjá skólaþjón­ust­unni sem eru því miður aðeins dropi í hafið. Bet­ur má ef duga skal.

Deila