Skólaferðalög og árshátíðir í grunnskólum

Allt kostar, líka að fara í skólaferðalög og halda árshátíðir. Auðvitað vilja börn og unglingar gera þetta allt saman enda skemmtilegt. En hver á að borga? Margir foreldrar sem eru í góðum efnum finnst ekkert nema sjálfsagt að greiða háar upphæðir fyrir alls kyns ferðir, viðburði og glæsilega árshátíð fyrir barn sitt með öllu tilheyrandi. En það eru ekki allir foreldrar sem eiga aukakrónur til að standa straum af kostnaði sem þessum. Börn þessara foreldra þurfa þess vegna stundum einfaldlega að sitja heima og það er sárt. Þeim langar alveg jafn mikið að fara í ferðir og á árshátíð eins og öllum hinum börnunum. En til að standa vörð um erfitt efnahagsástand foreldra sinna og af ótta við að það spyrjist út að fátækt er á heimilinu segja börnin jafnvel bara að þeim langi ekki að fara eða þau séu upptekin. 

Foreldrar sem hafa ekki ráð á að borga fyrir dýra viðburði eða ferðir líða oft sálarkvalir og finnst þau vera að bregðast barni sínu. Hvað varðar árshátíð er vissulega hægt að halda árshátíð án þess að barn þurfi að reiða fram þúsundir króna. Finna þarf aðrar leiðir. Það sem skiptir máli fyrir börnin er að vera saman og gera eitthvað saman. Samveran sem slík kostar ekki neitt. Málið er að finna samverunni umgjörð sem útilokar engan. Að koma saman í sínu fínasta pússi á árshátíð sem haldin er í skólanum og skemmta sér saman: tala saman, syngja og hlægja saman og umfram allt dansa er meðal þess sem krökkum þykir hvað allra skemmtilegast. Ferðir kosta vissulega alltaf eitthvað. Það þarf alla vega að borga bílstjóranum. Í þeim tilfellum er iðulega ráðist í fjáröflun eða sótt er um styrk hjá sveitarfélaginu sem er hið besta mál.

Grunnskólinn er samkvæmt lögum gjaldfrjáls og þarf það að gilda um allt sem tengist skólanum. Sem sálfræðingur og borgarfulltrúi fagna ég umræðunni og vona að hún verði til þess að allir skólar skoði þessi mál hjá sér og gleymi aldrei að sumar fjölskyldur eiga ekki mikið aflögu. Það má aldrei vera þannig að barn geti ekki tekið þátt í skólatengdum viðburðum vegna þess að foreldri getur ekki greitt uppsett gjald. Öll mismunun fer illa með börn. 

Ég hef í borgarstjórn margsinnis rætt um og komið með tillögur um að gæta þurfi jafnræðis þegar kemur að þátttöku í ferðum eða viðburðum á vegum skóla, frístundar og félagsmiðstöðva sem börnin sækja. Það er skylda okkar sem samfélags að sjá til þess að börnum sé ekki mismunað á grundvelli fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Að mismuna börnum vegna fjárhagsstöðu foreldra samræmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði – banni við mismunun af nokkru tagi án tillits til m.a. félagslegra aðstæðna. Börn fátækra foreldra sitja ekki við sama borð og börn efnameiri eða ríkra foreldra. Þau fá t.d. ekki sömu tækifæri til tómstunda. Skólatengdir félagslegir viðburðir og  verkefni eru stundum eina tómstund þessara barna.

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins

Deila