Snilldarlega vitlaust

Ísland hefur glímt við langvarandi skort á vinnuafli á hjúkrunarheimilum, leikskólum, í þjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, og svo framvegis. En á sama tíma refsum við námsfólki með því að skerða námslán þess, það er að segja þeim sem vinna með náminu og fá fyrir vikið lægri námslán. Hjúkrunarfræðinemar þurftu til dæmis að fá tímabundið leyfi frá stjórnvöldum til þess að aðstoða við Covid-19 faraldurinn án þess að sú aukna vinna myndi skerða námslán þeirra.

Mikið hefur verið gert úr því að efnahagslífið ráði illa við vaxandi meðalaldur þjóðarinnar. Á sama tíma kemur Alþingi í veg fyrir atvinnuþátttöku eldri borgara með því að skera niður atvinnutekjur þeirra með svo ofsafengnum hætti að fjárhagslegur ábati af atvinnu eldra fólks verður nánast enginn. Rannsóknir hafa sýnt fram á að vinna og virkni á efri árum stuðlar að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara.

Einnig hefur það komið fram að afnám skerðinga á lífeyrisgreiðslur vegna atvinnutekna þurfi ekki að fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð og að hugsanlega gæti ríkissjóður haft fjárhagslegan ávinning af aðgerðinni. Sagan kennir okkur það að samfélagið græðir á því ef allir sem vilja og geta unnið fái að vinna sína vinnu og greiða sína skatta.

Eiga von á refsingum

Ef öryrkjar vilja prófa sig áfram á atvinnumarkaðnum á Íslandi þá mega þeir eiga von á ýmiss konar refsingum. Örorkumat er gjarnan veitt tímabundið og margir óttast skerðingu bóta ef heilsu þeirra hrakar eftir að þeir hefja vinnu.

Að sjálfsögðu mega þeir svo eiga von á krónu á móti krónu-skerðingum og öðrum víxlverkandi skerðingarreglum sem læsir þá í enn dýpri fátæktargildru.Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, hitti naglann á höfuðið þegar hann tók til máls um skerðingakerfið hér á landi og sagði: „Það er ótrúlegt hversu snilldarlega vitlaust þetta kerfi er.“

Sigurjón Arnórsson

Deila