Salan á hlut ríkisins í Íslandsbanka var algjört fíaskó eins og öllum er ljóst núna. Það er hins vegar seint í rassinn gripið að átta sig eftir að salan hefur farið fram, því þessi atburðarás var fyrirsjáanleg og augljós þeim sem hafa einhverja hugmynd um það sem átt hefur sér stað hér á Íslandi, a.m.k. frá hruni en sennilega mun lengur.
Fyrir þau okkar sem höfum barist fyrir réttlæti frá bankahruninu 2008, var atburðarás síðustu daga, algjörlega fyrirsjáanleg. Í sölunni á Íslandsbanka kristallast spillingin sem við höfum barist við frá hruni.
Salan á Íslandsbanka er ekki „Spillingin“ með stóru essi, hún er bara toppurinn á ísjakanum í þjónkun „kerfisins“, ráðherra, alþingis og fjölda embættismanna við fjármálakerfið og íslenska „ólígarka“.
Það er gott og frábært að Alþingi sé ofboðið vegna sölu Íslandsbanka og vonandi leiðir það til einhverra breytinga sem skipta máli fyrir almenning í landinu.
En við skulum varast að líta á þessa sölu sem einhvern einstakan atburð og skoða hann í samhengi við það sem áður hefur gerst. Þá má nefnilega sjá skýrt „mynstur“ spillingar og hreinlega einbeitts ásetnings til að fórna fólkinu í landinu fyrir fégráðuga einstaklinga sem einskis svífast.AUGLÝSING
Nokkur dæmi um það sem gerst hefur eftir hrun:
- Ríkið stóð fyrir stærsta kennitöluflakki sögunnar til að bjarga bönkunum eftir hrun. Neikvæðar afleiðingar hrunsins fyrir bankana voru svo til engar, málamyndarefsingar á nokkrum einstaklingum sem allir héldu samt öllu því sem þeim hafði áskotnast á árunum fyrir hrun.
- Lánasöfn voru færð yfir til „nýju“ bankanna á a.m.k. 50% afslætti.
- Þessum afslætti var í engu skilað til fólksins í landinu. Bankarnir sáu sér þvert á móti leik á borði og innheimtu hvert einasta lán upp í topp án nokkurrar miskunnar.
- Stjórnvöld sögðu ekki múkk við því heldur létu sér vel líka og verðlaunuðu með bónusum þá starfsmenn sem harðast gengu fram og náðu mestu inn.
- Á sama tíma og ákveðið var að ganga hart fram gegn „skuldurum“ saklausu fólki sem hafði það eitt sér til saka unnið að taka húsnæðislán, fengu hrunverjarnir, sjálfir útrásarvíkingarnir, um 2.000 milljarða afskrifaða. TVÖ ÞÚSUND MILLJARÐA!
- Frá hruni hafa „nýju kennitölurnar“ hagnast um meira en 1.000 milljarða. Sá hagnaður byggir á „blóði og svita“ heimila landsins, fyrst og fremst þeim 15.000 sem bankarnir skutu niður af virkisvegg skjaldborgarinnar, en öll hafa heimilin fengið að blæða með einum eða öðrum hætti.
Að minnsta kosti 10.000 heimili voru hirt á nauðungarsölum VEGNA þessarar þjónkunar við fjármálaöflin og 5 – 10.000 í viðbót, gengu að e.k. nauðarasamningum við bankana og misstu heimili sín vegna þeirra og þá eru ótaldar þær þúsundir sem náðu að halda heimili sínu vegna samninga við bankann sem setti þau í klafa fátæktar og skorts.
En það er meira sem hefur gerst en þetta og Íslandsbanki er ekki fyrsta arðvænlega fyrirtækið sem hefur verið selt. Upp í hugann koma t.d. Borgun, Míla og Lindarvatn.
Borgun, Míla og Lindarvatn
Það virðist vera full ástæða til að rifja upp nokkuð af því sem gerst hefur á allra síðustu árum því ef stjórnmálamenn hefðu haldið vöku sinni og sett það í samhengi við söluna á Íslandsbanka, hefðu þeir kannski ekki orðið jafn hissa og raun ber vitni, á því hvernig sú sala fór. Eins og eftirfarandi dæmi sýna var það algjörlega fyrirsjáanlegt.
Sala á hlut ríkisins í Borgun:
Landsbankinn, sem er í ríkiseigu, seldi hlut sinn í Borgun árið 2014 og eins og fyrir eitthvað kraftaverk jókst hagnaður fyrirtækisins gríðarlega strax í kjölfarið. Í grein Kjarnans Tíu staðreyndir um sölu á hlut Landsbankans í Borgun stendur:
Hlutur Landsbankans, sem er að mestu í ríkiseigu, var ekki seldur í opnu söluferli. Öðrum mögulega áhugasömum kaupendum bauðst því ekki að bjóða í hlutinn. Kjarninn upplýsti um það þann 27. nóvember 2014 hverjir hefðu verið í fjárfestahópnum og hvernig salan hefði gengið fyrir sig. Á meðal þeirra var Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.
Miðað við hefðbundna mælikvarða sem fjárfestar styðjast við í fjárfestingum þótti verðið lágt, hvort sem miðað er við fyrirtæki erlendis eða skráð fyrirtæki á Íslandi.
Þetta hljómar óneitanlega kunnuglega og síðar í grein Kjarnans er fjallað um arðgreiðslur Borgunar til hluthafa 4 mánuðum eftir að ríkisbankinn seldi sinn hlut:
Kjarninn greinir frá því þann 29. apríl 2015 að ákveðið hefði verið á aðalfundi Borgunar í febrúar sama ár að greiða hluthöfum félagsins 800 milljónir króna í arð vegna frammistöðu fyrirtækisins á árinu 2014, þegar Landsbankinn var enn eigandi að tæplega þriðjungshlut. Þetta var í fyrsta sinn sem arður var greiddur út úr félaginu frá árinu 2007. Tæplega 250 milljónir króna féllu í hlut nýrra hluthafa, sem hefðu runnið til Landsbankans ef hann hefði ekki selt hlutinn.
Hvort eigum við að trúa því að stjórnendur Landsbankans séu svo vanhæfir að þeir hafi ekki vitað hvað þeir voru með í höndunum þegar þeir seldu fyrirtækið, eða að þeir hafi viljað koma þessum arðgreiðslum í djúpa vasa „vina og vandamanna“?
Salan á Mílu:
Mílu, fjárskiptafyrirtækinu „okkar“ var komið í hendur fjárfesta fyrir margt löngu þegar Landsíminn var illu heilli seldur. Fyrir skömmu sáu þeir sér leik á borði og seldu grunnnetið sem þjóðin hafði byggt upp, í hendur erlendra sjóða. Sá gjörningur var framinn í skjóli nætur án þess að kjörnir fulltrúar gætu rönd við reist, því á meðan kannski hefði verið hægt að bregðast við, var Alþingismönnum haldið frá þinginu á meðan formenn ríkisstjórnarflokkanna sátu að tedrykkju.
Í þessari sölu koma gamlir hrunverjar við sögu eins og svo oft áður. Við höfðum bæði miklar efasemdir um þessa sölu. Þannig fór annað okkar fram á sérstaka umræðu á Alþingi þar sem spurt var áleitinna spurninga um söluna auk þess sem Ragnar Þór fjallaði nokkrum sinnum um hana á Facebook, þar sem hann benti m.a. á tengsl hrunverja við þessa sölu:
Eins og flestir vita eiga Stoðir (gamla FL group) um 16% hlut í Símanum og eru stærsti einstaki hluthafi á eftir lífeyrissjóðunum sem eiga samanlagt um 62% hlut með beinum og óbeinum hætti.
Það er almennt vitað að Stoðir hafa stjórnað þeirri vegferð, að selja innviði Símans, sem vekur upp spurningar hvernig gamalkunnar viðskiptablokkir eru að gera sig gildandi í íslensku viðskiptalífi og nota til þess kunnuglegar aðferðir. Selja innviði og græða sem mest á meðan aðrir, lífeyrissjóðir og almenningur, sitja uppi með áhættuna.
Lindarvatn:
Svo má ekki gleyma Lindarvatni en um það fyrirbæri hefur Ragnar Þór skrifað nokkrar greinar. Sem dæmi um viðskipti þess var að eitt af skúffufyrirtækjum þeirra keypti fyrir nokkrum árum hlutabréf fyrir 20.000 íslenskar krónur sem urðu að 456 milljónum EINU ÁRI SÍÐAR, án þess að nokkur eftirlitsstofnun svo mikið sem „deplaði auga“.
Áhugasamir geta lesið umfjallanir um Lindarvatn hér og hér.
Allir stjórnmálaflokkar þurfa að líta í eigin barm
Þetta eru bara nokkur dæmi af fjölmörgum viðskiptum sem teljast mega vafasöm á undanförnum árum. Þau hafa öll átt sér stað í skjóli ríkisstjórna undanfarinna ára og þar hlýtur fjármálaráðherra, sem hefur verið sá sami lungann af þessum tíma, að bera mesta ábyrgð.
Það er athyglisvert í ljósi þessarar sögu að einungis einn stjórnmálaflokkur, Flokkur fólksins, var alfarið á móti sölunni á Íslandsbanka. Aðrir flokkar í stjórnarandstöðu voru annað hvort fylgjandi sölunni eða gerðu athugasemdir við söluferlið og/eða það að salan væri í höndunum á fjármálaráðherra.
Það er umhugsunarefni út af fyrir sig.
80% þjóðarinnar eru á móti því að ríkið selji hlut sinn í bönkunum. Í hvaða stöðu eru kjörnir fulltrúar gagnvart almenningi í landinu, þegar þeir eru tilbúnir að fara svona gegn vilja þjóðarinnar bara ef „aðferðarfræðin er rétt“?
Vilji þjóðarinnar snýst ekki um í hvaða umbúðir spillingunni er pakkað.
Málið er líka að slík afstaða er opnun á spillinguna því, þrátt fyrir alla þá ábyrgð sem hann ber, er vandinn ekki einskorðaður við fjármálaráðherrann Bjarna Benediktsson.
Vandinn er mun viðameiri og mikið djúpstæðari en svo að hann snúist um einn mann, jafnvel þó hann sé fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Ef uppræta á spillinguna í landinu þurfa allir stjórnmálaflokkar að byrja á að líta í eigin barm og kannast við sína sögu í þeim efnum, því á meðan allir vilja verja sinn þátt og benda bara á aðra, verður ómögulegt fyrir okkur að standa sameinuð gegn þessum ólígörkum sem eru að yfirtaka Ísland.
„Gamlir kunningjar“ alls staðar á kreiki
Spillingin sem opinberar sig með þessum hætti núna, er nefnilega ekki ný af nálinni. Hún hefur verið til staðar svo árum skiptir.
Misskiptingin var fyrst búin til með kvótakerfinu sem gerði suma Íslendinga svo stjarnfræðilega ríka að þeir vissu vart aura sinna tal og urðu að fá að leika sér aðeins með þá.
Síðan voru bankarnir seldir og allt í einu varð til lokaður hópur vina sem espaði hvorn annan upp í vitleysunni og kunnu sér ekkert hóf, borðuðu gull og fengu Elton John og 50 Cent til að syngja afmælissöngvana sína.
Fleira kom að sjálfsögðu til, en það er sláandi að þeir sem standa svona gríðarlega vel í dag, sem skipa hina nýju forréttindastétt, eru þar ekki vegna þess að þeir séu svo klárir. Þeir eru þar af því þeir komust að peningajötunni, oftar fyrir kunningsskap en fyrir eigin gáfur eða viðskiptavit.
Þeir fengu forskot á okkur hin með tækifærum sem fáum bjóðast.
Það eina sem þá skortir sem flestir aðrir hafa, er það sem á ensku er kallað „common decency“ og kannski mæti þýða sem „almenna sómatilfinningu“.
Og alveg sama hvert er litið í þjóðfélaginu, þar sem er spilling, þar sem eru óeðlilegir viðskiptahættir,
eins og t.d. í kringum kaupin á Borgun, söluna á Mílu, Lindarvatn, Namibíumálið, vafningsmálið, svo eitthvað sé nefnt, og nú söluna á Íslandsbanka, þar er einhver þeirra.
Þeir eru alls staðar þar sem peningar og spilling eru, í einni eða annarri mynd og það er alveg ljóst að við losnum ekki við þá nema með breyttu hugarfari.
Við verðum að hætta að lúta í gras fyrir peningum og fara að skoða viðskiptasögu þessara manna með opnum augum.
Síðast en ekki síst, þurfum við að hætta að afhenda þeim eigur þjóðarinnar á silfurfati.AUGLÝSING
Ástæður þess að við erum alfarið á móti sölu bankanna
Eins og á undan er rakið eru fordæmin fyrir því hvernig fór með Íslandsbanka, út um allt. Þau blasa við hverjum sem vilja sjá. Þess vegna höfum við verið á móti og barist gegn sölu bankanna en það kemur þó fleira til, eins og t.d:
#1 Hrunið hefur ekki verið gert upp
Bankarnir fóru illa með marga eftir hrunið og í allt of mörgum staðfestum tilvikum, gengu þeir fram með ólöglegum hætti, í krafti yfirburðarstöðu.
Þau mál þarf að rannsaka og hafi bankarnir oftekið fé, ber þeim að skila því til baka.
Áður en þau mál hafa verið skoðuð er hætta á að fjárfestar séu að kaupa köttinn í sekknum og íslenska ríkið gæti verið ábyrgt fyrir því.
#2 Áhrif bankana á efnahag þjóðarinnar eru gríðarleg
Bankarnir hafa mikil áhrif á efnahag þjóðarinnar og afkomu heimilanna. Þau áhrif eiga ekki að vera í höndum áhættufjárfesta.
#3 Fé heimilanna er beint til bankanna
Stærsti hluti fasteignalána landsmanna eru hjá bönkunum og þegar þannig stendur á í efnahagslífinu grípur Seðlabankinn til þess ráðs að hækka vexti. Jafnvel núna þegar ljóst er að nær öll verðbólgan, nema kannski vegna húsnæðisliðarins, er innflutt og stafar af heimsfaraldri og/eða stríði úti í heimi, hækkar Seðlabankinn vexti. Þegar þannig stendur á mun hækkun vaxta ekki hafa nein áhrif til að slá á verðbólguna. Það sem hækkun vaxta mun hins vegar gera er að beina fé heimilanna beint í yfirfullar fjárhirslur bankanna. Fyrst verið er að fara þessa leið, sem er svo röng og gerir ekkert annað en auka á erfiðleika heimilanna, er ekki ásættanlegt að fjárfestar fái þetta fé á silfurbakka frá heimilum landsins. Það ætti a.m.k. að renna í sameiginlega sjóði og vera nýtt samfélaginu til góðs.
#4 Frekar en að selja ætti að skoða nýtt rekstrarform
Ef hrunið hefði kennt okkur eitthvað væri búið að aðskilja fjárfestingabanka og viðskiptabanka. Þannig gætu fjárfestar leikið sér og „gamblað“ með eigið fé, án þess að leggja okkur hin í hættu.
En þó það hafi ekki verið gert, þá ætti ríkið a.m.k. að nota tækifærið og stofna hérna sterkan samfélagsbanka að fyrirmynd „Sparekassen“ í Þýskalandi.
Til að fyrirbyggja misskilning, þá er gerir eignarhald ríkisins banka ekki að samfélagsbanka. Í raun hefur ríkið hagað sér eins og versti fjárfestir sem eigandi banka. Í stað þess að huga að hagsmunum neytenda hefur það beygt sig undir og jafnvel fagnað, arðsemiskröfu bankanna, alveg sama hvað það hefur kostað neytendur.
Án þess að fara nánar út í það hér, setur samfélagsbanki hagsmuni neytenda í forgang og skilar umfram hagnaði til baka til samfélagsins í stað þess að beina því í vasa víkinga og „óligarka“ að leika sér með.AUGLÝSING
Við verðum að ná Íslandi til baka
Við búum í einu ríkasta landi í heimi. Hér eiga allir að gera haft það gott. Sá kapítalismi sem hér er rekinn hefur fyrir löngu gengið sér til húðar.
Stærsti hluti þjóðarinnar hefur það fínt, hvort sem það er á efri eða neðri hluta „fínt“ skalans; nóg að bíta og brenna ásamt nokkuð öruggu húsaskjóli.
Um 15% þjóðarinnar, 55.000 manns, eru samt á leigumarkaði. Það er staðreynd að nær engin er á leigumarkaði af því hann vilji það, heldur af því hann neyðist til og það er í þessum hópi sem skorturinn er hvað mestur. Sumir á leigumarkaði hafa „í sig og á“ en aðrir ekki og það er því miður ört vaxandi hópur sem býr við skort.
Á sama tíma eru örfáir menn og en færri konur, sem leika sér að milljörðum. Milljörðum sem hafa í raun komið frá þjóðinni með einum eða öðrum hætti. Þetta eru ekkert meiri snillingar en „ég og þú“, þeir einfaldlega fengu tækifæri sem „mér og þér“ hafa aldrei boðist.
Ef þetta eru 2000 menn, og það er vægast sagt vafasamt að þeir séu svo margir, eru þeir hálft prósent þjóðarinnar.
Það er hins vegar líklegra að þeir séu innan við 100 eða 200, jafnvel ekki nema nokkrir tugir.
Hversu miklu eigum við öll að fórna fyrir þá?
Fólk er ekki fóður fyrir fjárfesta og Ísland má ekki vera leikvöllur þeirra.
Við verðum að ná landinu okkar til baka!
Ásthildur Lóa Þórsdóttir er þingmaður Flokks fólksins og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.
Ragnar Þór Ingólfsson er formaður VR.