Eru eldri borgarar baggi á samfélaginu? Þannig er um okkur talað, nú síðast í kvöldfréttum RÚV á sunnudaginn. Þar var talað um að auka þyrfti framlög til eldri borgara um 3% af vergri landsframleiðslu og svo framvegis. Spruttum við eldri borgarar fram úr álfasteini og urðum allt í einu til?
Það er þekkt staðreynd að árgangarnir sem fæddust eftir síðari heimsstyrjöld voru mjög stórir. Það er því algjör fáfræði að tala niður til okkar sem nýs vandamáls. Við erum búin að vera til staðar í heilan mannsaldur og erum loks að komast á eftirlaun. Við teljum okkur hafa byggt upp atvinnulíf þjóðarinnar og skilað miklu til samfélagsins. Í mínu tilfelli var ég virkur þátttakandi í að byggja upp ferðaþjónustuna. Við byggðum líka upp lífeyrissjóðakerfið sem stjórnvöld hafa með kjafti og klóm reynt að ræna okkur og eru atvinnurekendur helstu aðstoðarmenn stjórnvalda í þeim verknaði.
Atvinnurekendur sigla undir fána húsbóndavaldsins, orð sem fyrir löngu ætti að vera horfið úr íslenskri tungu. Lífeyrissjóðirnir á almenna vinnumarkaðinum voru stofnaðir af vinnandi höndum og greiddu sjóðsfélagar bæði framlag sitt og hið svokallaða framlag atvinnurekenda og eru þeir því í 100% eigu fólksins. Því eiga sjóðsfélagar að stýra þeim. Stjórnvöld og atvinnurekendur eiga ekkert erindi inn í lífeyrissjóðina.
Annað dæmi er framkvæmdasjóður aldraðra sem við greiðum í með sköttum okkar og ætlaður var til að byggja upp dvalarheimili aldraðra. Honum hefur verið rænt til annarra verka.
Í þessu liggur stór hluti af vandanum, stjórnvöld beita skerðingum til að hrifsa til sín þær krónur sem við fáum greiddar úr lífeyrissjóðunum, skerðingarnar eru allt upp í rúm 70% af tekjum fólks. Ísland greiðir minnst allra OECD-landa í laun eldri borgara eða um 2,6% af vergri landsframleiðslu. Meðaltal OECD-landanna er 7%. Ísland þarf að efla kjör eldra fólks verulega til að vera á pari við Dani sem borga 8%.
Látið ekki blekkjast af fagurfræði eins og hjá sjálfstæðismönnum sem eru að byggja upp kerfi sem enginn skilur.
Við viljum að komið sé fram við eldri borgara og öryrkja eins og aðra þjóðfélagsþegna, annað er einelti sem ekki verður liðið.
Brjótum múra, bætum kjörin!
Hættum að skattleggja fátækt!
Gerum efri árin að gæðaárum!
Kjósum X-F
Wilhelm Wessman – 2.sæti á framboðslista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi Suður.