Það er enginn skortur á sjálfshóli ríkisstjórnarinnar um eigið ágæti og hvernig hún hafi staðið vörð um hvers kyns mannréttindi. Hvernig skyldi þá standa á því að þau gera akkúrat það gagnstæða og fótumtroða grundvallarmannréttindi? Hvar eru fæði, klæði og húsnæði fyrir alla svo ég tali nú ekki um aðgang að lífsnauðsynlegri heilbrigðisþjónustu?
Við skulum átta okkur á því að fórnarlömb vaxandi fátæktar í boði þessarar ríkisstjórnar eru saklaus börn. Börnin sem eiga ekkert val, geta ekki fengið að sinna tómstundum sem kosta peninga, engar íþróttir, ekkert tónlistarnám, engin ný föt, oft og iðulega enginn matur á diskinn. Fátækt barnanna okkar hefur vaxið um hátt í 50% á sl. sex árum undir stjórn Framsóknarflokksins sem fer með málaflokkinn. Sami flokkur og gerði það að sínu helsta kosningaloforði fyrir síðustu alþingiskosningar að ætla að fjárfesta í mannauðnum. Er ekki bara best að kjósa Framsókn!
Ég hef ítrekað og ekki að ástæðulausu vísað til 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Það er eitt að berjast fyrir nýrri stjórnarskrá, sem löngu er orðið tímabært, en annað að berjast fyrir því að sú sem við búum við í dag sé virt en ekki fótumtroðin.
76. gr. hljóðar svo:
1. mgr. „Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.“
Efast einhver um að stjórnvöld traðka þessa mgr. í svaðið hvern einasta dag. Sárafátækir öryrkjar, sárafátækt eldra fólk, sárafátækar fjölskyldur sem ná ekki endum saman og stefnir í að þúsundum saman muni missa heimili sín vegna vanhæfni þessarar ríkisstjórnar. Fárveikt fólk sem látið er átölulaust að búi á götunni og eigi ekki í nein hús að venda, jafnvel frjósi í hel þar sem það hefur lagst til svefns á bekki í almenningsgarði og dáið þar úr kulda og vosbúð.
2. mgr. „Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.“
Nýútkomin Pisa-könnun er augljós vitnisburður um hvernig þessi stjórnarskrárvörðu réttindi eru tröðkuð í svaðið. Vitnisburður um að tæplega helmingur barna er að útskrifast eftir 10 ára grunnskólanám ólæs eða með lélegan lesskilning. Framtíð þeirra er þyrnum stráð og það í boði vanhæfrar ríkisstjórnar.
3. mgr. „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“
Börnin eru án nokkurs vafa fórnarlömb vaxandi fátæktar sem þessi ríkisstjórn hefur áskapað þeim.
Ef það að segja sannleikann er að vera orðljót, þá er eitt öruggt: Ég verð áfram orðljót!