Stjórnvöld hlusta ekki á neyðarkall fátækra

Kreppan er grimm. Fátæktin er bölvun sem brýtur niður fólk og nagar með tímanum sundur stoðir samfélagsins.

                Það kom ekki á óvart, en var hræðilegt að horfa á fyrstu frétt sjónvarps Ríkisútvarpsins laugardagskvöldið 26. september. Þar sagði að um 200 fjölskyldur hefðu óskað eftir mataraðstoð hjá Fjölskylduhjálp Íslands á Suðurnesjum nú um mánaðarmótin. Atvinnuleysið er gríðarlegt og fer vaxandi. Öryrkjar, aldraðir og innflytjendur sem hafa misst vinnuna standa í hópum fyrir utan úthlutunarmiðstöðvar þegar þær opna. Fólkið sem er í slíkri neyð að þurfa að þiggja matargjafir með þessum hætti skiptir þúsundum í viku hverri. Þessi hópur stækkar dag frá degi. Nýir hópar einstaklinga sem hefðu aldrei látið sér detta í hug að lenda í þessum sporum.  

                Á sunnudagsmorgun hlustaði ég svo eins og ég geri alltaf á þjóðmálaþáttinn Sprengisand á Bylgjunni. Þar ræddi Kristján Kristjánsson við Þuríði Hörpu Sigurðardóttur formann Öryrkjabandalags Íslands. Hún er talsmaður þjóðfélagshóps sem á einna erfiðast. Tekjur öryrkja duga ekki til framfærslu. Reynslan sýnir að atvinnuleysi fjölgar þeim sem enda á örorku. Þuríður Harpa benti á að fullur örorkulífeyrir er í dag 30 þúsund krónum lægri heldur en lægstu atvinnuleysisbætur, og 83 þúsund krónum lægri en lögbundin lágmarkslaun. Stjórnvöld hafa allt frá 2007 horft þegjandi og aðgerðalaust á það hvernig fólk á örorkulífeyri hefur jafnt og þétt sogast ofan í örbirgð því  örorkulífeyrir heldur ekki í við það hvað það kostar að lágmarki að lifa í þessu landi. Óréttlátar skerðingar vegna tekna bæta síðan gráu ofan á svart.

                Nú þegar við horfum fram á erfiðan vetur teljum við í Flokki fólksins afar brýnt að við sláum skjaldborg um okkar viðkvæmustu þjóðfélagshópa. Við munum búa við umsátursástand covid-faraldursins þar til bóluefni finnst. Þangað til verður við að þrauka. Ég kalla eftir samstöðu allra flokka um að við þjöppum okkur nú öll í vörnina til að bjarga samfélagi okkar, til að bjarga fólkinu okkar, til að halda fólki frá fátæktargildrunum. Þetta er ekki tíminn til að ýfa upp illindi.

                Við í Flokki fólksins höfum lengi reynt að tala máli þeirra sem höllum fæti standa. Sumir hafa brosað í kampinn við þetta og talið okkur jafnvel fara með ósannindi og ýkjur þegar kemur að umræðu um fátækt í okkar ríka landi. Nú verður hins vegar ekki lengur litið undan. Myndir af biðröðum eftir mat eru órækur vitnisburður um þann raunveruleika sem birtist okkur öllum. Baráttan gegn atvinnuleysi og fátækt á að verða brýnasta viðfangsefni stjórnmálanna í vetur.

Deila