Strandveiðar og atvinnufrelsi

Strand­veiðikerfið í dag er mikl­um ann­mörk­um háð, en í því má aðeins veiða 48 daga á ári, 12 daga á mánuði maí til ág­úst. Þá er pott­ur­inn lít­ill og klár­ast reglu­lega áður en strand­veiðitíma­bil­inu lýk­ur, með þeim af­leiðing­um að marg­ir ná ekki að full­nýta veiðirétt sinn. Eitt fyrsta verk sjáv­ar­út­vegs­ráðherra VG var að skerða þorskveiðiheim­ild­ir í strand­veiðum um 1.500 tonn, þrátt fyr­ir að kosn­inga­bar­átta flokks­ins í Norðvest­ur­kjör­dæmi sl. haust hafi byggst á efl­ingu strand­veiða og sjáv­ar­byggða.

Flokk­ur fólks­ins mælti í sl. viku fyr­ir frum­varpi um frjáls­ar hand­færa­veiðar með því að heim­ila fisk­veiðar á eig­in bát með fjór­um sjálf­virk­um hand­færar­úll­um. Mark­mið frum­varps­ins er að íbú­ar sjáv­ar­byggðanna fái rétt til að nýta sjáv­ar­auðlind­ina þannig að fjöl­skyld­ur geti lifað af fisk­veiðum. Sá rétt­ur verður ein­ung­is tryggður með efl­ingu strand­veiða sem at­vinnu­grein­ar og með því að gefa hand­færa­veiðar frjáls­ar.

Rök­in fyr­ir því eru að hand­færa­veiðar ógna ekki fiski­stofn­um á Íslands­miðum. Kvóta­kerfið var sett til vernd­ar fiski­stofn­um og á því ein­ung­is að ná til þeirra veiðiaðferða og veiðarfæra sem geta stofnað fiski­stofn­um í hættu. Hand­færa­veiðar með öngl­um ógna ekki fiski­stofn­um og ber því að gefa þær frjáls­ar. Rök­in fyr­ir nú­gild­andi tak­mörk­un hand­færa­veiða eru ekki fyr­ir hendi. Rétt­ur­inn til hand­færa­veiða er æva­forn og á styrka stoð í rétt­ar­vit­und al­menn­ings. Í Jóns­bók frá 1281, lög­bók Íslend­inga í ár­hundruð, seg­ir: All­ir menn eigu at veiða fyr­ir utan net­lög at ósekju.

Bar­átt­an fyr­ir frjáls­um strand­veiðum er rétt­inda­bar­átta. Bar­átta fyr­ir jöfn­um bú­setu­rétti og rétti íbúa sjáv­ar­byggðanna á lands­byggðinni, þar sem byggð hef­ur alla tíð byggst á fisk­veiðum. Hægt er að tryggja þenn­an rétt með efl­ingu strand­veiða. Þetta er bar­átta fyr­ir at­vinnu­frelsi en tak­mark­an­ir á at­vinnu­frelsi mega ekki ganga lengra en nauðsyn kref­ur.

Nú­ver­andi strand­veiðikerfi með 48 veiðidög­um og litl­um afla­heim­ild­um var sett á í kjöl­far álits mann­rétt­inda­nefnd­ar Sam­einuðu þjóðanna frá 2007. Í álit­inu var talið að stjórn­kerfi fisk­veiða bryti á jafn­ræði borg­ar­anna sam­kvæmt alþjóðasamn­ingi um borg­ar­leg og stjórn­mála­leg rétt­indi. Strand­veiðikerfið trygg­ir ekki jafn­ræði borg­ar­anna. Til þess eru tak­mark­an­ir á veiðunum of mikl­ar og skerðing at­vinnu­frels­is til hand­færa­veiða geng­ur lengra en nauðsyn kref­ur.

Strand­veiðifé­lag Íslands var stofnað um sl. helgi, til að berj­ast fyr­ir rétti al­menn­ings til hand­færa­veiða við Íslands­strend­ur og koma í veg fyr­ir mis­mun­un í lög­um um fisk­veiðistjórn­un. Mark­miðið er að stuðla að nauðsyn­leg­um breyt­ing­um á kvóta­kerf­inu í átt að rétt­læti fyr­ir alla þjóðina, um­bót­um á vís­inda­leg­um haf­rann­sókn­um og veiðiráðgjöf, vernd­un hafs­ins og fiski­stofna. Fé­lagið er opið öll­um sem eru sam­mála til­gangi þess og mark­miðum og er það mik­il­vægt því mál­efnið varðar alla lands­menn. Hér er um mik­il­vægt fé­lag að ræða í þeirri mann­rétt­inda­bar­áttu sem frjáls­ar hand­færa­veiðar eru. Það er bar­átta fyr­ir fólkið í land­inu og bú­setu­rétti í sjáv­ar­byggðum lands­ins og fyr­ir grund­velli allr­ar byggðar, sem er at­vinnu­frelsið.

Deila