Styðjum íslenska garðyrkjubændur

Greinargerð.

Heimsfaraldur COVID-19 sem nú geisar og þær nauðsynlegu sóttvarnaaðgerðir sem þjóðir heimsins hafa þurft að grípa til hafa sýnt fram á það hve mikilvæg innlend matvælaframleiðsla er fyrir öryggi þjóða. Innlend matvælaframleiðsla er sérstaklega mikilvæg þegar þjóð er jafn einangruð og viðkvæm fyrir röskun á innflutningi á matvælum og Ísland. 

Þess vegna er fullt tilefni til að ráðast í stórsókn í framleiðslu garðyrkjuafurða og fella niður þá múra sem standa í vegi fyrir því að efla megi innlenda framleiðslu. Aukin innlend matvælaframleiðsla mun einnig hafa jákvæð áhrif í baráttunni gegn efnahagsáhrifum COVID-19 næstu árin. Þar sem frumvarpið leggur til auknar endurgreiðslur vegna kostnaðar sem fellur til frá ársbyrjun 2021 mun það hafa atvinnuskapandi áhrif þegar við gildistöku. Því er brýnt að frumvarpið verði samþykkt sem fyrst. Framleiðsla garðyrkjuafurða hefur á síðustu áratugum eflst til muna á Íslandi. Þó landið sé harðbýlt hafa garðyrkjubændur unnið mikið þrekvirki við að koma upp aðstöðu til að rækta hér matvæli sem áður þótti óhugsandi að rækta á norðurslóðum. Íslenskur almenningur hefur vegna framþróunar í garðyrkju haft greiðan aðgang að vörum sem áður þóttu munaðarvörur. Aðgengi að ódýrri orku hefur spilað stóran þátt í uppbyggingu garðyrkju á Íslandi. Raforka er nauðsynleg í ylrækt til að lýsa og hita gróðurhús. 

Raforkuverð hefur því bein áhrif á það hversu mikið garðyrkjubændur geta framleitt og á hvaða verði þeir selja afurðir sínar til neytenda. Raforka er í dag markaðsvara og því þarf að greiða fyrir hana markaðsverð, sem sveiflast eftir framboði og eftirspurn. Til að stuðla að aukinni framleiðslu garðyrkjuafurða hefur íslenska ríkið í gegnum tíðina niðurgreitt að ákveðnu marki kostnað garðyrkjubænda við flutning og dreifingu á raforku. Þessar niðurgreiðslur gera garðyrkjubændum kleift að selja vörur á samkeppnishæfu verði þrátt fyrir mikið framboð af innfluttu erlendu grænmeti. Þó eru ákveðnir vankantar á núverandi fyrirkomulagi. Niðurgreiðslur takmarkast við fyrirframákveðin heildarframlög á ári hverju og hver einstakur framleiðandi getur aðeins fengið tiltekinn hluta af niðurgreiðslum. Þá er í búvörusamningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða kveðið á um að framleiðendur skuli ávallt greiða að lágmarki 5% kostnaðar við flutning og dreifingu. Nú þegar hafa stjórnvöld endurskoðað samninga við garðyrkjubændur og boðað auknar niðurgreiðslur á næstu árum. Það er jákvætt fyrsta skref. Það er þó nauðsynlegt að ganga lengra. 

Í frumvarpi þessu er lagt til að á næstu fjórum árum verði niðurgreiddur allur kostnaður við flutning og dreifingu raforku til framleiðslu á garðyrkjuafurðum. Ríkið verði því skuldbundið til að niðurgreiða kostnað óháð því hvort heildarkostnaður fari fram úr þeim viðmiðum sem kveðið er á um í samningum milli ríkisins og garðyrkjubænda og þeim viðmiðum sem kveða á um hámark hlutdeildar einstakra framleiðenda af heildarniðurgreiðslum. Þegar ætlunin er að hefja framleiðslu garðyrkjuafurða eða auka við framleiðsluna þarf að byggja upp dreifikerfi eða stækka dreifikerfi til að auka flutningsgetu þess. Garðyrkjubændur geta öllu jafna ekki valið milli dreifiaðila og þurfa að greiða háar fjárhæðir fyrir uppbyggingu dreifikerfa. Sá kostnaður er ekki niðurgreiddur og þessi rekstrarskilyrði mynda því ákveðna hindrun fyrir garðyrkjubændur sem gerir þeim erfitt fyrir ef þeir hyggjast auka við framleiðslu sína og dregur úr nýliðun í greininni. Stofnkostnaður er mikill og fastur rekstrarkostnaður einnig umtalsverður. 

Þess vegna er lagt til að ríkið niðurgreiði helming kostnaðar garðyrkjubænda við uppbyggingu á dreifikerfi raforku til garðyrkjubýla, gróðrarstöðva og garðyrkjustöðva. Verði þetta frumvarp að lögum skapast kjöraðstæður fyrir garðyrkjubændur á Íslandi til að efla starfsemi sína og auka framleiðslu. Því er viðbúið að innlend framleiðsla á garðyrkjuafurðum aukist til muna og að fjöldi starfa muni skapast í greininni. Að auki mun aukin framleiðsla garðyrkjuafurða hafa jákvæð áhrif í öðrum greinum atvinnulífsins, svo sem byggingariðnaði. Þá er mikið framleitt af garðyrkjuafurðum á þeim svæðum landsins sem hvað mest finna fyrir samdrætti í ferðaþjónustu og því myndi stórsókn í þeirri framleiðslu sporna við auknu atvinnuleysi á þeim svæðum.

 

Deila