Sundabraut og ný Breiðafjarðarferja í forgang

Nauðsynlegir innviðir á borð við nútímasamgöngur, öflugt fjarskiptasamband, góð heilbrigðisþjónusta og menntun, sem stenst samanburð við höfuðborgarsvæðið, er réttmæt krafa íbúa landsbyggðarinnar.

Sundabraut er þjóðhagslega hagkvæmasta vegaframkvæmdin sem völ er á í dag. Sundabraut styttir akstur til höfuðborgarinnar líklega um hálftíma. Ef 6.000 manns ækju Sundabraut á dag sparaði það 3000 vinnustundir á dag. Það munar um minna.

Sundabraut skiptir miklu fyrir íbúa Norðvesturkjördæmis, ekki síst fyrir Akranes og Vesturland og myndi styrkja verulega stöðu Akraness sem hluta af atvinnusvæði höfuðborgarinnar. Lagning Sundabrautar er það mikilvæg vegaframkvæmd og þjóðhagslega hagkvæm að setja ætti hana í forgang.

Mikilvægt er að auka aðgengi ferðamanna að Vesturlandi og áfram til Vestfjarða og Norðurlands vestra með bættum samgöngum. Þar er Sundabraut mikilvægust, auk betri vegtenginga innan kjördæmisins og til Þingvalla og Suðurlands um Uxahryggi, sem og Breiðafjarðarferja sem stenst nútímakröfur.

Nýja Breiðafjarðarferju þarf sem fyrst í stað þeirrar sem nú siglir. Núverandi Baldur annar ekki eftirspurn og öryggi farþega er ekki tryggt. Fjórðungssamband Vestfjarða ályktaði um þetta nýlega og benti á að Baldur og siglingar yfir Breiðafjörð væru grunnstoð í samgöngumálum Vestfirðinga. Fiskeldi á Vestfjörðum skilar milljörðum króna í þjóðarbúið og innan fimm ára mun ársframleiðsla fara yfir 50 þúsund tonn, helmingi meira en nú. Flutningar afurða og aðfanga munu því stóraukast og vegakerfið þarf að taka mið af því. Krafa sveitarfélaga á Vestfjörðum er að gamli Herjólfur verði notaður í Breiðafjarðarferðir uns ný ferja fæst. Hann hefur síðustu tvö ár verið við bryggju í Eyjum, til vara fyrir Nýja Herjólf. Tekið er undir þessa kröfu hér. Núverandi Baldur stenst ekki nútímakröfur um þægindi í farþegaflutningum og er í engu samræmi við það að ferðaþjónusta er í dag mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar.

Löngu tímabært er að nútíminn hefji innreið sína í samgöngumálum á Vestfjörðum. Má hér nefna mikilvægi þess að malbikun Dynjandisheiðar verði lokið sem fyrst, að vegurinn um Suðurfirði til Bíldudals verði malbikaður og undirbúningur hefjist fyrir jarðgangagerð í gegnum Hálfdán á milli Bíldudals og Tálknafjarðar (6,1 km) og undir Mikladal á milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar (2,8 km).

Allt eru þetta verkefni sem þingmenn Norðvesturkjördæmis verða að sameinast um enda mikilvæg fyrir kjördæmið og landið allt.

Sundabraut er það þjóðhagslega mikilvæg samgöngubót að allir þingmenn ættu að geta sameinast um það verkefni. Eftir Hrun var Harpa byggð sem efldi tónlistarlíf borgarinnar. Eftir heimsfaraldurinn ætti þjóðin að sameinast um innviða- og samgöngubætur og lagningu Sundabrautar.

Eyjólfur Ármannsson

Höfundur var kjördæmakjörinn í 6. sæti í Norðvesturkjördæmi fyrir Flokk fólksins í alþingiskosningunum 25. september sl.

Deila