Svik á svik ofan!

Það er varla á færi nema hörðustu nagla að horfa yfir sviðið og sjá hvernig þess­ari rík­is­stjórn hef­ur tek­ist að hella olíu yfir sam­fé­lagið og hrein­lega bera eld að því. Nú­ver­andi staða þess ein­kenn­ist af vax­andi fá­tækt, rýrn­andi kaup­mætti, biðlist­um eft­ir lækn­is­hjálp og hrein­lega óafsak­an­leg­um hús­næðis­skorti.

Undir vernd­ar­væng mennta- og barna­málaráðherra hef­ur fá­tækt ís­lenskra barna vaxið um 44%. Lestr­ar­færni þeirra hef­ur hrakað gríðarlega og talið er að um helm­ing­ur drengja út­skrif­ist úr grunn­skóla með lé­leg­an lesskiln­ing eða jafn­vel ólæs­ir.

Skerðing­arof­beldið gagn­vart öldruðum og ör­yrkj­um held­ur áfram. Hundrað ein­stak­ling­ar deyja ár­lega ótíma­bær­um dauða vegna fíkni­efna­sjúk­dóma og yfir 700 manns bíða ör­vænt­ing­ar­full­ir eft­ir því að kom­ast að á sjúkra­hús­inu Vogi. Allt þetta í einu rík­asta landi í heimi. Í landi tæki­fær­anna eins og Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn nefn­ir það.

For­gangs­röðun fjár­muna hjá þess­ari rík­is­stjórn und­an­far­in sjö ár hef­ur sýnt að hinn al­menni borg­ari, venju­legt fólk í land­inu, get­ur étið það sem úti frýs. Ein­stæðar mæður ör­vænta á sam­fé­lags­miðlum yfir því hvernig þær eigi að gefa börn­um sín­um holl­an mat þegar þær hafa aðeins nokk­ur þúsund krón­ur á viku til ráðstöf­un­ar. „Ég hef 20.000 kr. á mánuði, 5.000 kr. á viku til að gefa börn­un­um mín­um að borða. Hvernig get ég komið í veg fyr­ir að börn­in mín líði nær­ing­ar­skort?“ spyr ein þeirra. Rík­is­stjórn­in hef­ur skellt skolla­eyr­um við ákalli hjálp­ar­stofn­ana sem sjá um að brauðfæða þá allra verst settu. Það eru nefni­lega ekki til pen­ing­ar þegar kem­ur að því að aðstoða þá verst settu.

Á sama tíma dag­ar tugi aldraðra uppi á Land­spít­al­an­um í dýr­asta hjúkr­unar­úr­ræði lands­ins. Þetta ger­ist þrátt fyr­ir vitn­eskju um vax­andi skort á hjúkr­un­ar­rým­um. Þing­heim­ur hef­ur lengi vitað að eldra fólki muni fjölga hratt. En hverju hef­ur verið áorkað? Fjór­flokk­ur­inn hef­ur gefið ótal kosn­ingalof­orð um að standa vörð um vel­ferð eldra fólks. Nú t.d. með því að aug­lýsa hvað það sé nú gott að eld­ast á Íslandi. Hlægi­legt hvernig rík­is­stjórn­in hef­ur til­einkað sér flótta­leiðir strúts­ins með því stinga hausn­um í sand­inn í þeirri veiku von að vand­inn leys­ist af sjálf­um sér!

Staðreynd­in er sú að rík­is­stjórn­inni er ná­kvæm­lega sama um þá sem hún var kjör­in til að vernda. Að baki eru sjö ár svika, vax­andi fá­tækt­ar og von­brigða. Við í Flokki fólks­ins mun­um leiðrétta órétt­lætið með ykk­ar hjálp. Flokk­ur fólks­ins mun aldrei lofa til þess eins að svíkja þegar talið hef­ur verið upp úr kjör­köss­un­um. Við mun­um alltaf setja fólkið í fyrsta sæti. Fólkið fyrst, svo allt hitt.

Deila