Svik VG við sjávarbyggðirnar

Nýta má strandveiðar til að efla jafnrétti og stuðla að nýliðun í sjávarútvegi. Við viljum efla fjölbreytt útgerðarform með öflugum strandveiðum og byggðatengdum aflaheimildum og koma í veg fyrir mikla samþjöppun svo byggðirnar blómstri.“ Þetta var boðskapur VG í kosningabaráttunni í Norðvesturkjördæmi síðastliðið haust. Hverjar eru efndirnar?

Fyrsta verk sjávarútvegsráðherra VG í nýrri ríkisstjórn er reglugerðarbreyting um að skerða þorskveiðiheimildir til strandveiða næsta sumar. Breytingin er á reglugerð sem tók gildi í ágúst, rétt fyrir kosningar, en með henni eru þorskveiðiheimildir skertar um 1.500 tonn. Heimildir lækka því úr 10.000 tonnum í 8.500. Byggðakvótinn er einnig lækkaður um 874 tonn, úr 4.500 tonnum í 3.626 tonn. Hér er um umtalsverða skerðingu að ræða, sem fer þvert gegn kosningaloforðum VG. Sé einhver í vafa, þá er það svona sem svik og blekkingar líta út.

Strandveiðar hafa reynst vel fyrir hinar dreifðu sjávarbyggðir, þótt litlar séu. Strandveiðar valda minnstu raski í hafrýminu, hafa minnsta kolefnissporið og hámarka verðmæti aflans. Smábátaútgerð hefur spornað gegn samþjöppun og komið í veg fyrir að fjölbreyttur sjávarútvegur legðist af á landsbyggðinni. En með áframhaldandi stefnu stjórnvalda? Munu strandveiðar hverfa? Ungt fólk, sem vill fara í útgerð, mun væntanlega flytjast til Noregs enda fer tækifærunum mjög fækkandi á Íslandi.

Ákvörðun sjávarútvegsráðherra um skerðingu þorskveiðiheimilda er óskiljanleg sé mark tekið á kosningabaráttu VG og stefnuskrá flokksins. En hún er hins vegar auðskiljanleg þegar skrif sérhagmunagæslu stórútgerðarinnar og kvótaeigenda eru skoðuð. Vilji þeirra kemur skýrt fram í athugasemdum fulltrúa þeirra við frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (atvinnu- og byggðakvóti). Þar segir: „Samtökin [SFS] hafa ítrekað lýst þeirri afstöðu að hætta eigi strandveiðum og fella aflamark, sem tekið hefur verið af öðrum og ráðstafað til þessara veiða, undir aflahlutdeildarkerfið.“ Þar á bæ er ekki litið á strandveiðar sem atvinnuveiðar og virðingin fyrir þeim engin. „Samtökin leggja þunga áherslu á að aflamagn til strandveiða verði ekki aukið með neinum hætti á kostnað atvinnuveiðanna.“ Hræðslan við strandveiðarnar er með ólíkindum, og er það ekki af umhyggju SFS fyrir vernd fiskistofna.

Baráttan fyrir frjálsum strandveiðum er réttindabarátta. Barátta fyrir atvinnufrelsi og búseturétti. Takmarkanir á atvinnufrelsi mega ekki ganga lengra en nauðsyn krefur. Aflahámark sem takmarkar fiskveiðar á aðeins að ná til þeirra veiða sem ógna fiskistofnum. Handfæraveiðar ógna ekki fiskistofnum. Þetta er einnig barátta fyrir jöfnum búseturétti og rétti íbúa sjávarbyggðanna á landsbyggðinni, þar sem byggð hefur alla tíð byggst á fiskveiðum. Íbúar sjávarbyggðanna eiga skilið að fá að nýta sjávarauðlindina þannig að fjölskyldur geti lifað af fiskveiðum. Sá réttur verður einungis tryggður með eflingu strandveiða en ekki lýðskrumi rétt fyrir kosningar.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins í NV-kjördæmi.

Deila