Svik við aldraða

Sem starfsmaður Flokks fólksins hef ég unnið að fjölda þingmála sem snerta hagsmuni aldraðra. Þar á meðal eru þingmál um bú­setu­ör­yggi í dval­ar- og hjúkrunarrým­um, 100.000 kr. frí­tekju­mark vegna lífeyristekna, að hækk­un bóta fylgi ávallt launaþróun eins og hún kem­ur fram í launa­vísi­tölu, að hjálpar­tæki verði und­anþegin virðis­auka­skatti, af­nám vasapeningafyrirkomulagsins, aukið lýðræði og gagn­sæi í líf­eyr­is­sjóðum, stofnun hagsmunafulltrúa aldraðra og af­nám skerðinga vegna launa­tekna aldraðra.

Öll eru málin sanngirnis- og réttlætismál. En af öllum þeim málum sem snerta aldraða þá er brýnast að bæta kjör þeirra sem lifa undir lágmarksframfærsluviðmiði félagsmálaráðuneytisins. Flestir þeir sem eru í þessum hópi eru þeir sem hafa engar tekjur aðrar en lífeyri frá almannatryggingum.

Í þessum hópi er gamalt fólk sem þarf að velja á milli, hvort það kaupir sér mat eða lífsnauðsynleg lyf.

Í nýsamþykktum fjárlögum fyrir árið 2020, lögðu þrír stjórnmálaflokkar, m.a. Flokkur fólksins, fram breytingartillögu um að hvorki öryrkjar né eldri borgarar þurfi að draga fram lífið langt undir lágmarkslaunum. Því miður var meirihluti þingmanna á móti þessari tillögu og hún var felld.

Mesta kjaraskerðing sem aldraðir urðu fyrir frá hruni var vegna kjaragliðnunar. Með kjaragliðnun er átt við, að lífeyrir hækkar minna en laun.

Allir stjórnmálaflokkar hafa lofað að leiðrétta kjara­gliðnunina. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, en honum var stjórnað af núverandi leiðtogum Miðflokksins, lögðu sérstaka áherslu á þetta loforð árið 2013. Stóðu þeir við það? Að sjálfsögðu ekki, þessu er alltaf lofað og jafn oft svikið. Enn í dag horfum við upp á þessa sömu flokka ásamt Vinstrihreyfingunni – grænu framboði svíkja fátækt fólk og neita því réttlæti. Ef þessir flokkar hefðu einhvern tíma staðið við stóru orðin þá væri staða fátækra önnur í dag.

  • Sigurjón Arnórsson, aðstoðarmaður Ingu Sælands.

Deila