Það þarf að verja heimilin fyrir þessum á­hrifum en ekki fórna þeim fyrir þau

Aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við gríðarlegri verðbólgu hafa valdið heimilum landsins meiri skaða heldur en verðbólgan sjálf, að mati formanns Hagsmunasamtaka heimilanna. Ríkisstjórnin virðist ekki hafa skilning á hagkerfi heimilanna og erfið staða blasi við.

Verðbólgan mældist 9,9 prósentustig í júlímánuði og hefur ekki verið hærri í þrettán ár en viðbúið er að hún fari yfir tíu prósentustig í ágúst. Heimili landsins hafa komið illa út en húsnæðisverð hefur hækkað talsvert hraðar en laun samhliða vaxtarhækkunum Seðlabankans.

Greiðslubyrði hefur sömuleiðis aukist en sé miðað við fjögurra manna fjölskyldu hefur hún aukist um rúmlega áttatíu þúsund krónur, samkvæmt könnun ASÍ í júní. Þar af séu aðeins tuttugu þúsund vegna verðbólgunnar en rest vegna húsnæðis.

„Þetta gengur ekki upp. Þetta er það sem á eftir að valda heimilunum mestum skaða, það eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans gegn verðbólgunni, og ég skil ekki hvernig hægt er að réttlæta það,“ segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og þingmaður Flokks fólksins.

„Það gengur ekki að hækka álögur á heimilin um tugi þúsunda á mánuði þegar verðbólgan er nóg fyrir heimilin til þess að eiga við,“ segir hún enn fremur og bætir við að líkja megi það við að höggva handleggin af við öxl vegna puttabrots.

Í stað þess að hækka vexti væri hægt að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni og frysta verðtryggingu á lánum og leigu tímabundið að mati Ásthildar. Þá eigi heimili landsins ekki að gjalda fyrir vandræði á fasteignamarkaði.

„Það er náttúrulega fyrst og fremst að það þarf að verja heimilin fyrir þessum áhrifum en ekki fórna þeim fyrir þau,“ segir hún. „Því miður virðist ríkisstjórnin ekki hafa skilning á hagkerfi heimilanna, hún virðist ekki skilja að það er ekki til peningur fyrir þessum hækkunum.“

Ljóst sé að staðan eigi aðeins eftir að versna með tilheyrandi afleiðingum.

„Og af því að það er nú það eina sem þessi ríkisstjórn virðist skilja, þá mun það hafa gríðarlegan kostnað í för með sér fyrir þjóðfélagið, fyrir utan örvæntinguna og skelfinguna sem þessi heimili eru þá að fara að ganga í gegnum,“ segir Ásthildur.

Það er þá bara tímaspursmál, eða hvað?

„Ég vil ekki vera með svartsýnis spár hérna en ég get ekki séð hvernig þetta endar öðruvísi ef svo heldur áfram sem horfir,“ segir hún.

Deila