Þarf eins brauð virkilega að vera annars dauði?

Það er ofur eðlilegt að íslenskur almenningur setji ítrekuð spurningamerki við þá hagstjórn sem við höfum mátt búa við hér allt frá stofnun lýðveldisins.
Afborgun af 30 ára húsnæðisláni á meðalkaupverði sem nam árið 2020 kr. 217.500, nemur í dag kr. 564.000 og segir það allt sem segja þarf. Þessi ófyrirsjáanlegi öldugangur er að gera út af við fjölda venjulegra Íslendinga sem áttu sér einskis frekara ills von eftir heimsfaraldurinn skæða og jarðeldana á Reykjanesi.

Vextir sem stökkva úr 0.75% í 9.5% á örfáum misserum ættu ekki að teljast boðlegir neinu samfélagi, en skýringar Seðlabankans eru jú sífellt hinar sömu: Svona brattar vaxtahækkanir eru eina meðalið sem við eigum í lyfjaskápnum til að slá á bólguna, og ábyrgðina á bólgunni er nú einkum reynt að hengja um háls þess tiltölulega fámenna hóps landsmanna sem stundar ferðaþjónustu – sem vissulega laðar hingað fólk og er orðin ein helsta tekjulind þjóðarinnar.
Með þessum stökkbreytingum vaxtanna er vegið að kjörum tugþúsundum landsmanna, fólks sem ber enga ábyrgð á ferðaþjónustu né ofþenslu og sjúkleika okkar vanþroskaða fjármálakerfis. Þar að auki eru uppi teikn um að samdráttur hafi tekið hér við af þenslu sem blandinn verðbólgu er ekki kræsilegur kokteill.

Upplifunargeirarnir kallast á
Við sem höfum starfað í hjómsveitarhagkerfinu höfum iðulega fagnað því þegar aðsókn er góð og talið að það kæmi öllum til góða þegar allt væri í blóma og vel gengi.
En nei: „Ef það gengur of vel í einni grein þá getur það valdið þenslu annars staðar sem verður þá að stemma stigu við með því að leggja ofurvexti á alla í samfélaginu (nema aðalinn sem gerir upp í Evrum) í von um að draga megi úr aðsókninni svo að blóminn verði nú ekki of mikill“. (Hér er auðvitað verið að myndgera ástandið og einfalda að einhverju leyti með því að taka einn hluta upplifunargeirans og yfirfæra á annan, í von um að sem flestir átti sig á samhengi hlutanna).

Flókið en brýnt forgangsmál að horfast í augu við
Þverbrestirnir í því hagkerfi sem við höfum leyft að þróast hér og hafa jafn gríðarleg áhrif á líf okkar og heilsu sem raun ber vitni, birtast sumsé eftirfarandi furðusetningu:

„Ef mér gengur vel mun það vísast bitna á þér “.

Blóma og velgengni þarf að halda í skefjum með refsingum í formi refsivaxta. Refsivöndurinn er sagður eina vopnið sem bítur á alla gegn þenslu sem rekja má til búhnykkja og velgengni hinna fáu.

Vopnið, sjálfan vaxtarefsivöndinn, sem nota má að vild, höfum við fært í hendur einangruðum einvaldi í fílabeinsturni við Kalkofnsveg þar sem handvaldir jámenn mynda samhljóma bakraddakvartett. Vandarhöggin skulu sannarlega ekki spöruð og þjáðu fólkinu má blæða út undan refsivendinum – „eina beitta vopninu í vopnabúrinu“.

Er nema von að helstu meðulin sem nú er gripið til í lyfjaskápum venjulegs fólks á Íslandi séu áfengi, kvíða- og þunglyndislyf?

Jakob Frímann Magnússon
alþingismaður og oddviti Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi

Deila