Ríkisstjórnin hefur viðhaldið þeim stórfurðulega, bútasaumaða óskapnaði sem almannatryggingakerfið er orðið að. Kerfi sem ríkisstjórnir síðustu áratuga hafa komið á, viðhaldið og gert viljandi svo flókið að bara tölva getur reiknað út keðjuverkandi skerðingar til þeirra verst settu og sent þau beint í sárafátækt? Á sama tíma borga þeir sem grætt hafa á tá og fingri á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar lítið sem ekkert í skatt af ofurgróðanum. Ekki er króna tekin af þeim í skerðingar eða keðjuverkandi skerðingar af milljarðagróðanum.
Í fjármálaáætlun ríkisstjórnar til næstu fjögurra ára kemur skýrt fram að kjör þeirra sem hafa það einna verst í almannatryggingakerfinu munu versna enn meira ef sama ríkisstjórn verður áfram við völd eftir kosningar. Engar leiðréttingar eru á kjaragliðnun undanfarinna ára, kjaragliðnun sem er nú orðin 50%. Það er sú hækkun sem þeir sem eru á almannatryggingalaunum eiga inni. Þá er ótalin sú skattahækkun sem orðið hefur með því að persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun í landinu. Ríkisstjórnin setti aftur á krónu á móti krónu skerðingar. Hvers vegna? Bara til að geta skattað og skert verst settu ellilífeyrisþegana í sárafátækt, svo þeir eigi enn síður fyrir mat eða lyfjum.
Það var sagt fyrir síðustu kosningar að nú væri tími þeirra verst settu í okkar samfélagi kominn, þessir hópar gætu ekki beðið lengur. En þeir bíða enn. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur byggt upp þetta ömurlega almannatryggingakerfi og viðhaldið því með auknum skerðingum, sett inn þúsund krónur í keðjuverkandi skerðingakerfið sem renna í gegnum vasa öryrkja og eldra fólks og beint aftur í ríkissjóð. Það eina sem er eftir eru smáaurar í vasa þeirra verst settu ef það fólk er svo heppið.
Heilbrigðiskerfið er á ystu nöf, biðlistar lengjast, mönnunarvandi og kulnun í starfi er að verða stórt vandamál og þá hefur ekki enn verið samið við sjúkraþjálfara og talmeinafræðinga. Þá skora læknar einnig á stjórnvöld að standa við nauðsynlegar aðgerðir og úrbætur í heilbrigðiskerfinu. Þá eru hjúkrunarheimilin einnig komin á ystu nöf vegna fjárskorts og áhyggjulaust ævikvöld fjarlægur draumur.
Börn eiga skýlausan rétt á nauðsynlegri þjónustu og það er fáránlegt að um 1.000 börn séu á biðlista eftir þjónustu. Eitt barn á bið er einu barni of mikið. Geðheilsa barna og ungmenna á að vera forgangsmál. Börn í sárafátækt, eldri borgarar í sárafátækt, atvinnulausir, láglaunafólk í sárafátækt. Er ekki kominn tími á sanngirni og réttlæti handa öllum, að allir séu jafnir fyrir lögum og njóti mannréttinda og þá ekki síst að börnum sé tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst?
Flokkur fólksins segir; útrýmum strax fátækt og fólkið fyrst, svo allt hitt.
Guðmundur Ingi Kristinsson